Peter F. Strassegger

Peter F. Strassegger
Ljósmyndari
Studio Hjelm
Peter F. Strassegger: Aleksander den store. Unglingabók, Samlaget, 2020. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Aleksander býr í ónefndu landi í Suður-Evrópu. Hann hefur alltaf verið erfitt barn. Alveg síðan hann var lítill hefur eitthvað einkennilegt verið í augnaráði hans, hefur mamma hans sagt honum. Eitthvað ókunnuglegt og ógnvænlegt. Í æsku átti hann líka til að fá æðisköst, eyðileggja hluti og kvelja smádýr. Einu sinni drap hann hamstur. Margoft er farið með hann til læknis, en læknirinn segir að allt sé með felldu.

Alvaran knýr dyra þegar Aleksander lendir í slagsmálum og rífur vinstra augað úr David, skólafélaga sem hefur lengi lagt hann í einelti. Aleksander er rekinn úr skólanum. Foreldrarnir ákveða að flytja til heimalands mömmu hans, Noregs. Móðirin er ófrísk og Aleksander á von á lítilli systur.

Aleksander er reiður. Reiður við áhyggjufulla foreldrana, ófædda systur sína og illu andana í nýja skólanum. Hann fær útrás fyrir reiðina með grimmd og slagsmálum. Maður gegn manni. Aleksander er herforingi, ekki bara fyrir eigin málstað heldur líka fyrir aðra sem lenda utanveltu. Hann berst til að lifa af. Til að krefjast réttar síns. Til að fá að vera í friði. En að baki harðri brynjunni eru aðrar tilfinningar: Þörf fyrir öryggi, löngun til að finna sinn stað í heiminum og til að aðrir sjái hann og meðtaki eins og hann er.

Aleksander den store („Alexander mikli“, hefur ekki komið út á íslensku) er hrífandi saga, sögð afdráttarlaust frá sjónarhorni unglingsdrengs, þar sem margt býr á milli línanna. Stíllinn er einfaldur, ber og laus við tilfinningasemi, og bygging sögunnar er þétt. Hin andfélagslegu persónueinkenni Aleksanders eru hvorki fegruð né þeim drepið á dreif, en þau eru heldur ekki notuð til að skrímslavæða hann. Sagan er trúverðug á sinn sálfræðilega flókna hátt, þar sem vont og gott eru ekki ósamrýmanlegar andstæður heldur tvær hliðar á sama peningi.

Sögulokin vekja von um breytingu og bjartari tíma fyrir Aleksander. Uppgjöf getur einnig falið í sér sigur. Uppgjöf getur einnig falið í sér sigur.

Peter F. Strassegger (f. 1984) er sálfræðingur. Árið 2012 hlaut hann Tarjei Vesaas-verðlaunin fyrir frumraun í bókmenntum fyrir skáldsöguna Stasia. Aleksander den store er fyrsta unglingabók hans. Hún var tilnefnd til U-verðlaunanna, sem eru bókmenntaverðlaun ungmenna í Noregi.