Steinsteypunótt - Finnland

Concrete Night (Finland)
Photographer
Ville Tanttu

Ágrip

Steinsteypunótt er draumkennd ferðasaga sem lýsir viðkvæmum huga ungs drengs og því að glata sakleysi sínu.  Myndin hefst á þröngu heimili í steinsteypufrumskóginum. Ilkka, sem er sá eldri af tveimur bræðrum, er að fara að heiman til að sitja af sér fangelsisdóm. Síðustu 24 tímana sem Ilkka er frjáls fylgir yngri bróðir hans, hinn viðkvæmi Simo, bróður sínum sem hann dáist að gegnum örlagaríka atburði kvöldsins.

Rökstuðningur dómnefndar

Steinsteypunótt Pirjo Honkasalos sýnir hvernig tiltölulega lítill óstöðugleiki í lífinu á unga aldri getur leitt til mikils harmleiks. Svarthvít kvikmyndatakan breytir landslagi borgarinnar í draumkennt og tímalaust einskismannsland. Kvikmyndir Honkasalos hafa alltaf merkingu, en hún er aldrei augljós.

Leikstjóri/Handritshöfundur – Pirjo Honkasalo

Pirjo Honkasalo er fædd í Helsinki 1947. Hún stundaði nám í kvikmyndagerð við Lista- og hönnunarháskólann í Helsinki (TAIK) og lauk meistaraprófi í kvikmyndafræðum frá Temple-háskólanum í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Hún leikstýrði ýmsum kvikmyndum á áttunda og níunda áratugnum með Pekka Lehto, til dæmis myndinni Tulipää sem var valin til þátttöku í aðalkeppninni í Cannes árið 1980. Á tíunda áratugnum fór hún að starfa ein og sneri sér þá að heimildamyndum. Hún leikstýrði meðal annars Þríleiknum um hið heilaga og hið djöfullega. Síðasti hluti þríleiksins, Atman, hlaut Joris Ivens-verðlaunin við kvikmyndahátíðina IDFA árið 1996. Heimildamyndin Melancholian 3 huonetta (Þrjú herbergi þunglyndis) hlaut ýmis verðlaun, meðal annars FIPRESCI-verðlaunin við heimildamyndahátíðina í Þessalóníku í Grikklandi. Hún leikstýrði síðan ITO ― Seitti ― Kilvoittelijan päiväkirja (ITO ― Dagbók borgarprests) sem tekin var í Tókýó.

Handritshöfundur – Pirkko Saisio

Pirkko Saisio er fædd í Helsinki árið 1949 og er einn þekktasti rithöfundur Finna. Hún hefur fimm sinnum verið tilnefnd til Finlandia-verðlaunanna, sem eru virtustu bókmenntaverðlaun Finnlands. Árið 2003 hlaut hún þessi eftirsóttu verðlaun fyrir skáldsöguna Punainen erokirja (Rauða skilnaðarbókin). Skáldsögur hennar hafa verið þýddar á sænsku.

Saisio er einnig lærð leikkona og virtur leikritahöfundur. Leikgerð skáldsögu hennar, Steinsteypunótt (gefin út 1981) hefur verið sett upp í Perú, Venesúela, Svíþjóð og Finnlandi.

Framleiðandi – Mark Lwoff

Mark Lwoff er fæddur 1978 og lauk BA-prófi í kvikmyndafræðum frá kvikmyndadeild háskólans í Aalto árið 2006. Hann er einn reyndasti kvikmyndaframleiðandi Finna. Hann öðlaðist fyrst þekkingu á kvikmyndaframleiðslu með því að vinna sem aðstoðarleikstjóri og framleiðslustjóri. Árið 2007 stofnaði hann framleiðslufyrirtækið Bufo með framleiðandanum Misha Jaari og handritshöfundinum Vesa Virtanen. Fyrsta kvikmynd fyrirtækisins í fullri lengd var Kuulustelu (Yfirheyrslan, 2009) eftir hinn viðurkennda finnska kvikmyndagerðarmann Jörn Donner. Myndin hlaut Jussi-verðlaunin fyrir bestu leikkonu (Minna Haapkylä).

Myndin Hyvä poika (Góði sonurinn) eftir kvikmyndagerðarkonuna hæfileikaríku Zaida Bergroth vann á annan tug alþjóðlegra verðlauna og var tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2011. 

Af öðru hæfileikafólki á uppleið sem Bufo hefur unnið með má nefna Akseli Tuomivaara. Frumraun hans, Korso, var frumsýnd í byrjun árs 2014.

Lwoff er að vinna að næstu mynd þessa unga leikstjóra, vísindatryllinum White Point, og um leið er hann að vinna að svörtu gamanmyndinni The Swedish Moment.

Lwoff og samstarfsmenn hans í Bufo eru einnig virkir á evrópskum vettvangi. Þeir voru meðframleiðendur eistnesku „stop motion“-myndarinnar Lisa Limone og rússnesku myndarinnar Роль (Hlutverkið) eftir Konstantin Lopushansky.  Lwoff var valinn í hóp evrópskra „framleiðenda á uppleið“ (Producers on the Move) á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2014.

Framleiðandi – Misha Jaari

Misha Jaari er fæddur árið 1972. Hann lauk grunnnámi í viðskiptafræði frá viðskiptaháskólanum í Helsinki og BA-prófi frá kvikmyndadeild háskólans í Aalto.

Eftir að hafa unnið um árabil sem framleiðlustjóri stofnaði hann framleiðslufyrirtækið Bufo árið 2007 ásamt framleiðandanum Mark Lwoff og handritshöfundinum Vesa Virtanen. Fyrsta mynd fyrirtækisins var verðlaunamynd Jörn Donners, Yfirheyrslan. Af öðrum myndum sem Jaari hefur unnið að má nefna Góða soninn í leikstjórn Zaida Bergroths sem vann til þriggja Jussi-verðlauna fyrir bestu mynd, leikstjóra og leikkonu (Elina Knihtilä) og sem tilnefnd var til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs.

Árið 2013 framleiddi Jaari hina margverðlaunuðu mynd Steinsteypunótt með kvikmyndatökumanninum/leikstjóranum Pirjo Honkasalo og var meðframleiðendi eistnesku „stop motion“-myndarinnar Lisa Limone og rússnesku myndarinnar Hlutverkið eftir Konstantin Lopushansky.

Árið 2014 framleiddi hann fyrstu mynd Akseli Tuomivaaras, Korso, og vinnur að næstu mynd leikstjórans, vísindatryllinum White Point.

Grunnupplýsingar um myndina

Frumtitill: Betoniyö

Leikstjóri: Pirjo Honkasalo

Handritshöfundur: Pirjo Honkasalo, Pirkko Saisio (byggt á skáldsögu hennar)

Framleiðendur: Mark Lwoff, Misha Jaari

Aðalleikarar: Johannes Brotherus, Jari Virman, Juhan Ulfsak, Anneli Karppinen

Framleiðslufyrirtæki: Bufo Ltd

Lengd: 96 mínútur

Dreifing innanlands: Cinema Mondo

Alþjóðleg dreifing: Film Republic

Dómnefndarmenn

Jaana Puskala, Outi Heiskanen, Harri Römpötti