Atvinnurekstur í Svíþjóð

Istunnel
Ljósmyndari
Karin Beate Nøsterud/norden.or
Hyggst þú hefja rekstur í Svíþjóð? Hér er að finna upplýsingar varðandi stofnun fyrirtækis, mannaráðningar og hvernig framkvæma á sölu og viðskipti fyrir þig sem hyggst hefja atvinnurekstur í Svíþjóð.

Á þessari síðu er að finna gagnlega tengla um hvernig hefja skal atvinnurekstur í Svíþjóð og upplýsingar fyrir sænsk fyrirtæki sem fyrirhuga að eiga viðskipti við önnur norræn lönd.

Á Verksamt.se er að finna upplýsingar um hvernig þú hefur atvinnurekstur, ræður starfsfólk og rekur fyrirtæki í Svíþjóð. Þar er einnig fjallað um sölu og verslun með vörur og hvernig þú ræður til þín starfsfólk.

Á evrópsku vefgáttinni Your Europe geturðu kynnt þér reglur um stofnun fyrirtækis í öðrum ESB-/EES-löndum

Samstarfsnetið Enterprise Europe Network veitir svör við spurningum varðandi ESB og Evrópumarkað.

Að hefja rekstur í Svíþjóð

Ef þú hyggst hefja rekstur í Svíþjóð gilda mismunandi reglur eftir því hvort þú ert ríkisborgari í ESB-/EES-landi eða ekki. Hafðu samband við Verksamt.se til að fá nánari upplýsingar.

Ef þú vilt hefja atvinnurekstur í Svíþjóð þarftu að ákveða rekstrarform og skrá reksturinn hjá Bolagsverket og Skatteverket.

Að velja rekstrarform í Svíþjóð

Áður en þú hefur rekstur þarftu að ákveða hvaða rekstarform hentar þér. Algengast er að hefja einstaklingsrekstur. Það þýðir að þú ert í rekstri sem einstaklingur og berð ábyrgð á rekstrinum. Þú berð ábyrgð á að greiða skatta og gjöld.

Ef þú ákveður að hefja einstaklingsrekstur þarftu ekki að skrá reksturinn hjá Bolagsverket. Þú getur þó skráð hann til að nafn rekstursins njóti verndar. Ef þú skráir reksturinn ekki hjá Bolagsverket getur einhver annar skráð rekstur með sama nafni.

Ef þú vilt stofna hlutafélag, verslunarfélag, samlagsfélag eða sameignarfélag þarftu að skrá reksturinn hjá Bolagsverket í Svíþjóð.

Ef þú ert með sænska kennitölu getur þú skráð þig inn á verksamt.se með sænskum rafrænum skilríkjum.

Ef þú ert ekki með sænska kennitölu þarftu að fylla út eyðublað til að skrá fyrirtækið, en eyðublöðin eru mismunandi eftir því hvernig rekstrarform þú velur. Á tenglinum hér að neðan er hægt að velja rétt eyðublað eftir rekstrarformi.

Skráning atvinnureksturs hjá sænskum skattyfirvöldum

Allan atvinnurekstur þarf að skrá hjá sænskum skattayfirvöldum, Skatteverket. Þegar þú skráir þig getur þú sótt um F-skatt, tilkynnt um virðisaukaskattskylda starfsemi og skráð þig sem launagreiðanda.

Ef þú ert með sænska kennitölu getur þú skráð þig inn með BankID í farsíma og skráð þig inn á rafræna þjónustu á verksamt.se.

Ef þú ert ekki með sænska kennitölu þarftu að fylla út eyðublaðið Företagsregistrering (SKV 4620) og senda það til Skatteverket.

Þú getur sent eyðublaðið til úrvinnslumiðstöðvar Skatteverket, FE 4600, 105 81 Stockholm.

Ráðning erlends starfsfólks til Svíþjóðar

Ef þú ert launagreiðandi eða sjálfstætt starfandi atvinnurekandi þarftu að fylgja ákveðnum reglum þegar þú ræður starfsfólk frá öðrum löndum.

