Húsnæði í Svíþjóð

Bolig i Sverige
Ertu að leita þér að húsnæði í Svíþjóð? Þá finnur þú hér góð ráð og upplýsingar um búsetuform, fasteignakaup, leiguíbúðir og hvaða reglur gilda um erlenda ríkisborgara.

Það getur verið áskorun að finna húsnæði í Svíþjóð, en með réttum upplýsingum og aðferðum getur þú aukið líkur þínar á að finna hið fullkomna húsnæði.

Óháð því hvort þú vilt kaupa eða leigja er mikilvægt að skilja sænska húsnæðismarkaðinn og mismunandi búsetuform í landinu. Í þessari grein eru gefnar gagnlegar upplýsingar um hvernig skal festa sig á sænska húsnæðismarkaðnum.

Búsetuform í Svíþjóð

Í Svíþjóð eru þrjú almenn búsetuform:

  1. Hús: Þú getur valið að búa í þínu eigin húsi á þinni eigin landareign eða átt húsið og leigt landareignina sem það er byggt á („tomträtt“). Ef þú býrð á eigin landareign berð þú ábyrgð á svo til öllu í tengslum við húsnæðið.
  2. Íbúð í húsnæðisfélagi („bostadsrätt“): Þetta felur í sér að þú kaupir prósentuhluta af fasteigninni og hefur afnotarétt af íbúðinni. Fasteignin er í sameiginlegri eigu ásamt öðrum íbúum. Íbúar hússins eiga fasteignina og eru í húsnæðisfélagi. Reglurnar eru breytilegar milli félaga en ekki er hægt að leigja út íbúðina án leyfis stjórnar húsnæðisfélagsins.
  3. Leiguíbúð (hyresrätt): Þú greiðir mánaðarlega leigu.

Einnig eru til önnur búsetuform, svo sem leiguhúsnæði í sameignarfélagi („kooperativ hyresrätt“) og íbúðir í eigin eigu („äganderätt“), þar sem þú átt húsnæðið án þess að vera meðlimur í húsnæðisfélagi.

Útlendingar geta keypt fasteignir í Svíþjóð

Bæði sænskir og erlendir ríkisborgarar geta keypt fasteignir í Svíþjóð. Ekki er gerð krafa um að vera sænskur ríkisborgari eða að hafa sænska kennitölu. Hins vegar eru gerðar vissar kröfur um sjálft kaupferlið. Til að kaupa fasteign þarf að gera skriflegan samning sem inniheldur upplýsingar um kaupupphæðina og undirskriftir bæði kaupanda og seljanda.

Fasteignakaup í Svíþjóð

Það getur verið spennandi fjárfesting að kaupa hús eða búseturétt í Svíþjóð, en það krefst þekkingar og skilnings á sænska fasteignamarkaðnum. Hér eru nokkur grundvallaratriði við kaup á húsnæði í Svíþjóð:

  1. Finndu þitt draumahúsnæði: Byrjaðu á því að leita að húsnæði sem uppfyllir þarfir þínar og er á verði sem þér hugnast. Þú getur notast við fasteignasíður, fasteignasala eða haft beint samband við auglýsendur.
  2. Skoðaðu fasteignina: Þegar þú finnur áhugaverða fasteign skaltu fara og skoða húsnæðið og svæðið í kring.
  3. Fjármögnun: Þú þarft að vita hvernig þú vilt fjármagna kaupin. Það getur verði með bankaláni eða eigin fjármagni.
  4. Kaupsamningur: Þegar þú hefur fundið draumahúsnæðið og ert reiðubúin(n) til að kaupa er gerður skriflegur kaupsamningur sem lýsir öllum skilyrðum og kjörum.
  5. Úttekt og ástandsskoðun: Þú þarft að gera tæknilega úttekt á húsnæðinu og jafnvel láta ástandsskoða það til að tryggja að allt sé í lagi.
  6. Framsalsskjöl: Fyrir framsalið þarftu að tryggja að öll nauðsynleg skjöl séu í lagi, þar á meðal afsalið og möguleg veðbréf.
  7. Framsal: Þegar allt er til reiðu og kaupsamningur hefur verið undirritaður er fasteignin framseld.
  8. Skráning og skattar: Skrá þarf fasteignina í sænska fasteignaskrá og því kann að fylgja kostnaður í formi framsalsskatta og stimpilgjalda.
  9. Fasteignatryggingar: Mundu að fá þér fasteignatryggingu sem tryggir húseignina og innbúið.
  10. Nýtt húsnæði: Nú er kominn tími til að njóta nýja húsnæðisins í Svíþjóð!

Mundu að fasteignamarkaðurinn í Svíþjóð getur verið frábrugðinn þeim í heimalandi þínu og því er gott að fá ráðgjöf frá sérfræðingum og kanna hvaða lög og reglur gilda um fasteignakaup í Svíþjóð.

