Verðlaunahafi 2010

Cultura Bank, Norge
Ljósmyndari
Cultura Bank
Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2010 fara til þriggja banka, Merkur Andelskasse, Ekobanken og Cultura Bank. Bankarnir hljóta verðlaunin fyrir græna og sjálfbæra stefnumótun.

Þrír norrænir bankar fá Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2010

Þrír aðilar deila með sér verðlaununum, sem nema 350.000 dönskum krónum, u.þ.b. 47.000 evrum, í fyrsta sinn í sögu verðlaunanna.

Rökstuðningur dómnefndar:

Bankarnir hafa verið í fararbroddi hvað varðar fjárfestingar í sjálfbærum verkefnum og byggja allt sitt starf á þessu. Öll starfsemi þeirra byggir á grænum gildum og þeir vinna að því að gera samfélagið sjálfbært. Þess vegna eru þeir fyrirmynd annarra aðila sem vinna við fjármagnsumsýslu.

Danski bankinn Merku Andelskasse var stofnaður árið 1982, norski bankinn Cultura bank árið 1997 og sænski Ekobanken árið 1998. Þessir þrír bankar hafa byggt upp gott samstarf sín á milli.

Þema Náttúru- og umhverfisverðlaunanna 2010 er græn fjármagnsumsýsla. Verðlaunin eru veitt norrænu fyrirtæki, stofnun, fjölmiðli eða einstaklingi, sem hefur verið í fararbroddi og haft áhrif, beint eða óbeint, á fjármálamarkaðinn, fjármögnunariðnaðinn, banka eða ráðgjafa til að vinna að langtímamarkmiðum og samþætta sjálfbærni (náttúru- og umhverfismál og samfélagsábyrgð) í fjármálaumsýslu.

Umhverfisverðlaunin sem eru 350.000 danskar krónur eru nú veitt í sextánda skiptið. 15 aðilar voru tilnefndir til verðlaunanna í ár og sex af þeim kepptu um verðlaunin í lokaumferðinni.

Náttúru- og umhverfisverðlaunin eru ein af fjórum verðlaunum Norðurlandaráðs – önnur verðlaun eru veitt fyrir bókmenntir, kvikmyndir og tónlist. Sænska verkefnið „Í öllu veðri" hlaut Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 2009 og íslenska fyrirtækið Marorka hlaut verðlaunin árið 2008.

Markmiðið með umhverfisverðlaununum, sem veitt voru í fyrsta sinn árið 1995, er að efla áhuga á náttúru- og umhverfisstarfi á Norðurlöndum. Náttúru- og umhverfisverðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn á Norðurlandaráðsþinginu sem haldið verður í Reykjavík dagana 2. – 4. nóvember.

Náttúru- og umhverfisverðlaunin eru ein af fjórum verðlaunum Norðurlandaráðs – önnur verðlaun eru veitt fyrir bókmenntir, kvikmyndir og tónlist.