Ráðning starfsfólks frá ESB-/EES-löndum til Svíþjóðar

Ef þú sem atvinnurekandi íhugar að ráða starfsfólk frá öðrum löndum er mikilvægt að þú kynnir þér fyrst reglur og lög sem gilda í því landi.

  • Skilríki: Starfsfólk þarf að sýna gilt vegabréf eða önnur skilríki þar sem ríkisfangið kemur fram.
  • Ráðningarsamningur/ráðningarkjör: Þér er skylt að gera skriflegan ráðningarsamning í hvert sinn sem þú ræður starfsfólk. Ráðningarsamningurinn á að innihalda upplýsingar um ráðningarform, ráðningardagsetningu, verkefni/embætti, laun, vinnutíma, orlof og kjarasamninga. Koma ber fram við starfsfólk frá ESB/EES-löndum á sama hátt og við sænskt starfsfólk í samræmi við jafnræðisreglu ESB. Sú regla bannar mismunun vegna þjóðernis hvað varðar ráðningu, laun og önnur starfs- og ráðningarkjör.
  • Vinnumarkaðstryggingar: Samkvæmt gildandi kjarasamningum er atvinnurekendum skylt að kaupa ýmsar vinnumarkaðstryggingar fyrir starfsfólk. Þú finnur nánari upplýsingar um tryggingar á vefsíðu Svenskt Näringsliv.
  • Almannatryggingar: Ríkisborgarar í ESB/EES-löndum eiga rétt á almannatryggingum í því landi sem þeir starfa og greiða fyrir félagslegar tryggingar. Það á einnig við þegar starfsmaður býr í öðru ESB/EES-landi. Fjölskyldumeðlimir starfsmanns sem ekki eru í vinnu eru tryggðir í starfslandi starfsmannsins. Almannatryggingar taka gildi á fyrsta ráðningardegi.
  • Skattareglur: Meginreglan í skattalöggjöfinni er sú að starfsmaður greiðir skatt í starfslandinu. Undantekningar eru frá þeirri reglu. Skatteverket í Svíþjóð getur veitt nánari upplýsingar.

Ráðning starfsfólks löndum utan ESB/EES til Svíþjóðar

Ríkisborgarar annarra landa en ESB/EES-landa sem vilja starfa í Svíþjóð þurfa að vera með atvinnuleyfi. Atvinnuleyfið þarf að vera greinlega áritað í vegabréf einstaklingsins áður en hann kemur til Svíþjóðar. Hafðu samband við vinnumiðlunina í Svíþjóð (Arbetsförmedlingen) til að fá nánari upplýsingar.

Gagnlegir tenglar fyrir atvinnurekendur

Mikilvægt er að atvinnurekendur í Svíþjóð séu í sambandi við Skatteverket (skattstofu), Arbetsgivarverket (atvinnurekendastofu) og Arbetsförmedlingen (vinnumiðlunina) í Svíþjóð til að tryggja að þeir fari að sænskum lögum og reglum. Einnig getur verið gagnlegt að hafa samband við Svenskt näringsliv (félag atvinnurekenda í Svíþjóð) til að fá réttar upplýsingar um reglur sem gilda um fyrirtæki í Svíþjóð.

Hafa samband við yfirvöld í Svíþjóð

Ef þú hyggst hefja atvinnurekstur í Svíþjóð veita ýmsar opinberar stofnanir upplýsingar sem varða stofnun fyrirtækis, mannaráðningar og fyrirtækjarekstur. Þar færðu nákvæmar upplýsingar um hvernig þú undirbýrð atvinnurekstur, velur félagaform, velur firmaheiti, vinnur viðskiptaáætlun og skráir fyrirtækið.

