Veera Salmi og Matti Pikkujämsä (myndskr.)

Veera Salmi & Matti Pikkujämsä
Photographer
Veera Salmi & Matti Pikkujämsä
Veera Salmi og Matti Pikkujämsä (myndskr.): Sorsa Aaltonen ja lentämisen oireet. Myndabók, Otava, 2019. Tilnefnd til verðlauna Norðurlandaráðs fyrir barna- og unglingabókmenntir 2020.

Myndabókin Sorsa Aaltonen ja lentämisen oireet („Aaltonen önd og flugeinkennin“, ekki þýdd á íslensku), skrifuð af Veera Salmi og myndskreytt af Matti Pikkujämsä, er nútímaleg dæmisaga um dýr. Persónan sem bókin dregur nafn sitt af er borgarönd sem hefur tapað hæfileikanum til að fljúga og ver dögunum í „bollubiðröðinni“ og á spjalli við aðra fugla. Í leyni lætur Aaltonen önd sig þó dreyma um að fljúga og þráir ferðalög.

Söguheimurinn er krökkur af persónum sem hafa orðið undir í lífinu og lent á jaðri samfélagsins. Bollubiðröðin, sem hluti fuglanna sækir lifibrauð sitt í, stendur fyrir matarúthlutanir til bágstaddra í hinum raunverulega heimi – með öðrum orðum þann ójöfnuð sem fer vaxandi í borgum nútímans. Svona lýsir sögumaður röðinni: „Þar bauðst dagskammtur af bollum handa þeim fuglum sem höfðu ekki látið drauma sína rætast.“

Fuglarnir í bollubiðröðinni monta sig af því litla sem efni standa til: hver sé á leið í hjartaaðgerð, hver hafi fengið hjólastól og jafnvel alvöru starf. Í hópi fuglanna er eitt umræðuefni langsamlega vinsælast: hvenær flogið verði suður á bóginn. Þegar Aaltonen heyrir slíkt tal finnst henni hún innilega utangátta. Aaltonen er önd sem hefur „aldrei farið neitt“. Hún getur ekki flogið, þorir ekki til læknis og finnst enginn geta haft áhuga á ófleygri önd eins og henni.

Í söguheimi bókarinnar er örbirgð borga og samfélagslegum ójöfnuði þó hvorki lýst með vonleysislegum né dapurlegum hætti. Gamansamar og skærlitar myndskreytingar Pikkujämsä mynda mótvægi við alvarlegt umfjöllunarefnið og bæði myndir og texti draga fram undursamlega fegurð borgarlífsins. Sólin skín eins og „smjörauga ofan á nýbakaðri bollu“ og fegurst af öllu er að fylgjast með dásamlegum dansi svananna á tjörninni.

Leikur að ýmsum einkennum og eiginleikum fugla ljær verkinu einnig aukna kátínu. Að sumu leyti eru fuglarnir eins og mannfólk og fullorðnir lesendur geta lesið úr suðurflugi þeirra háðsádeilu á borgarbúa sem leggja allt kapp á að ferðast suður á bóginn. Á hinn bóginn hefur sagan líka vistfræðilega skírskotun. Á finnsku er orðið „pullasorsa“, bolluönd, notað yfir borgarfugla sem lifa svo vel á brauðgjöfum mannfólksins að þeir hætta við að fljúga suður á bóginn þegar haustar og þurfa svo að þola kuldann allan veturinn. Er Aaltonen önd fórnarlamb slíkra matargjafa?

Í naífum og litríkum teikningum Pikkujämsä eru fuglarnir alvöru fuglar og hið breiða róf fjölbreytilegra tegunda gleður lesandann. Fuglahljóð eru hugvitsamlega fléttuð inn í frásögnina og ungir lesendur geta unað sér við að skoða skemmtileg smáatriði í teikningunum af fuglunum. Til dæmis er einn þeirra með poka hangandi á öxlinni sem skreyttur er með eggjamynstri. Svanirnir á tjörninni eru auðvitað vísun í Svanavatnið, einn þekktasta ballett heims.

Sagan hlýtur farsælan endi. Aaltonen önd áræðir loks að fara til læknis og fær greininguna „flugeinkenni“. Þetta hljómar dásamlega í eyrum andarinnar og tilhugsunin ein um að geta lært að fljúga fær hana til að opna sig fyrir nærumhverfi sínu og umheiminum á alveg nýjan hátt.

Veera Salmi (1976) er finnskur rithöfundur sem hóf feril sinn sem höfundur barnabóka árið 2012. Salmi hefur skrifað samtals fjórtán skáldsögur og myndabækur fyrir börn, auk einnar skáldsögu fyrir unglinga og annarrar fyrir fullorðna. Á meðal þekktustu verka hennar er hinn stórskemmtilegi bókaflokkur Puluboi ja Poni og myndabókaflokkurinn Päiväkoti Heippakamu. Salmi hlaut Kaarina Helakisa-verðlaunin árið 2014 og hefur að auki hlotið fjölda tilnefninga fyrir verk sín, meðal annars tilnefningu til Finlandia-verðlauna í flokki barna- og unglingabókmennta árið 2015. Einnig hefur komið út barnakvikmynd byggð á bókinni Puluboi ja Poni.

Matti Pikkujämsä (1976) er finnskur myndskreytir og grafískur hönnuður. Hann hefur myndskreytt fjölda myndabóka og ljóðabóka fyrir börn frá árinu 2002. Pikkujämsä hefur hlotið hin virtu Rudolf Koivu-myndskreytiverðlaun og hefur tvisvar verið tilnefndur til Finlandia-verðlaunanna í flokki barna- og unglingabókmennta fyrir myndskreytingar sínar.