Íbúðaleiga í Svíþjóð

Ef þú vilt ekki kaupa fasteign í Svíþjóð getur þú leigt íbúð. Mikil eftirspurn er eftir leiguhúsnæði í Svíþjóð og því getur verið vandasamt að finna íbúð við hæfi. Þú getur leigt íbúð bæði frá húsnæðisfélögum sveitarfélaga og einkareknum leigufélögum. Sveitarfélögin reka eigin leigumiðlanir þar sem þú getur skráð þig á biðlista. Einkarekin leigufélög geta einnig verið góður kostur.

Heilræði við leit að leiguíbúð í Svíþjóð

Þar sem eftirspurn eftir leiguhúsnæði er mikil er mikilvægt að sýna frumkvæði í leitinni. Hér eru nokkur heilræði:

  • Skráðu þig á biðlista hjá sveitarfélagi sem allra fyrst og vertu opin(n) fyrir því að búa aðeins út fyrir miðbæinn.
  • Leitaðu að húsnæði hjá einkareknum leigufélögum sem oft halda úti eigin vefsíðum til að skrá áhuga. Sum einkarekin leigufélög nota ekki biðraðakerfi byggt á tíma á biðlista heldur notast við aðrar aðferðir til að forgangsraða leigjendum.
  • Sendu tölvupóst til leigusala með stuttri lýsingu á þér og áhuga þínum á að leigja hjá viðkomandi.
  • Íhugaðu að leigja með öðrum til að minnka húsnæðiskostnað og hitta nýtt fólk. Athugaðu leigusamninginn vel þar sem í flestum tilfellum felur hann í sér að þú framleigir eða deilir húsnæði með öðrum, sem þýðir að auðveldara er að segja samningnum upp.
  • Notaðu fasteignasíður og samfélagsmiðla til að leita að lausum leiguíbúðum.

Framleiga í Svíþjóð

Ef þú átt erfitt með að finna þér varanlegt húsnæði er framleiga möguleiki. Í Svíþjóð nefnist slík leiga „att hyra i andra hand“ og að fá „andrehandskontrakt“. Framleiga felur í sér að þú leigir íbúð frá fyrsta leigjanda, ekki eiganda íbúðarinnar, og að þú átt ekki fullan rétt til húsnæðisins.

Framleiga getur verið dýrari og er yfirleitt tímabundin. Reyndu alltaf að gera leigusamning til að vita réttindi þín og skyldur. Eigandinn þarf að fá leyfi frá leigufélaginu eða leigumiðluninni til að geta framleigt þér íbúð.

Stúdentaíbúðir og húsnæði fyrir eldri borgara í Svíþjóð

Ef þú ert námsmaður eða eldri borgari gætu sérstök húsnæðisúrræði staðið þér til boða. Til að eiga rétt á námsmannaíbúð þarf að uppfylla vissar kröfur um námsframvindu. Hafðu samband við sveitarfélag þitt í Svíþjóð til að fá frekari upplýsingar. Íbúðir fyrir eldri borgara eru yfirleitt í umsjá óhagnaðardrifinna húsnæðisfélaga.

Föst búseta í sumarhúsi í Svíþjóð

Ef þú vilt hafa fasta búsetu í sumarhúsi í Svíþjóð eru engar takmarkanir fyrir því. Spurðu sveitarfélag þitt um hvaða opinberu þjónustu þú átt rétt á í sumarhúsi þínu.

Húsaleigustyrkur í Svíþjóð

Þú gætir átt rétt húsnæðisstyrk ef tekjur þínar eru undir tilteknum viðmiðum.

Skattur við sölu fasteigna í Svíþjóð

Þegar þú selur húsnæði í Svíþjóð þarftu að greiða skatt af hagnaðinum í samræmi við sænsk tekjuskattslög. Mikilvægt er að taka fram að ef þú flytur til Svíþjóðar og ert með skráð lögheimili þar í landi áður en þú selur húsnæði þitt í heimalandi þínu þarftu að standa skil á skatti af söluhagnaðinum til sænskra skattayfirvalda, Skatteverket.

Ef þú selur húsnæðið þitt áður en þú flytur til Svíþjóðar gilda sænsk skattalög ekki um þig. Þú ættir því að íhuga að selja húsnæðið í heimalandinu áður en þú flytur til Svíþjóðar.

Auk tekjuskatts þarf einnig að greiða fasteignaskatt („fastighetsavgift“) í Svíþjóð, nema þú búir í íbúð með búseturétti, en þá er það húsnæðisfélagið sem greiðir skattinn.

Gagnlegar slóðir

Á vefsíðum Boverket og Konsumentverket og á Blocket.se er að finna ábendingar, upplýsingar og gagnlega tengla fyrir fólk í húsnæðisleit.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna