Bankareikningur í Danmörku
Stofnun bankareiknings í Danmörku
Allir sem dveljast með löglegum hætti í Danmörku eða öðru landi innan ESB/EES eiga rétt á að stofna einfaldan innláns- og greiðslureikning í dönskum banka. Þetta á einnig við um notendur sem ekki hafa dvalarleyfi en ekki er hægt að vísa úr landi.
- Með einföldum innlánsreikningi er hægt að leggja inn og taka út reiðufé, taka við millifærslum og fá greiðslukort með inneign.
- Með einföldum greiðslureikningi er hægt að leggja inn og taka út peninga, nota greiðsluþjónustu, senda og taka við millifærslum og nota einkabanka.
Á basalbetalingskonto.dk má sjá verð fyrir reikninga og tengda þjónustu hjá bönkum og sparisjóðum.
Banka er í ákveðnum tilvikum heimilt að synja beiðni um stofnun bankareiknings. Þá á við ef:
- bankinn telur að hún brjóti í bága við lög um peningaþvætti
- þú getur ekki sýnt fram á raunverulega ástæðu fyrir því að stofna reikning;
- þú átt þegar greiðslureikning í Danmörku, nema þú lýsir því yfir að þú hafir fengið tilkynningu um að þeim reikningi verði lokað;
- þú hafir gerst brotlegur við lög í viðskiptum þínum við peningastofnunina og peningastofnunin vilji koma í veg fyrir að þú misnotir rétt þinn til þess að vera með aðgang að reikningi eða;
- framferði þitt hafi verið hneykslanlegt eða öðrum viðskiptavinum eða starfsfólki bankans til ama.
Bankanum ber að stofna einfaldan greiðslureikning eða hafna stofnun slíks reiknings í síðasta lagi tíu virkum dögum eftir að fullgild umsókn um stofnun slíks reiknings berst. Höfnun skal vera skrifleg og rökstudd. Jafnframt skal slík höfnun innhalda nánari upplýsingar um möguleika notandans á að áfrýja höfnuninni til áfrýjunarnefndar fjármála og að skjóta höfnuninni til Fjármálaeftirlitsins.
Greiðslukort og lán í Danmörku
Bönkum er í sjálfsvald sett hvort þeir gefa út greiðslukort og veita lán. Því er mikilvægt að ræða við bankann um þá kosti sem eru í boði.
NemKonto
Allir íbúar Danmerkur þurfa að vera með svokallað „NemKonto". Það er venjulegur bankareikningur sem opinber yfirvöld og ákveðin fyrirtæki nota til þess að greiða þér peninga. Það geta verið barnabætur, ellilífeyrir, framfærslubætur frá hinu opinbera og ofgreiddur skattur. Hægt er að nota einfaldan greiðslu- eða innlánsreikning sem NemKonto. Þú þarft að upplýsa bankann þinn um hvaða reikning skuli nota sem NemKonto.
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.