Andlát og arfur í Noregi

Kvinner trøster
Ljósmyndari
Photo by Priscilla Du Preez on Unsplash
Hér finnur þú upplýsingar um tilkynningu og skráningu dauðsfalla, útfarir, fjárhagsaðstoð í tengslum við greftrun og dauðsföll, arf og aðrar upplýsingar í tengslum við dauðsföll nákominna í Noregi, sem og upplýsingar um norskan lífeyri norskra ríkisborgara eða einstaklinga sem búsettir eru í Noregi sem deyja í öðru landi.

Hvað gerist þegar einhver deyr í Noregi?

Hér getur þú lesið þér til um hvað gerist þegar einhver nákominn þér deyr í Noregi. 

Tilkynning og skráning andláts

Þegar einstaklingur sem er búsettur í Noregi deyr þarf læknir að senda dánarvottorð til þjóðskrár hjá Skatteetaten. Dánarvottorð er staðfesting læknis á andláti. Læknirinn getur sent það rafrænt eða á pappír. Ef grunur leikur á að andlát hafi ekki borið að með eðlilegum hætti skal tilkynna lögreglustjóra (lensmann)/lögreglu um það. 

Ef hinn látni var tryggður af norskum almannatryggingum fær norska vinnumála- og velferðarstofnunin NAV alla jafna tilkynningu um dauðsfall frá þjóðskrá. Ef einhver nákomin(n) þér hefur fallið frá og þú ert ekki viss um hvort NAV hafi fengið tilkynningu skaltu hafa samband við NAV.

Ef þú býrð í öðru landi og einhver nákominn þér deyr í Noregi bera norsk yfirvöld ábyrgð á að tilkynna andlátið til yfirvalda í þínu landi, sem koma tilkynningu áleiðis til þín.

Þegar héraðsdómur hefur fengið tilkynningu frá þjóðskrá um andlát berst þér sem erfingi bréf með hagnýtum upplýsingum. Í bréfinu er aðstandandinn beðinn um að ákveða hvernig eigi að gera upp dánarbúið. Nánari upplýsingar um arf og arfskiptin eru neðar á þessari síðu.

Greftrun og útfararstyrkur

Margar spurningar vakna eftir dauðsfall. Sumar þeirra þarf að taka afstöðu til og bregðast við á næstu dögum eftir dauðsfallið, svo sem:

  • Hver aðstandendanna á rétt á að skipuleggja útförina.
  • Hvaða útfararstofu skal notast við fyrir útförina.
  • Á að vera kistulagning, líkbrennsla með jarðsetningu eða öskudreifing
  • Hvar skal jarða hinn látna
  • Ef óskað er eftir athöfn þarf að ákveða tíma, stað og innihald athafnarinnar
  • Dánartilkynning í dagblaði

Algengast er að greftrun eða líkbrennsla fari fram eigi síðar en tíu dögum eftir andlát. Ef um líkbrennslu er að ráða ber að jarðsetja öskuna eigi síðar en sex mánuðum eftir andlátið.

Það eru aðstandendur með rétt til að jarðsetja hinn láta sem sjá um útförina. Ef enginn sér um jarðsetningu ber sveitarfélaginu þar sem hinn látni bjó við andlát annast hana. Ef hinn látni var ekki búsettur í Noregi er það sveitarfélagið þar hinn látni bjó sem sér um jarðsetningu. Sveitarfélagið getur krafið dánarbú hins látna um greiðslu vegna jarðsetningarinnar.

NAV veitir í einstaka tilvikum útfararstyrk. Styrkurinn er veittur ef þörfin er greinileg en til þess að geta sótt um styrkinn þarf hinn látni / hin látna að hafa verið aðili að norska almannatryggingakerfinu. Sérreglur gilda ef andlát ber að erlendis. Einnig gilda sérreglur ef um vinnutengt dauðaslys er að ræða. Ef þú vilt kynna þér reglur um útfararstyrk getur þú haft samband við NAV.

Ef hinn látni átti aðild að almannatryggingum og flytja þarf hann yfir lengri vegalengdir geta aðstandendur einnig fengið hluta af kostnaði við líkflutning endurgreiddan.

Þegar norskur ríkisborgari eða einstaklingur búsettur í Noregi deyr erlendis

Hér getur þú lesið þér til um hvað gerist þegar norskur ríkisborgari eða fólk sem búsett er í Noregi deyr í öðru landi. 

