Vigdis Hjorth

Vigdis Hjorth
Photographer
Klaudia Lech
Arv og miljø. Skáldsaga, Cappelen Damm, 2016.

Tuttugasta skáldsaga Vigdisar Hjorth, Arv og miljø, hefst á kunnuglegri klípu. Að fjölskylduföðurnum látnum greinir fjögur systkini á um hvernig þau eigi að skipta með sér bústöðum fjölskyldunnar. Fyrr en varir hefur hin áþreifanlega deila um arfskiptin rótað áragömlum ágreiningsmálum upp á yfirborðið, sem ráða á endanum úrslitum þegar skrásetja á söguna um fjölskylduna og sess föðurins í henni fyrir komandi kynslóðir.

Síðan Vigdis Hjorth kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1983 hefur hún orðið ein sterkasta rödd norskra samtímabókmennta með esseyjum sínum, barnabókum og skáldsögum. Höfundarverk hennar nær hápunkti sínum hingað til í Arv og miljø, þar sem tungumálið undirstrikar hina áleitnu grunnþætti verksins. Í snöggum, styggum færslum segir aðalpersónan Bergljót, sem er ritstjóri á tímariti, frá dálitlu sem hún áttaði sig fyrst á mörgum árum áður og leitar nú aftur á hana, en sem fjölskylda hennar vildi aldrei hlusta á. Hún fer til sálfræðings og sækir stuðningsmiðstöð fyrir þolendur sifjaspella, þar sem hún er vöruð við því að opinskáum frásögnum af kynferðisofbeldinu sem hún var beitt sem barn verði ekki endilega mætt af þeim skilningi sem hún þráir og þarf á að halda.

Meginviðfangsefni Arv og miljø er ekki kynferðisofbeldi í sjálfu sér, heldur viðbrögðin við því. Í sendibréfum, samtölum og að því er virðist fljótfærnislegum dagbókarfærslum fylgjumst við með Bergljótu átta sig á því smám saman að fjölskylda hennar fylgir nákvæmlega sama samskiptamynstri og hún hefur verið vöruð við.

Um leið og nýjar upplýsingar úr fortíðinni eru smám saman kynntar til sögunnar, líkt og í kammerleikriti að hætti Ibsens, er einnig boðið til samræðu um stríð, átök og mismunandi leiðir til að takast á við stríðsáföll. Þessa samræðu á Bergljót sumpart við sjálfa sig, sumpart við vini sína, aukapersónur skáldsögunnar, og sumpart við bækur og greinar sem hún les – um stríðið á Balkanskaga eða sannleiksnefndina í Suður-Afríku eftir afnám kynþáttaaðskilnaðarstefnunnar. Hún kannar hið heillandi og ógnandi afl sem býr í sáttinni: Er rétt að stilla þolanda og geranda upp á jafnræðisgrundvelli, eins og í sannleiksnefnd? Eða er eitthvað til í því sem Bergljót hugsar þegar hún berst gegn fullri sakaruppgjöf gerenda, að „til séu andstæður sem ekki sé hægt að fella úr gildi, stundum sé það bara annað hvort eða“?

Í Bergljótu kynnumst við ritstjóra sem dregur eigin vitsmunalegu viðmið inn í umræðu þar sem heimsmálin eru eldfim í sjálfum sér og verða jafnframt afskræmdur mælikvarði á það sem aðalpersónan stendur frammi fyrir: „Sársauki minn var ekki sjúkur, heldur alger.“

Með innleggi sínu í umræðu um aðkallandi samfélagsvandamál – kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og eftirköst þess síðar á ævinni – skipar Arv og miljø sér í flokk með skáldsögum á borð við þríleikinn um Þóru eftir Herbjørgu Wassmo, sem hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1987. Um leið tekur höfundur það málsnið sem almennt er notað til að meðhöndla og miðla sálrænum áföllum og notar sem frásagnarstef. Spennan í skáldsögunni felst ekki í afhjúpun þess sem gerðist, heldur fremur í baráttu aðalpersónunnar við eigin sögu og þeim djúpstæðu átökum um sannleikann sem geta átt sér stað í hversdagslegustu aðstæðum og nánustu samböndum. Án ofureinföldunar tekst höfundi að skapa mikla spennu í kringum það sem Bergljót vill ná fram með sannleika sínum. Arv og miljø er skáldsaga sem kafar djúpt í vangaveltum um afleiðingar þess að segja frá og hafa rödd, og nær yfir mun víðara svið en hina áþreifanlegu fjölskyldusögu.