Norræn samstaða um frið

10.10.23 | Viðburður
alt=""
Ljósmyndari
Höfði Reykjavík Peace Centre
Formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni í samstarfi við Höfða friðarsetur býður þér að taka þátt í friðarráðstefnu þar sem rætt verður um framtíðarsýn Norðurlanda um sjálfbæran frið.

Upplýsingar

Dagsetning
10 - 11.10.2023
Tími
09:00 - 17:00
Staðsetning

Harpa
Austurbakki 2
Reykjavík
Ísland

Gerð
Ráðstefna

Vinsamlegast athugið að tímarnir eru íslenskir staðartímar

Umræðan um frið, afvopnun og friðsamlega lausn deilna hefur sjaldan verið mikilvægari. Friður er forsenda velferðar, jafnréttis, umhverfisverndar og félagslegs stöðugleika.

Fyrirlesarar

Meðal ræðumanna eru:

  • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands
  • Amina J Mohammed, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og formaður hóps SÞ um sjálfbæra þróun
  • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, samstarfsráðherra
  • Bruno Stagno Ugarte, talsmaður mannréttindasamtakanna Human Rights Watch
  • Sanam Naraghi Anderlini, stofnandi og framkvæmdastjóri The International Civil Society Action Network (ICAN)
  • Dag Nylander, framkvæmdastjóri Norwegian Centre for Conflict Resolution
  • Mahbouba Seraj, kvenréttindakona, tilnefnd til friðarverðlauna Nóbels

Málstofur eru skipulagðar af norrænu friðarrannsóknastofnunum: SIPRI, PRIO, DIIS, NUPI, TAPRI, friðarrannsóknastofnun Álandseyja og CMI - friðarstofnun Martti Ahtisaari

Norræn samstaða um frið

Formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2023 mun huga sérstaklega að mikilvægi friðar sem forsendu velferðar, mannréttinda og umhverfisverndar. Markmið ráðstefnunnar í Reykjavík er að leiða saman öflugan hóp skapandi hugsuða til að taka þátt í samtali milli kynslóða um hvernig við getum eflt norrænt samstarf í þágu friðar.

Í gegnum tíðina hafa Norðurlöndin leitast við að finna friðsamlegar lausnir á deilumálum sínum með samræðum og samvinnu og hafa unnið saman á alþjóðavettvangi til að tryggja að norræn gildi eins og lýðræði, jafnrétti og mannréttindi séu höfð að leiðarljósi. Almennt er litið svo á að fátækt og átök séu samtengd og því er einnig mikilvægt að takast á við efnahagslegar orsakir átaka, taka á ójöfnuði og byggja upp skilvirk og sanngjörn samfélög án aðgreiningar. Norðurlönd eru talsmenn þess að alþjóðasamvinna sé skilvirkasta leiðin til að takast á við þær alþjóðlegu öryggisáskoranir sem við stöndum frammi fyrir í dag. Þau hafa lengi látið sig afvopnunarmál og vopnaeftirlit varða og hafa tekið virkan þátt í því að endurvekja afvopnunarmálin.

Áhrif ólöglegrar innrásar Rússa í Úkraínu eru merkjanleg í Evrópu og víðar og staða öryggismála á Vesturlöndum hefur gjörbreyst. Umræðan um frið, afvopnun og friðsamlega lausn deilumála hefur því sjaldan verið mikilvægari. Sú staða sem nú er uppi gerir norræna samstöðu og samstarf mikilvægari sem aldrei fyrr.

Líkt og stríð rekur loftslagskrísan einnig fólk í burtu frá heimilum sínum og á vergang. Ef svo fer sem horfir mun loftslagskrísan leiða til mikilla fólksflutninga á næstu árum og áratugum með meðfylgjandi fjölgun umhverfisflóttafólks. Baráttan gegn þeirri vá sem fylgir loftslagskrísunni er ein meginstoð velferðar- og öryggismála og friður er á sama hátt grundvöllur þess að geta barist gegn loftslagsbreytingum, viðhaldið félagslegum stöðugleika og aukið jöfnuð.

Mikilvægt er að Norðurlönd sameinist um að setja loftslagsmál á dagskrá með afgerandi hætti á alþjóðavettvangi. Norðurlöndin geta og eiga að beita sér fyrir alþjóðlegum samningum um frið, friðaruppbyggingu og afvopnun á alþjóðavettvangi á grundvelli náins samstarfs síns á sviði velferðar, lýðræðis og mannréttinda.

Komdu og taktu þátt í umræðunni um framtíðarsýn Norðurlandanna í friðarmálum!