Steve Sem-Sandberg

Steve Sem-Sandberg
Photographer
Stefan Tell
Steve Sem-Sandberg: W. Skáldsaga, Albert Bonniers förlag, 2019. Tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2020.

Rökstuðningur:

Við vitum í senn óvenju mikið og alls ekki neitt um hina raunverulegu persónu Johann Christian Woyzeck. Árið 1821 drap hann konuna sem hann sagðist elska og var í kjölfarið dæmdur til dauða að undangenginni langri réttargeðrannsókn. Örlögum hans var lýst af Georg Büchner í hinu ókláraða leikriti Woyzeck (1836) sem í dag telst til lykilverka í þýskum leikhúsbókmenntum, þrátt fyrir að vera brotakennt verk sem aldrei var lokið – eða kannski einmitt vegna þess. Þrátt fyrir að styðjast við sömu heimildir og Büchner gerði – yfirgripsmiklar fundargerðir frá yfirheyrslum yfir hermanninum, hárkollugerðarmanninum og brotamanninum Woyzeck – varpar skáldsaga Steves Sem-Sandberg, W., nýju, skínandi ljósi á þessa mögnuðu sögu. 

Í túlkun Sem-Sandbergs lætur Woyzeck stöðugt í minni pokann fyrir öðrum; er hunsaður, bældur og hæddur í hverju sem hann tekur sér fyrir hendur. Í fornlegum og orðmörgum en jafnframt liprum og fjaðurléttum texta bregður Sem-Sandberg upp mynd af manneskju sem reynir að lifa með reisn í veruleika sem virðist handan röklegrar hugsunar. Ógnir stríðsins og hin kuldalega manneskjusýn réttarsálfræðinnar standa í skýrri andstöðu við örvæntingarfulla löngun Woyzecks til að gera eitthvað fagurt úr því lítilsiglda lífi sem er hlutskipti hans. Sú viðleitni er auðvitað vonlaus og hefur í för með sér vitfirringu og ófyrirgefanlegan verknað. W. er skáldsaga um geðveikina hið innra og ytra og þá mörgu flóknu þræði sem liggja þar á milli. Fjöldi spurninga vaknar, fáum er svarað, næmur og myndrænn stíll höfundar er óaðfinnanlegur niður í smæstu smáatriði. Eins og oft áður nýtir Sem-Sandberg sér sögulegar heimildir í ríkum mæli og tekst á töfrum líkan hátt að umbreyta þeim í ógleymanlegt bókmenntaverk. 

Steve Sem-Sandberg (f. 1958) er rithöfundur, þýðandi og bókmenntagagnrýnandi. Hann hefur starfað sem rithöfundur frá árinu 1976 og er einkum þekktur fyrir fjölmargar sögulegar skáldsögur, meðal annars Theres (1996), Ravensbrück (2003) og Öreigana í Łódź (2009, kom út í íslenskri þýðingu Ísaks Harðarsonar hjá Uppheimum 2011), sem hlaut hin virtu August-verðlaun í heimalandinu.