Ragnhildur Hólmgeirsdóttir

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir
Photographer
Patricia Anna Þormar
Ragnhildur Hólmgeirsdóttir: Villueyjar. Unglingabók, Björt bókaútgáfa; Bókabeitan, 2019. Tilnefnd til verðlauna Norðurlandaráðs fyrir barna- og unglingabókmenntir 2020.

Í ungmennabókinni Koparborgin (2016) sem gerist á 16. öld sagði Ragnhildur Hólmgeirsdóttir söguna af dauðamerktri borg sem plágur og spilling hafa nánast lagt í rústir. Von borgarinnar felst í börnunum en þau eru líka merkt átökunum sem átt hafa sér stað. Koparborgin var lögð fram til barna og unglingabókaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2017. Villueyjar (2019) er sjálfstætt verk en gerist í sama sagnaheimi nokkrum öldum síðar. Villueyjar var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna 2020 og er tilnefnd til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar.

Villueyjar er fantasía sem segir frá Arildu, 14 ára stelpu í Norður-evrópska konungsdæminu Eylöndunum, og bróður hennar Maurice. Arilda er feimin en mjög tilfinningarík og greind stúlka. Systkinin eru munaðarlaus og búa hjá afa sínum á herragarði. Þau eru af bláfátækri aðalsætt. Á hverju hausti eru börnin send til eyjar þar sem aðeins eitt hús stendur, heimavistarskólinn þeirra. Af hverju er ekkert annað hús á eyjunni? Af hverju mega börnin ekki fara upp á heiðarnar og af hverju þagna allir þegar talað er um hina horfnu Koparborg?

Uppi á heiðinni leynist einhver óhugnaður, eitthvað lifandi dautt og post-human, sem sækist eftir lífi Arildu og Maurice. Þegar afinn deyr kemur í ljós að systkinin eru eignalaus. Þegar hin illu öfl slasa Maurice og hann er lagður inn á sjúkrahús á Arilda engan kost annan en hverfa aftur til eyjarinnar. Hún er alein og peningalaus og getur engum treyst. Hún leggur á flótta.

Saga Arildu er saga flóttabarna sem verða að berjast fyrir lífi sínu frá degi til dags. Allt öryggi er tímabundið. Eina skjólið sem Arildu býðst er meðal jaðarhóps þar sem hún eignast góða vini. En hópurinn reynist einnig glíma við eigin vandamál og líka vera á flótta.

Arilda og Maurice eru börn sem hafa ekkert gert til að verðskulda ofsóknir og harðræði. Hættulegustu ofsækjendur þeirra eru lifandi dauðir, post-humans, fólk sem hatar of mikið til að geta sleppt hendi af heimi hinna lifandi. Hvað kom fyrir þau?Börnin hafa sérstaka tengingu við það sem þau vita ekkert um og lenda í miðju átaka sem þau skilja ekki vegna þess að þögnin umlykur þann sögulega glæp, það þjóðarmorð sem ekki hefur verið gert upp heldur falið. Þegar Arilda skilur þetta ákveður hún að hætta að flýja og horfast í augu við hatrið.

Ragnhildur Hólmgeirsdóttir er sagnfræðingur að mennt og hefur verið mjög upptekin af því misrétti sem sagan þegir um. Mannkynssagan er full af lygum og  glæpum sem sigurvegararnir vilja ekki að sagt sé frá. Uppreisn gegn því getur aldrei endað á einn veg.