Gengið frá alþjóðlega samningnum um líffræðilegan fjölbreytileika – norræna nálgunin

03.05.22 | Yfirlýsing
Umhverfis- og loftslagsráðherrar Norðurlanda samþykktu eftirfarandi yfirlýsingu á fundi sínum í Ósló 3. maí 2022.

Upplýsingar

Adopted
03.05.2022
Location
Oslo

Í alþjóðlegri matsskýrslu IPBES (milliríkjavettvangs vísinda og stefnumótunar um líffræðilega fjölbreytni og vistkerfisþjónustu) (2019) voru send skýr skilaboð til heimsbyggðarinnar um þá fordæmalausu hnignun líffræðilegrar fjölbreytni sem orðið hefur. Í matsskýrslunni voru helstu beinu orsakaþættirnir sagðir vera breytingar á notkun lands/sjávar, bein nýting, loftslagsbreytingar, mengun og ágengar framandi tegundir. Alþjóðlegi samningurinn verður að taka mið af öllum orsakaþáttum til að snúa vörn í sókn fyrir náttúruna og allt það sem hún færir mannkyni.

Auk náttúruverndar og annarra áhrifaríkra verndarúrræða er rétt að leggja áherslu á mikilvægi sjálfbærrar nýtingar til þess að draga úr ógnum sem steðja að líffræðilegri fjölbreytni. Þróun sjálfbærrar nýtingar í atvinnugreinum á borð við landbúnað, lagareldi og fiskveiðar, á grundvelli endurnýjanlegra auðlinda og stjórnunarkerfa fyrir land, ferskvatn og sjó, er lykilatriði. Auðlindanýting og stjórnunarhættir í þessum atvinnugreinum þurfa að vera sjálfbær.

Auk þess skiptir höfuðmáli að einblína á lausnir sem gagnast bæði líffræðilegri fjölbreytni og loftslaginu. Það er grundvallaratriði að tryggja líffræðilega fjölbreytni og vistkerfi svo sem regnskóga og fenjavið til að tryggja þróun með tilliti til loftslagsbreytinga. IPBES áætlar að 37% af mótvægisaðgerðum gegn loftslagsbreytingum fyrir árið 2030 felist í náttúrulegum lausnum og að líkur séu á samlegðaráhrifum fyrir líffræðilega fjölbreytni.

Sem dæmi má nefna að í matsskýrslu IPBES er bent á að samfélög frumbyggja og annarra hafi stýrt umráðasvæðum sínum á landi og sjó með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni og á hátt sem samrýmist eða styður við líffræðilega fjölbreytni.

Það er brýn þörf á skipulegri og samþættri stefnu til að innleiða alþjóðlega rammann fyrir líffræðilega fjölbreytni á öllum stigum og á öllum sviðum samfélagsins, til dæmis með aðgerðum og nálgunum til að efla gagnsæi og samanburðarhæfi landsbundinna aðgerða og markmiða, eftirlit, skýrslugjöf og mat á innnleiðingu á lands- og alþjóðavísu. Nálgunin ætti að geta staðist framtíðarvæntingar og skapa sameiginlegt átak til þess að ná markmiðunum og uppfylla væntingarnar sem ramminn felur í sér.

Við, ráðherrar umhverfis- og loftslagsmála frá Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Finnlandi, Íslandi, Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum:

 

Með hliðsjón af norrænu ráðherrayfirlýsingunni um líffræðilega fjölbreytni, hafið og loftslagsmál sem samþykkt var í Helsingfors 12. maí 2021 og framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar um að svæðið skuli verða sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi árið 2030. Græn Norðurlönd er eitt af þremur stefnumálum okkar til að stuðla að nýsköpun og samstarfi um sjálfbæra nýtingu og vernd náttúruarfleifðar okkar;

Fögnum endurfjármögnun Hnattræna umhverfisbótasjóðsins og 36% aukningarinnar í úthlutun fyrir líffræðilega fjölbreytni, sem mun auka viljann og fjárhagslegu getuna til að nálgast heimsmarkmiðin og markmið rammans fyrir líffræðilega fjölbreytni;

Með tilliti til þess að brýnna samþættra aðgerða er þörf til að gera veigamiklar breytingar í því skyni að stöðva og snúa við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni með sjálfbærri stjórnun á landi, ferskvatni og hafi;

Leggjum áherslu á að náttúrumiðaðar lausnir geti gegnt mikilvægu hlutverki við að leysa hnattrænar áskoranir, svo sem tap á líffræðilegri fjölbreytni og eyðingu vistkerfa, og stuðlað að því að draga úr hættu á hamförum og minnka áhrif og auka aðlögun að loftslagsbreytingum;

Með tilliti til þess að nauðsynlegt sé að tryggja örugga ábúð, einkum frumbyggja og annarra samfélaga, á landi og í umgengni við náttúruauðlindir svo hægt sé að vernda líffræðilega fjölbreytni og tryggja sjálfbært lífsviðurværi.