Tilkynning og skráning andláts í útlöndum

Þegar norskur ríkisborgari deyr erlendis sendir norska utanríkisþjónustan í landinu sem viðkomandi lést í dánarvottorð til skattyfirvalda. Dauðsfallið veður þá skráð í þjóðskrá. Ef hinn látni var skráður með búsetu í Noregi senda skattyfirvöld dánarvottorðið til þess héraðsdóms þar sem hinn látni var síðast búsettur.

Ef hinn látni var erlendur ríkisborgari sem var búsettur munu yfirvöld í landinu þar sem dauðsfallið átti sér stað ekki sjálfkrafa senda tilkynningu til norskra yfirvalda. Eftirlifendur, aðstandendur og aðrir verða því að tilkynna dauðsfallið til þjóðskrár í Noregi. Það er gert með því að senda frumrit af dánarvottorði með apostille-vottun eða lögbókandavottun með pósti til Skatteetaten. Einnig er tekið við vottorðum sem hafa verið staðfest af norskri sendiskrifstofu.

Oft getur tekið langan tíma að ganga frá öllum formlegum atriðum þegar andlát ber að í öðru landi en búsetulandinu.

Útgjöld vegna andláts í öðru landi

Útgjöld vegna andláts í útlöndum skulu greidd af tryggingu hins látna, af dánarbúinu eða aðstandendum hins látna. Kostnaðurinn getur til að mynda verið vegna geymslu í líkhúsi, heimflutningi á hinum látna eða duftkerfi. Það getur verið góð hugmynd að hafa samband við tryggingafélag og jafnvel útfararþjónustu til að fá aðstoð í þessu ferli.

Arfur og reglur um arf í Noregi

Það eru héraðsdómarnir í Noregi sem hafa umsjón með arfi og skiptingu dánarbúa í Noregi. Skipti á dánarbúi felur í sér skiptingu á arfi, það er að deila út eigum hins látna. Í Noregi er ekki gerð skráning á öllum eignum og skuldum hins látna eins og gert er með „bouppteckning“ í Finnlandi og Svíþjóð.

Þegar héraðsdómi fær tilkynningu um dauðsfall frá þjóðskrá (Skatteetaten) hefur hann samband við erfingjana.

Hverjir erfa?

Þú erfir ef hinn látni/hin láta getur þín í erfðaskránni eða ef erfðalögin kveða á um það. Hafi hinn látni/hin látna ekki gert erfðaskrá eru það lögerfingjar og hugsanlegur eftirlifandi maki sem erfa. Ættingjar skiptast í þrjú erfðaþrep, eða erfðaflokka.

Erfingjar þurfa að ákveða hvernig búinu er skipt, það er hver á að skipta arfinum milli erfingja. Skipta skal dánarbúum í samræmi við skiptalög. Héraðsdómur getur leiðbeint um hvernig þú gerir upp dánarbúið (eignir og skuldir). 

Hvernig skiptist arfurinn?

Arfi er oftast skipt með einkaskiptum. Þá koma erfingjar sér saman um skiptingu eigna. Því er mikilvægt að skera úr um hverjir séu eiginlegir erfingja hins látna/hinnar látnu. Ef erfingjarnir velja einkaskipti veitir héraðsdómur þeim skiptavottorð. Vottorðið veitir erfingjunum umráðarétt yfir eignum hins látna/hinnar látnu.

Einkaskipti gera ráð fyrir að einn erfingi hið minnsta taki á sig ábyrgð á skuldum hins látna / hinnar látnu. Erfingjar sem óska eftir skiptavottorð eða öðrum vottorðum verða að fylla út umsóknareyðublað og undirrita það. 

Ef erfingjar vilja ekki taka á sig ábyrgð á skuldum eða skiptingu eigna hins látna/hinnar látnu getur héraðsdómur ef þess er óskað látið fara fram opinber skipti. Þá tilnefndir héraðsdómur skiptastjóra sem sér um stjórnun dánarbúsins. Reglan er sú að skiptastjórinn sjái um samskipti við erfingjana. Þegar gengið hefur verið frá öllum atriðum varðandi skiptingu búsins (til að mynda sölu eigna, lausn ágreinings, greiðslu skulda dánarbúsins) sendir skiptastjóri málið til héraðsdóms sem lýkur opinberum skiptum með tilkynningu um skiptingu arfsins til erfingja.

Er erfðaskattur í Noregi?

Erfðaskattur var lagður af í Noregi árið 2014. Engu að síður ber þér að tilkynna arf til Skatteetagen. 

Aðrar upplýsingar fyrir þá sem missa aðstandanda

Hjá HelseNorge má finna upplýsingar um hvernig hægt er að takast á við sorg og sorgarviðbrögð við fráfall einhvers nákomins.

Í sumum tilvikum getur þú átt rétt á bótum við fráfall aðstandanda.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna