Linda Bondestam

Linda Bondestam
Photographer
norden.org
Linda Bondestam: Mitt bottenliv – av en ensam axolotl. Myndabók, Förlaget M, 2020. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Í afskekktu horni heimsins býr hamingjusamt en sífellt einstæðingslegra froskdýr, hin litla tálknamandra, sem kannski er sú síðasta sinnar tegundar. Á botni stöðuvatnsins síns vex tálknamandran úr grasi, lærir að synda og uppgötvar umheiminn gegnum leik og samvistir við vini. En heimurinn fyrir utan tekur stöðugum breytingum og yfirvofandi hamfarir ógna hinum örugga afkima tálknamöndrunnar.

Hvernig á að semja myndabók fyrir börn sem fjallar um eitt flóknasta og viðkvæmasta málefni okkar tíma – loftslagsvandann? Það gerir Bondestam af bæði hug og hjarta í þessari hrífandi frásögn þar sem mannfólkinu er ýtt út á jaðarinn. Þannig færist sjónarhorn lesandans af mannfólkinu sem nafla alheimsins til víðara samhengis, þar sem dýrin og náttúran eru í brennidepli. Til mótvægis þessu djarfa umfjöllunarefni kemur alúðleg svipmynd af mögnuðu frumdýri sem ólgar af lífsorku.

Í Mitt bottenliv – av en ensam axolotl („Mitt botnlæga líf – saga einmana tálknamöndru“, hefur ekki komið út á íslensku) notar Bondestam texta og myndir til að segja átakamikla og stórbrotna sögu. Opnur bókarinnar geisla af litadýrð á dökkum, óljósum bakgrunni. Spennuna magnar sú eftirvænting sem felst í því að fletta einni síðu af annarri. Neðansjávarfjör og öldugangur kitla og þenja ímyndunaraflið til hins ítrasta. Lesandanum er boðið að stíga niður í undirdjúpin og hrífast með gríðarstórri öldu sem fossar fram yfir síður bókarinnar og flytur skelfingu lostna tálknamöndruna inn í óvænta framtíð.

Málbeiting höfundar er lipur og hugvitsamleg; sú ákvörðun að gera tálknamöndruna að sögumanni er snilldarleg. Þökk sé hinni ómótstæðilega hrífandi aðalpersónu geislar frásögnin af samkennd og áræðni. Með því að spegla hið smáa í hinu stóra býðst lesandanum að bera kennsl á ýmsa kunnuglega og áhugaverða þætti hinnar viðkvæmu Jarðar sem við búum á. Framtíð hennar varðar okkur öll.

Linda Bondestam (f. 1977) er margverðlaunaður myndskreytir og höfundur listrænna myndabóka. Hún hefur gefið út um 40 bækur. Verk hennar í samstarfi við meðal annars Stellu Parland (Katastrofer och strofer om slummer och stoj, 2003), Minnu Lindeberg ( Allan och Udo , 2011), Ulf Stark (Diktatorn , 2010) og Anniku Sandelin (Silkesapans skratt , 2019) hafa hlotið mikið lof, verðlaun og viðurkenningar og verið þýdd á ýmis tungumál. Árið 2017 hlaut bókin  Djur som ingen sett utom vi  (2016) eftir Ulf Stark og Lindu Bondestam barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Mitt bottenliv – av en ensam axolotl (2020) er önnur bókin sem Bondestam bæði skrifar og myndskreytir sjálf.