Sara Margrethe Oskal: Savkkuhan sávrri sániid

Sara Margrethe Oskal
Ljósmyndari
Torill Olsen
Ljóðabók, Iđut AS, 2012

Sara Margrethe Oskal (f. 1970) er fædd í Guovdageaidnu/Kautokeino í Noregi og á að baki langan feril sem leikkona, leikskáld og rithöfundur. Hún stundaði nám í leiklistarháskólanum í Helsinki og lauk doktorsprófi í gjörningalist frá listaháskólanum í Ósló. Fyrsta bók hennar var ljóðabókin áimmu vuohttume. Oskal er tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2016 fyrir aðra ljóðabók sína, savkkuhan sávrri sániid (á norsku: utrettelige ord).

Bókin tilnefnda, savkkuhan sávrri sániid, er knöpp og beinskeytt ljóðabók sem bregður upp orðfáum svipmyndum er veita lesandanum innsýn í daglegt líf Sama. Smám saman verður lesandinn þess var að saman mynda þessar svipmyndir stærri heild. Hægt er að lesa bókina sem lofsöng til Sama sem halda fast við gamla siði og venjur í daglegu lífi, þrátt fyrir sífelldan þrýsting frá umheiminum.

Í frumtexta bókarinnar er stuðlum og höfuðstöfum gert hátt undir höfði en það vekur hugrenningatengsl við hina samísku frásagnarhefð, þar sem stuðlun hefur ávallt verið mikilvægt einkenni. Hin mikla áhersla á stuðlun í savkkuhan sávrri sániid er þó ekki aðeins vísun til hefðarinnar, heldur einnig bókmenntalegt stílbragð. Stafrímið verður að drifkrafti ljóðanna og á þátt í að skapa heilan heim óvæntra mynda sem ljúka ljóðunum upp og gera að verkum að þau geta virst ólík í augum mismunandi lesenda, og mismunandi í hvert skipti sem þau eru lesin.

Ljóðin í savkkuhan sávrri sániid eru eins og lítil leiftur svipmynda sem smám saman mynda stærri heild, og þannig er einnig þematísk uppbygging bókarinnar. Þetta eru leiftur úr hversdagslífi hreindýrabænda, sem Oskal notar í raun til að skírskota til einhvers mun stærra og almennara. Að baki hversdagslegum önnum, á bak við saumaskap og þurrkun skinna, titrar sívaxandi örvænting. Heimurinn umhverfis samfélag Samanna er ósýnilegur í bókinni, en í rödd ljóðmælanda, í orðum hans og gerðum, er einhver ákafur tónn sem sýnir andrúmsloftið í samfélaginu og stöðu ljóðmælanda innan þess. 

Bókin veitir innsýn í brýn málefni líðandi stundar, þegar pólitísk þróun verður til þess að námaeigendur og aðrir hagsmunaaðilar í stóriðnaði þrengja stöðugt meir að frumatvinnugreinum Sama. Þannig verður ljóðasafn Oskals um fólk sem heldur fast við samíska lífshætti að pólitískum texta; ekki háværri yfirlýsingu sem slær fram stórum orðum og staðreyndum, heldur titrandi rödd er vefur sleitulaust saman þráðum, sem varpa ljósi á það sem glatast þegar stórfyrirtæki gera sig heimakomin á landi Sama og menga jarðir þeirra og hafsvæði. savkkuhan sávrri sániid er næm bók sem lætur lítið yfir sér, en sem opnar lesandanum öll ofangreind sjónarhorn – eitt í einu – uns hann veit ekki fyrr til en hann stendur í miðri víðáttu landslagsins.