Undirstrikum mikilvægi þess að skapa hvata fyrir landeigendur og atvinnugreinar til að vernda, viðhalda og stuðla að sjálfbærri notkun á líffræðilegri fjölbreytni og endurheimta starfsemi vistkerfa um leið og stutt er við sjálfbært lífsviðurværi og mildun loftslagsáhrifa;

Samþykkjum að auka aðgerðir og vekja athygli á líffræðilegum fjölbreytileika á Norðurlöndunm með sjálfbærum neyslu- og framleiðsluverkefnum, minni matvæla- og plastúrgangi, heilbrigðum höfum, náttúrulegum lausnum, fjármögnun á líffræðilegri fjölbreytni og með því að styðja við lífshætti fólks, þar á meðal hefðbundna lífshætti frumbyggja og annarra samfélaga;

Samþykkjum jafnframt að styðja við alþjóðleg verkefni til þess að vernda og endurheimta svæði með mikilli líffræðilegri fjölbreytni þar sem kolefni er fangað og varðveitt og til þess að koma í veg fyrir og draga úr áhrifum náttúruhamfara með það fyrir augum að taka á innri tengslum loftslags og líffræðilegrar fjölbreytni;

Samþykkjum enn fremur að flýta innleiðingu náttúrulegra lausna, samkvæmt skilgreiningu Umhverfisþings Sameinuðu þjóðanna, sem vernda, varðveita, endurheimta, nota á sjálfbæran hátt og stýra náttúrulegum eða breyttum vistkerfum á landi, í ferskvatni, við strendur og í sjó, og taka á félagslegum, efnahagslegum og umhverfislegum áskorunum á árangursríkan og aðlögunarhæfan hátt, en skila um leið árangri fyrir líðan fólks, þjónustu fyrir vistkerfi og stuðning við líffræðilega fjölbreytni og efla þannig forystuhlutverk Norðurlanda í framkvæmd náttúrulegra lausna þvert á landamæri og landsvæði;

Kynnum möguleika norrænna neytenda á að kjósa holla og sjálfbæra valkosti, þar sem dregið er úr úrgangi, þar á meðal matarúrgangi, um minnst helming með samstilltu átaki í sjálfbærri neyslu, endir er bundinn á ofnýtingu náttúruauðlinda og sjálfbær framleiðsla efld;

Fögnum árangrinum sem náðist á ráðstefnunni um líffræðilega fjölbreytni í Genf 14.–29. mars 2022, á framhaldi 24. fundar dótturstofnunarinnar í vísindalegri og tæknilegri ráðgjöf, þriðja fundi dótturstofnunarinnar um framkvæmd samningsins og þriðja fundi opna vinnuhópsins um alþjóðlega rammann um líffræðilega fjölbreytni eftir árið 2020;

Hvetjum aðila að samningnum um líffræðilega fjölbreytni til að ljúka við drög að alþjóðlega rammanum um líffræðilega fjölbreytni á fjórðu fundi opna vinnuhópsins í Naíróbí í Kenía 21.–26. júní 2022 og samþykkja metnaðarfullan og áhrifaríkan alþjóðlegan ramma um líffræðilega fjölbreytni á COP 15-ráðstefnunni (í Kunming í Kína) með áherslu á eftirfarandi:

