Sjúkradagpeningar í Finnlandi

Suomen sairauspäiväraha
Hér segir frá því hvernig framfærsla vinnandi fólks í Finnlandi er tryggð á veikindatímabilum. Mögulegar leiðir eru launað veikindaleyfi og sjúkradagpeningar frá finnsku almannatryggingastofnuninni (Kansaneläkelaitos eða Kela). Að auki eru launþegar tryggðir vegna vinnuslysa og atvinnusjúkdóma. Þær reglur sem hér er lýst eiga einnig við á Álandseyjum.

Ef þú veikist eða lendir í slysi getur þú, að vissum skilyrðum uppfylltum , átt rétt á launuðu veikindaleyfi og sjúkradagpeningum. Sem launþegi ertu einnig tryggður fyrir vinnuslysum og atvinnusjúkdómum.

Launað veikindaleyfi

Að vissum skilyrðum uppfylltum átt þú sem launþegi rétt á launum frá vinnuveitanda á veikindatíma í samræmi við gildandi lög um starfssamninga og starfsskilyrði. Þú þarft að tilkynna um fjarveru þína með viðeigandi hætti og skýra vinnuveitanda þínum frá ástæðu þess að þú getur ekki sinnt starfi þínu. Þetta felur yfirleitt í sér að framvísa læknisvottorði. Nánari upplýsingar eru á síðunni Työsuojelu.fi.

Sjúkradagpeningar

Ef þú ert sjúkratryggð/t/ur í Finnlandi og á aldrinum 16–67 ára getur þú fengið sjúkradagpeninga. Sjúkradagpeningar eiga að bæta tekjumissi sem hlýst af því að geta ekki stundað vinnu með venjubundnum hætti vegna veikinda.  Þú getur líka átt rétt á sjúkradagpeningum við aðrar aðstæður, svo sem ef þú stundar nám eða ert atvinnulaus/t í atvinnuleit.

Hafir þú verið í veikindaleyfi að læknisráði í tíu virka daga (daginn sem veikindi hófust auk níu næstu virku daga) getur þú fengið sjúkradagpeninga frá Kela. Vinnuveitanda er skylt að greiða laun fyrir tíu daga sjálfsábyrgðartímabil. Hafir þú YEL-tryggingu, sem er fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga, er upphafsdagur veikinda skilgreindur sem sjálfsábyrgðartímabil sjúkradagpeninga.

Dagpeningarnir eru reiknaðir út á grundvelli árstekna. Árstekjur eru yfirleitt reiknaðar út frá tímabili 12 dagatalsmánaða, á undan síðasta dagatalsmánuði áður en veikindi hófust. 

Fái viðkomandi laun á veikindatímanum borgar Kela sjúkradagpeningana til vinnuveitandans. Hætti viðkomandi að fá laun á veikindatíma fær hann sjúkradagpeninga frá Kela. Verði einstaklingur óvinnufær í lengri tíma vegna veikinda getur hann sótt um endurhæfingarstyrk eða örorkulífeyri.

Á að flytja til Finnlands?

Flytji einstaklingur til Finnlands á meðan hann þiggur sjúkradagpeninga frá öðru ESB/EES-landi eða Sviss, þá borgar landið sem flutt er frá yfirleitt dagpeninga út greiðslutímabilið.

Ertu að flytja frá Finnlandi til annars norræns lands?

Sé flutt á sjúkradagpeningatímabili frá Finnlandi til annars ESB/EES-lands eða Sviss verða sjúkradagpeningar greiddir áfram frá Finnlandi þrátt fyrir flutninginn.

Ert þú útsendur starfsmaður eða vinnur þú stundum í öðru norrænu landi?

Þegar upphæð sjúkradagpeninga er reiknuð út eru árstekjur aðeins teknar með í reikninginn fyrir það tímabil sem þú hefur verið sjúkratryggð/t/ur í Finnlandi. Sért þú útsendur starfsmaður sem fær svokölluð tryggingarlaun (s. försäkringslön) eru tekjur frá öðru landi ekki teknar með í árslaunum. Þess í stað eru tryggingarlaunin tekin með í reikninginn. Sé ekki um tryggingarlaun að ræða eru laun frá öðru landi sem skattur er fyrirfram reiknaður af, eða laun greidd einstaklingi með takmarkaða skattskyldu, tekin með við útreikning árstekna.

Að öðrum kosti getur þú sýnt fram á tekjur frá tímabili sem þú hefur ekki verið tryggð/t/ur í Finnlandi, ef þú hefur áður verið tryggð/t/ur í Finnlandi og haft tekjur af vinnu í öðru norrænu landi, og komið aftur til Finnlands og látið tryggja þig þar. Það á þó aðeins við ef þú hefur engar árstekjur haft frá Finnlandi. Ef tekjur frá öðru landi í slíkum tilvikum eru töluvert lægri eða hærri en tekjur fyrir sambærileg störf í Finnlandi er hægt að reikna upphæð dagpeninga út frá tekjum fyrir sambærileg störf í Finnlandi, sé horft til tekna einstaklinga sem sinna sambærilegum verkefnum í Finnlandi og sem hafa svipaða reynslu og færni og hinn tryggði einstaklingur.

Vinnuslys og atvinnusjúkdómar

Vinnuveitanda er skylt að tryggja starfsfólk sitt fyrir vinnuslysum. Allir launþegar eru tryggðir fyrir slysum og atvinnusjúkdómum sem verða á vinnutíma eða hljótast af kringumstæðum tengdum vinnunni. Sérstakt kerfi er fyrir bætur vegna slysa sem henda námsmenn í starfsþjálfun. 

Hafðu samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna