Yfirlýsing um losunarlausar siglingaleiðir
Upplýsingar
Við, ráðherrar umhverfis- og loftslagsmála frá Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Finnlandi, Íslandi, Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum:
Með hliðsjón af framtíðarsýninni um að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims;
Gerum okkur grein fyrir þörfinni á því að grípa til stórtækra aðgerða til að hraða grænum umskiptum í samgöngugeiranum og lágmarka áhrif á loftslagið og umhverfi, þ. á m. aðgerða sem tengjast jarðefnaeldsneytislausum samgöngum, sem einnig felur í sér að gera siglingaiðnaðinn á Norðurlöndum, sem flytur fólk og vörur til, frá og á milli landa okkar, kolefnishlutlausan;
Með hliðsjón af hitastigsmarkmiði Parísarsáttmálans og staðfestingu COP 26 á að grípa til aðgerða til að takmarka hlýnun við eina og hálfa gráðu á Celsíuskvarða miðað við hvernig það var fyrir iðnvæðingu samþykkt Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) á áætlun um skerðingu á losun gróðurhúsalofttegunda frá skipum árið 2018 og yfirstandandi vinnu við endurskoðun áætlunarinnar, þ. á m. losunarmarkmiða fyrir 2023;
Einnig með hliðsjón af yfirlýsingu um losunarlausar siglingar fyrir árið 2050 sem samþykkt var á loftslagsráðstefnunni COP 26 þar sem undirritendur skuldbundu sig til að efla aðgerðir á heimsvísu til að útrýma losun frá alþjóðlegum siglingum fyrir 2050, þ.m.t. hjá Alþjóðasiglingamálastofnuninni;
Sömuleiðis með hliðsjón af Clydebank-yfirlýsingunni sem samþykkt var á COP 26 þar sem undirritendur skuldbundu sig í sameiningu til aðgerða til að stuðla að því að upp verði komið að minnsta kosti sex grænum leiðum, þ.e. losunarlausum siglingaleiðum á milli tveggja (eða fleiri) hafna, áður en þessi öld er hálfnuð;
Veitum athygli og lýsum þungum áhyggjum af niðurstöðum fjórðu rannsóknar Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar á gróðurhúsalofttegundum frá 2020 en þar er áætlað að verði ekki gripið til frekari aðgerða megi búast við því að árið 2050 verði losun frá alþjóðlegum siglingum 90–130% af losun ársins 2008;
Samþykkjum að þörfin á hnattrænu framboði á hreinu eldsneyti til siglinga, losunarlausum sjóförum, nýjum drifkerfum og aðgengi að innviðum á landi sem þjónusta þau, sé aðkallandi svo takast megi að hraða umskiptum yfir í hreinar alþjóðlegar siglingar;
Samþykkjum jafnframt þann ávinning sem felst í að norrænt samstarf taki sér forystuhlutverk í umskiptum í siglingaiðnaðinum, meðal annars með því að styðja við að meginhluti norrænna ferjusiglinga verði gerður kolefnishlutlaus fyrir 2030;
Samþykkjum einnig að styðja við að komið verði upp losunarlausum siglingaleiðum fyrir ferjusiglingar á milli norrænu landanna, og
Ákveðum að koma á fót tilraunaverkefni í því skyni að finna slíkar leiðir og hagsmunaaðila úr siglingaiðnaði sem gengið skuli til samstarfs við til að raungera losunarlausar siglingar á viðkomandi leiðum. Verkefnið skal skapa skilyrði sem stuðla að því að aflað verði reynslu af hreinu eldsneyti til siglinga.
Espen Barth Eide
loftslags- og umhverfisráðherra Noregs
Annika Strandhäll
loftslags- og umhverfisráðherra Svíþjóðar
Guðlaugur Þór Þórðarson
umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Íslands
Lea Wermelin
umhverfisráðherra Danmerkur
Emma Kari
umhverfis- og loftslagsbreytingaráðherra Finnlands
Kalistat Lund
landbúnaðar-, sjálfbærni, orkumála- og umhverfisáðherra Grænlands
Magnus Rasmussen
umhverfis-, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Færeyja
Alfons Röblom
ráðherra Álandseyja