  • Að samþykkja metnaðarfull og mælanleg markmið um líffræðilega fjölbreytni í samræmi við þrjú markmið samningsins;
  • Að undirstrika mikilvægt hlutverk og framlag heimamanna og nærsamfélaga sem umsjónarmanna líffræðilegrar fjölbreytni og tryggja fulla og virka þátttöku þeirra í ákvarðanatöku sem tengist líffræðilegri fjölbreytni;
  • Enn fremur að virða og tryggja réttindi frumbyggja í samræmi við yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um réttindi frumbyggja;
  • Að minnka vistspor okkar á heimsvísu þannig það sé vel innan hnattrænna marka;
  • Að nýta úrræði alls staðar frá til að ná markmiðum  alþjóðlegs ramma um líffræðilega fjölbreytni, og koma á fót skilvirkum lagalegum og stefnumarkandi ráðstöfunum til aðstoðar við framkvæmdina, á grundvelli vistkerfisnálgana, umhverfisreglna til að efla líffræðilega fjölbreytni og heilbrigði og vellíðunar manna;
  • Að samræma fjárstreymi opinberra aðila og einkaaðila við markmið alþjóðlega rammans um líffræðilega fjölbreytni;
  • Að varðveita 30% af haf- og landsvæðum um heim allan, m.a. með því að nota aðrar árangursríkar verndaraðgerðir, fyrir árið 2030;
  • Að notast við sjálfbæra stjórnun fyrir öll svæði sem notuð eru til landbúnaðar, lagareldis, fiskveiða, skógræktar eða annarrar vinnslu eða ræktunar;  
  • Að tryggja að samþætt landnotkunarskipulag þar sem tillit er tekið til líffræðilegrar fjölbreytni gildi um öll land- og sjávarsvæði heims;
  • Að efla heildstæði og tengsl allra vistkerfa og styðja við heilbrigða, lífvænlega og sterka stofna allra upprunalegra tegunda;
  • Að ítreka að COP 15-ráðstefnan ætti að sammælast um metnaðarfullt markmið til að tryggja aukna endurheimt raskaðra vistkerfa í ferskvatni, sjó og á landi og viðurkenna að endurheimt gegni lykilhlutverki til þess að ná markmiðunum fyrir árið 2030;
  • Að hvetja til áríðandi aðgerða í hverju landi til að stöðva minnkun á líffræðilegri fjölbreytni og styrkja stefnuúrræði til að setja líffræðilega fjölbreytni í forgang á öllum sviðum, og ná verulegum árangri í að kortleggja, útrýma, endurbæta, endurbeina eða endurskilgreina styrkveitingar sem skaða líffræðilega fjölbreytni á sanngjarnan, áhrifaríkan og jafnan hátt; 
  • Að leggja áherslu á mikilvægi mannréttinda og jafnréttis milli kynslóða og viðurkenna að hlutverk og þátttaka yngri kynslóða sé drifkraftur umbreytinga;
  • Að leggja áherslu á að skipuleg nálgun við skipulagningu, eftirlit, skýrslugjöf og mat, með það fyrir augum að styðja við framkvæmd samningsins um líffræðilega fjölbreytni, þurfi að vera hluti af alþjóðlega rammanum um líffræðilega fjölbreytni, þar með talin úrræði til að auka gagnsæi og samanburðarhæfi á lands- og alþjóðavísu;

 

Samþykkjum að fylgja eftir COP 15-ráðstefnunni í Kunming með því að meðal annars:

  • Framkvæma greiningu á niðurstöðum COP 15-ráðstefnunnar, með áherslu á hvernig efla megi framkvæmd á Norðurlöndum með norrænni samvinnu;
  • Uppfæra tafarlaust innlendar áætlanir um líffræðilega fjölbreytni og aðgerðaáætlanir í samræmi við alþjóðlegan ramma um líffræðilega fjölbreytni;
  • Stuðla að norrænni samvinnu til að ganga úr skugga um að náttúrumiðaðar lausnir með verndarráðstöfunum styrki félagslega, efnahagslega og umhverfislega þætti með kostnaðarhagkvæmum ráðstöfunum;
  • Auka þekkingu og samvinnu um hvernig megi taka tillit til áhrifa loftslagsbreytinga í samþættri og vistkerfislegri stjórnun sjávarumhverfis. 
  • Stuðla að vinnu varðandi náttúruleg tengsl; áhættumöt og áhrif á viðskipta- og fjármálalíf, meðal annars með upplýsingareglum, skýrslugjöf og áhættustýringu.
  • Stuðla að og styðja við fulla og skilvirka þátttöku frumbyggja og annarra samfélaga við innleiðingu alþjóðlega rammans um líffræðilega fjölbreytni;
  • Stuðla að og styðja við fulla og skilvirka þátttöku ungs fólks og annarra hagsmunaaðila við innleiðingu alþjóðlega rammans um líffræðilega fjölbreytni;
  • Efla verndun og sjálfbæra stjórnun allra sjávarsvæða;
  • Stöðva útrýmingu, auka umfang og bæta ástand vistkerfa sjávar og stranda, einkum mikilvægra vistkerfa svo sem fenjaviðarskóga, sjávargrasa, sjávarfitja, þarabreiðna, sandaldna, rifja og vistkerfa úthafsins.

 

Espen Barth Eide 

loftslags- og umhverfisráðherra Noregs

 

Annika Strandhäll

loftslags- og umhverfisráðherra Svíþjóðar

 

Guðlaugur Þór Þórðarson

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Íslands

 

Lea Wermelin 

umhverfisráðherra Danmerkur

 

Emma Kari

umhverfis- og loftslagsbreytingaráðherra Finnlands

 

Kalistat Lund

landbúnaðar-, sjálfbærni, orkumála- og umhverfisáðherra Grænlands

 

Magnus Rasmussen

umhverfis-, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Færeyja

 

Alfons Röblom

ráðherra Álandseyja