Sænsk skattyfirvöld - Skatteverket

Ef þú ert búin/n að stofa fyrirtæki og ert með spurningar varðandi virðisaukaskatt, skattframtal, bókhald eða mannaráðningar geta skattyfirvöld í Svíþjóð orðið þér að liði ókeypis aðstoð: Þú finnur einnig upplýsingar sniðnar að erlendum fyrirtækjum sem starfa í Svíþjóð. Allir sem stunda atvinnurekstur þurfa að færa bókhald og skila ársreikningum (bokföring och bokslut).

Verksamt.se

Verksamt.se er þjónustugátt sænskra yfirvalda. Þar er að finna upplýsingar um hvernig þú velur félagaform, gerir viðskiptaáætlun og skráir fyrirtæki þitt. Á Verksamt.se geturðu einnig gert gátlista yfir allt sem þarf að muna þegar þú hefur atvinnurekstur og fundið upplýsingar sem eru sniðnar að þínum aðstæðum.

Ef þú ert erlendur ríkisborgari og hyggst hefja rekstur í Svíþjóð gilda mismunandi reglur eftir því hvort þú ert ríkisborgari í ESB-/EES-landi eða landi utan evrópska svæðisins. Nánari upplýsingar þar að lútandi er að finna í vegvísi Verksamt.se fyrir erlenda ríkisborgara.

Bolagsverket

Bolagsverket skráir fyrirtæki og breytingar á fyrirtækjum og tekur við ársreikningum. Þar geturðu einnig keypt og leitað að upplýsingum um fyrirtæki í skrám Bolagsverket.

Tryggingar í Svíþjóð

Þegar þú hefur rekstur í Svíþjóð er mikilvægt að þú kannir hvaða tryggingar þú þurfir fyrir þig persónulega, fyrir fyrirtækið og fyrir hugsanlegt starfsfólk. Hafðu samband við fleiri en eitt tryggingafélag og berðu tilboð þeirra saman áður en þú ákveður þig.

Försäkringskassan veitir upplýsingar um félagslegar tryggingar fyrir þig og starfsfólkið.

Leyfi í Svíþjóð

Þú þarft að ganga úr skugga um hvort fyrirtæki þitt krefjist leyfis, skráningar eða annarra tilkynninga til yfirvalda, sveitarfélaga eða annarra stofnana. Starfsleyfi og eftirlit er ýmist á vegum staðbundinna, svæðisbundinna eða landsbundinna yfirvalda, það er sveitarfélaga, svæðisyfirvalda, sýslumannsembætta, Datainspektionen (gagnavernd) eða Livsmedelsverket (matvælastofnunar).

Sænsk fyrirtæki á Norðurlöndum

Sænsk fyrirtæki sem hyggja á útrás eða viðskipti við útlönd geta fengið aðstoð hjá ýmsum yfirvöldum.

Business Sweden

Business Sweden veitir fyrirtækjum þjónustu á öllum stigum útrásar.

Enterprise Europe Network

Enterprise Europe Network veitir litlum og meðalstórum fyrirtækjum ókeypis aðstoð til að finna erlenda viðskiptafélaga, skilja ESB-tilskipanir og finna ESB-fjármögnun.

Exportkreditnämnden

Exportkreditnämnden greiðir fyrir sænskum útflutningi og útrás sænskra fyrirtækja.

Kommerskollegium

Kommerskollegium starfar sem embætti umboðsmanns og úrlausnarsetur þegar fyrirtæki rekast á hindranir í viðskiptum sínum við útlönd.

Patent- och registreringsverket (Sænska einkaleyfastofan)

Patent- och registreringsverket veitir svör við spurningum varðandi einkaleyfi, vörumerki, hönnun og höfundarrétt.

Skatteverket (sænsk skattyfirvöld)

Skatteverket veitir svör við spurningum um skattlagningu, virðisaukaskatt og tolla á innflutning og útflutning.

Tullverket

Tullverket veitir upplýsingar um reglur þegar þú flytur inn vörur til Svíþjóðar eða flytur út vörur frá Svíþjóð.

Verksamt.se

Verksamt.se er þjónustugátt sænskra yfirvalda fyrir fyrirtæki.

Samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna