Ellilífeyrir á Íslandi

Ellilífeyrir á Íslandi
Hér ma finna upplýsingar um ellilífeyrir á Íslandi.

Íslenska lífeyrissjóðakerfið er byggt upp á þremur meginstoðum en þær eru: almannatryggingakerfið, lífeyrissjóðir og viðbótarlífeyrissparnaður.

Hér á eftir er fjallað um lífeyrisgreiðlur almannatrygginga. Hægt er að lesa nánar um hinar tvær stoðirnar á Info Norden undir lífeyriskerfið á Íslandi. 

Algengast er að einstaklingar hefji töku ellilífeyris við 67 ára aldur. En aukinn sveigjanleiki er nú til staðar í almannatryggingakerfinu. Hægt er að sækja um ellilífeyri frá 65 ára aldri gegn varanlegri lækkun lífeyris að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Einnig er hægt að taka hálfan lífeyri samhliða því að taka hálfan lífeyrissjóð hjá lífeyrissjóði/lífeyrissjóðum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þá er hægt að fresta töku ellilífeyris til 80 ára aldurs og hækka þá greiðslur eftir 67 ára aldur samkvæmt tryggingafræðilegum grunni.

 

Á ég rétt á íslenskum ellilífeyrir?

Þeir sem eru 65 ára og hafa búið á Íslandi í minnst þrjú ár á aldrinum 16-67 ára eiga einhvern rétt á ellilífeyri.

Full réttindi eru þegar búseta hefur verið 40 ár samtals á tímabilinu 16 - 67 ára. Búsetan þarf ekki að vera samfelld. Ef búsetan er minni en 40 ár eru réttindi reiknuð út hlutfallslega eftir búsetu. 

 

Hvenær má hefja töku lífeyris?

Almennt hefst taka ellilífeyrs við 67 ára aldur hjá einstaklingum. Hinsvegar getur einstaklingur hafið töku lífeyris frá og með 65 ára aldri gegn varanlegri lækkun sem er byggð á tryggingafræðilegum grunni. Skilyrði er að fá lífeyri einnig frá 65 ára aldri frá lífeyrissjóði/lífeyrissjóðum og samanlagðar greiðslur á mánuði þurfa samtals að vera að lágmarki fullum ellilífeyri hjá Tryggingastofnun. 

Einstaklingur getur einnig sótt um hálfan lífeyri hjá Tryggingastofnun við 65 ára aldur gegn því skilyrði að vera á hálfum lífeyri frá lífeyrissjóði/lífeyrissjóðum. Þurfa þá samanlagðar greiðslur á mánuði samtals að vera að lágmarki fullum ellilífeyri hjá Tryggingastofnun. Hækkun verður á frestaðan hluta ellilífeyris til 67 ára aldurs en lækkun á þann hluta sem tekinn er til 67 ára aldurs.

Ef einstaklingur ákveður að fresta töku ellilífeyris frá 67 ára aldri þá hækka mánaðarlegar greiðslur samkvæmt tryggingafræðilegum grunni. Hægt er að fresta töku ellilífeyris til allt að 80 ára aldurs. Skilyrði er að fresta töku lífeyris hjá lífeyrissjóði/lífeyrissjóðum einnig.

Hækkun á greiðslum vegna frestunar á töku ellilífeyris og lækkun vegna snemmtöku ellilífeyris eru alltaf byggðar á tryggingafræðilegum grunni.

Hvernig sótt er um ellilífeyri

Ef einstaklingur býr á Íslandi

Sótt er um íslenskan ellilífeyri hjá Tryggingastofnun.

 

Sækja réttindi frá öðru norrænu ríki 

Tryggingastofnun aðstoðar þá sem hafa búið á Norðurlöndunum að sækja réttindi sín. Athugið að mismunandi reglur gilda milli landa um hvenær er hægt að byrja að taka ellilífeyri.

 

Ef einstaklingur býr í öðru norrænu landi og á rétt á ellilífeyri á Íslandi 

Einstaklingur sem býr erlendis og sækir um ellilífeyri skal hafa samband við systurstofnun Tryggingastofnunnar í því landi. 

 

 

Má taka með sér íslenskan ellilífeyrir til annars norræns lands?

Þegar flutt er til Norðurlandanna er meginreglan sú að ellilífeyrisgreiðslur flytjast á milli landa en viðbótargreiðslur sem byggjast á búsetu eins og heimilisuppbót og bensínstyrkur flytjast ekki.  Greiðslur úr lífeyrissjóðum flytjast almennt með en best er að hafa samband við lífeyrissjóði og fá það staðfest.

Hvernig er ellilífeyrir greiddur við andlát?

Réttur til ellilífeyris fellur niður við andlát. Samkvæmt íslenskum lögum verður við andlát einstaklings til sjálfstæður lögaðili, dánarbú, sem tekur tímabundið við öllum réttindum og skyldum hins látna. Réttindi og skyldur dánarbús og erfingja gagnvart Tryggingastofnun fara eftir því hvernig skiptum dánarbúsins verður háttað. 

Má vinna á meðan einstaklingur mótttekur ellilífeyri?

Ef einstaklingur fær fullan ellilífeyri frá Tryggingastofnun hafa atvinnutekjur áhrif á greiðslur ef þær fara upp fyrir ákveðna fjárhæð á mánuði/ári. Ef einstaklingur uppfyllir skilyrði að vera með hálfan lífeyri frá Tryggingastofnun hafa tekjur ekki áhrif á greiðslur.

 

Uppbætur á lífeyri aldraðra 

Auk ellilífeyris geta ellilífeyrisþegar átt rétt á uppbótum á ellilífeyri svo sem heimilisuppbót fyrir þá sem búa einir og uppbót vegna reksturs bifreiðar ef um líkamlega hreyfihömlun er að ræða. Einnig eru greiddar uppbætur vegna sérstakra útgjalda:

  • Lyfja- og sjúkrakostnaðar 
  • Umönnunar í heimahúsi 
  • Dvalar á sambýli 
  • Rafmagnskostnaðar vegna notkunar á súrefnissíu 
  • Heyrnartækja 
  • Húsaleigu sem fellur utan húsaleigubóta

Þessar greiðslur eru þó allflestar háðar ákveðnum skilyrðum, til dæmis varðandi tekjur lífeyrisþega, búsetu á Íslandi, heimilisaðstæður og fleira.

Hvar áttu að borga skatt af íslenskum ellilífeyri sértu búsettur í öðru norrænu landi?

Nánari upplýsingar um skattlagningu lífeyris á Norðurlöndum er að finna á norrænu skattavefgáttinni Nordisk eTax. 

Við hvern á að hafa samband ef spurningar vakna?

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Tryggingastofnunar. Einnig er hægt að fá upplýsingar símleiðis hjá þjónusturáðgjafa í síma (+354) 560 4400. 

Hafa samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna