Gro Dahle og Svein Nyhus
Rökstuðningur
Tiki er stelpa sem finnst gaman að klifra hátt upp í tré og horfa niður á jörðina þar sem allt er svo lítið. En pabbi hrópar að hún verði að fara varlega og mamma hrópar að hún verði að fara varlega.
Smám saman finna mamma og pabbi fleiri og fleiri hluti sem Tiki þarf að vara sig á og hún skreppur saman og verður æ minni, uns hún er orðin svo lítil að hún rúmast inni í snjókúlu. Henni tekst að komast út úr kúlunni og klifra upp í tré og þá læra mamma og pabbi að þó að hlutirnir geti verið ógnvekjandi, þá fer oftast vel að lokum.
Í Ikke! („Ekki!“, ekki gefin út á íslensku) takast Gro Dahle og Svein Nyhus á við hugtakið „þyrluforeldrar“.
Sagan sýnir hvernig vilji foreldranna til að vernda barn sitt fyrir öllu illu getur leitt til þess að barnið tapi getunni til að sjá um sig sjálft.
Ljóðrænn textinn er fullur af rími, hugmyndaríkum myndskreytingum og óvæntum orðum og vendingum.
Þegar ákall foreldranna um að fara varlega verður æ ákafara veldur naíf sögumannsröddin því að myrkrið sem býr undir verður enn sterkara.
Endurtekningar drífa textann áfram og gera hann nánast seiðandi á köflum. Bókin lýsir því hvernig verndunarþörf foreldra getur orðið til þess að barnið upplifi sig sem fangið. Textinn bæði byrjar og endar í trénu, eina staðnum þar sem Tiki finnst hún vera frjáls.
Myndskreytingarnar eftir Svein Nyhus auðga og bæta við texta Dahle.
Litanotkunin er einföld á meðvitaðan hátt. Rautt stendur fyrir hið örugga og blátt fyrir hið skuggalega.
Í upphafi er næstum allur heimurinn rauður með smávegis af bláu, en eftir því sem líður á söguna tekur blái liturinn æ meir yfir. Að lokum er ekki nóg með að Tiki sé föst í snjókúlu heldur er allt þetta örugga umkringt hinu óörugga.
Myndskreytingarnar eru krökkar af smáatriðum og eru í senn gáskafullar og knappar. Stíll myndskreytinganna getur vakið hugrenningatengsl við áróður einræðisríkja, sem ýtir undir tilfinninguna fyrir „fangelsinu“ sem Tiki finnst hún vera í.
Að lokum tekst Tiki að brjótast út úr snjókúlunni. Hún sprengir sér leið gegnum hið bláa og út í það rauða og undir lokin birtast litirnir samsíða, rétt eins og hið örugga og óörugga eru í lífinu.
Gro Dahle (fædd 1962) sendi frá sér frumraunina, ljóðabókina Audiens, árið 1987 hjá forlaginu Cappelen. Í gegnum árin hefur hún skrifað margs konar bókmenntaverk, þó mest ljóð og myndabækur, og er þekkt fyrir sérstæðan ritstíl. Meðfram ritstörfunum hefur hún haldið námskeið í skapandi skrifum. Á ferli sínum hefur hún hlotið og verið tilnefnd til ýmissa verðlauna og árið 2022 hlaut hún heiðursverðlaun norsku Brage-verðlaunanna.
Svein Nyhus (fæddur 1962) er útskrifaður af grafíkbraut handverks- og listiðnaðarskóla norska ríkisins í Ósló. Hann hefur unnið sem myndskreytir síðan á seinni hluta níunda áratugarins og árið 1995 kom út fyrsta bókin sem hann skrifaði sjálfur og myndskreytti, myndabókin Drømmemaskinensem Gyldendal gaf út. Síðan þá hefur hann haldið áfram að myndskreyta meðal annars barnabækur, þar sem hann sýnir stöðugan vilja til að gera tilraunir með tjáningarformið. Margar myndabóka hans hafa orðið til í samstarfi við Gro Dahle.