Sørine Steenholdt og Ivínguak` Stork Høegh

Sørine Steenholdt, Ivínguak` Stork Høegh
Photographer
Privat (Ivínguak` Stork Høegh), Christian Klindt Sølbeck (Sørine Steenholdt)
Sørine Steenholdt og Ivínguak` Stork Høegh (myndskr.): Lilyp Silarsuaa. Myndabók, Arctic Media, 2021. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022.

Rökstuðningur

Í bókinni fylgjum við fjörugri og félagslyndri grænlenskri borgarstúlku að nafni Lily frá þriggja til níu ára aldurs. Stíll og innihald bókarinnar samanstendur af dásamlegum tilvitnunum í setningar og spurningar sem Lily hefur látið falla við móður sína, rithöfundinn Sørine Steenholdt. Sterkar og spennandi myndskreytingar eftir listakonuna Ivínguak` Stork Høegh ramma tilvitnanirnar inn í litríkan heim sem einkennist af rökvísi barna og er eins og að horfa í fallega og spennandi kviksjá.

 

Þar með verður bókin ekki aðeins nútímafrásögn af því hvernig hinn aðlaðandi heimur fullorðinna lítur út í augum barna og gegnum þeirra röksemdafærslur, heldur er hún einnig falleg og litrík skrásetning á lífi Lilyar yfir sex ára tímabil. Tilvitnununum í Lily fylgja skýringar móðurinnar Sørine á því hvenær og hvar Lily lét orðin falla, svo að fullorðnir lesendur geti skilið það samhengi sem Lily setti athugasemdir sínar og spurningar fram í.

 

Og forvitin er hún, hún Lily: Hún veit að jólin eru á veturna og að hreindýraveiði er stunduð síðsumars á Grænlandi. Því spyr hún eftirfarandi rökréttu spurningar: „Hvernig tengist eiginlega hreindýraveiðitíminn jólasveininum?“ Og þegar hún sá svartan líkbíl í fyrsta sinn sagði hún: En flottur bíll með rúmi í.“ Lily hafði heyrt að Danmörk væri fallegt land, og spurði því þegar hún sigldi inn í einn af fjörðunum við Nuuk í fyrsta sinn: „Er þetta Danmörk?“

 

Fyndið, skemmtilegt og skapandi innihald bókarinnar kallast á við innra tilfinningalíf barnsins og þá staðreynd að lífið getur stundum verið erfitt. Í bókinni er tekist á við ýmis þemu, svo sem heim stafrænnar tækni, Grænlendinga sem heimsborgara, þjóðerni, kynhlutverk og kynvitund, samband Grænlands og Danmerkur og fleira. Á heildina litið er mæðgnasambandið þó í forgrunni.

Myndskreytingarnar í bókinni

Listakonan Ivínguak` Stork Høegh hefur gert litríkar myndskreytingar með stafrænni klippimyndatækni við allar tilvitnanirnar í bókinni. Þannig eru allar þessar sjálfstæðu frásagnir tengdar saman í eina stóra sögu, eins og bútasaumsteppi þar sem börn og fullorðnir geta sökkt sér í orð og myndir og spjallað um barnarökvísi annars vegar og skilning hinna fullorðnu á tilfinningatengslum fullorðinna og barna hins vegar.  

Samlífi móður og dóttur

Lily vill ekki vera lítil prinsessa. Hún er grænlensk nútímastúlka sem býr í Nuuk og er óhrædd við að segja sína skoðun, líka þegar móðir hennar á í hlut. Hún er ákveðin stelpa sem er sjálf að safna sér peningum fyrir stærra trampólíni. Hún gefur notuðu fötin sín til nyrsta smábæjarins á Grænlandi. Að mörgu leyti líkist hún móður sinni. Í skólanum er spurt hvað börnin langi að verða í framtíðinni. „Ég veit það ekki, en þar sem ég er mjög lík mömmu minni verð ég líklega rithöfundur,“ svarar Lily.

Aukið sjálfstæði og mótun eigin sjálfsmyndar

„Hver var mamma mín áður en þú fæddist?“ spyr Lily. Dæmigerðar tilfinningar í mæðgnasambandi: ást, skapraun, reiði, þakklæti, væntingar, traust, öryggi, eru ekki ræddar undir rós í þessari bók. Hér eru engin tabú, og við heyrum þrisvar um þerapistann Dorthie þegar Lily biður móður sína að gera samskiptasamning handa sér. Mæðgurnar eru tengdar sterkum ástarböndum og eftir því sem traustið á samband þeirra vex í huga Lily víkur samruni móður og dóttur smám saman og hún byrjar að móta sér sjálfstæðar skoðanir og sjálfsmynd sem barn.

 

Sørine Steenholdt sýnir í þessari bók hvernig jafningjasamband barns og fullorðins getur litið út, hvernig Lily blómstrar og þroskast og pælir stöðugt í því hvernig henni líði og hver hún sé í samhengi við umhverfi sitt, nokkuð sem fjöldamörg börn geta samsamað sig.

Sørine Steenholdt hefur áður sent frá sér smásagnasafnið Zombieland, sem hlaut tilnefningu til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2016.