Verðlaunahafi umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2022

alt=""
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg, norden.org
Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2022 hlýtur sveitarfélagið Mariehamn á Álandseyjum fyrir Nabbens våtmark.

Rökstuðningur dómnefndar

Þema umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2022 er náttúrumiðaðar lausnir. Með þessu þema vill dómnefndin vekja athygli á því að náttúran og umsjón hennar geta átt þátt í margvíslegum lausnum á þeim vanda sem steðjar að loftslaginu og líffræðilegum fjölbreytileika, og jafnvel stuðlað að skilvirkri loftslagsaðlögun í borgarumhverfi samfara því að bæta heilsu og líðan fólks.

 

Votlendi af ýmsum gerðum eru fjölbreytilegar, notadrjúgar og náttúrumiðaðar lausnir sem einfalt er að skala upp eða niður. Votlendi voru áberandi í tilnefningum til umhverfisverðlaunanna í ár. Votlendið Nabbens Våtmark, sem staðsett er í Nabben í Mariehamn, er lítið og fjölhæft votlendi sem var sérstaklega hannað fyrir ákveðinn stað í litlum bæ.

 

Votlendið lengir keðju vatnsendurnýjunar á svæðinu þar sem regnvatni frá búsetu- og iðnaðarsvæðum er fyrst dælt í gegnum tvær sandsíur, setlón og loks votlendissvæði sem ætlað er fiskum. Auk þess að hreinsa afrennslisvatn og auka líffræðilega fjölbreytni á svæðinu auðveldar votlendið bæjaryfirvöldum að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga. Einnig býður votlendið góða möguleika til útivistar og námsheimsókna. Þannig verður votlendið leið til þess að virkja getu náttúrunnar til að veita fjölbreytilega vistkerfaþjónustu.

 

Votlendið í Nabben er staðbundið dæmi um náttúrumiðaða lausn sem hefur margvísleg jákvæð áhrif á plöntu- og dýralíf og vatnsumhverfi á svæðinu, auk þess að bæta félagslega vellíðan fólks. Dómnefndin telur að þetta tiltölulega litla verkefni sé til mikillar eftirbreytni hvað varðar skilvirkni og sveigjanleika í náttúrumiðuðum lausnum og veitir því sveitarfélaginu Mariehamn umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2022 fyrir Nabbens våtmark.