Húsnæði í Svíþjóð

Bolig i Sverige
Hér geturðu lesið um mismunandi búsetuform í Svíþjóð og um skattskyldu söluhagnaðar af fasteign.

Í Svíþjóð eru mismunandi búsetuform. Þú getur leigt húsnæði hjá leigufélögum á vegum sveitarfélaga eða hjá einkaaðilum. Þú getur keypt íbúð (búseturéttur), hús eða sumarbústað. Námsmenn eiga þess kost að búa á stúdentagörðum.

Leiguhúsnæði

Ef þú vilt leigja húsnæði ættirðu að leita upplýsinga um leigufélög sveitarfélagins sem þú ætlar að flytja til. Sveitarfélögin reka leigumiðlanir þar sem þú getur skráð þig á biðlista.

Einnig er hægt að hafa samband við einkareknar leigusölur í sveitarfélaginu sem þú ætlar að flytja til.

Þú finnur húsnæðisauglýsingar í stærri dagblöðum, svæðisbundnum miðlum og á netinu.

Framleiga

Í stærri borgum í Svíþjóð er algengt að íbúðir séu framleigðar vegna þess hversu erfitt er að finna leiguhúsnæði.

Ef þú framleigir áttu ekki fullan rétt til húsnæðisins og þú leigir það af leigjanda en ekki eiganda húsnæðisins.

Þetta búsetuform er oft dýrara en að leigja beint auk þess sem framleiga er tímabundin. Mundu að gera undirritaðan leigusamning áður en þú flytur inn í íbúð. Uppsagnarfrestur á leiguhúsnæði er einn mánuður í Svíþjóð nema samið sé um annað.

Leiguviðmið

Í Svíþjóð fylgir ísskápur og frystir jafnan leiguíbúðum, sturta og/eða baðkar og aðgangur að þvottahúsi.

Yfirleitt er ekki greidd skilatrygging.

Kaup á húsnæði

Engar takmarkanir eru á réttindum norrænna ríkisborgara til að eiga fasteign í Svíþjóð.

Engar takmarkanir gilda heldur varðandi að eiga lögheimili og búa fast í frístundahúsi. Þú ættir að kynna þér hjá sveitarfélaginu hvaða opinber þjónusta stendur til boða ef þú velur að búa í frístundahúsi.

Margar íbúðir eru í svokölluðum búseturétti þar sem þú kaupir hlutfall af heildareigninni og rétt til búsetu í íbúð. Búsetuforminu fylgja ákveðnar takmarkanir, til dæmis máttu ekki leigja út íbúðina án heimildar frá stjórn búsetufélagsins.

Búsetufélagið á fasteignina sem íbúðin er í sameiginlega og hefur umsjón með henni. Félaginu er stýrt sameiginlega af öllum íbúum fasteignarinnar en reglur geta verið mismunandi eftir félögum.

Á eftirfarandi tenglum er að finna ábendingar, upplýsingar og gagnlegar slóðir þegar þú ert í húsnæðisleit:

Námsmannaíbúðir

Í ýmsum háskólaborgum er takmarkaður fjöldi námsmannaíbúða. Til þess að fá húsnæði af þessu tagi þarftu að uppfylla tilteknar kröfur um nám og námsframvindu.

Hægt er að finna þær námsmannaíbúðamiðlanir sem eiga við með því að leita með orðunum „student bostad“ í leitarvél á netinu.

Þú þarft yfirleitt að vera með sænska kennitölu til þess að fá námsmannaíbúð í Svíþjóð.

Sala á íbúðarhúsnæði í landinu sem flutt er frá

Ef þú flytur til Svíþjóðar og ert komin/n með lögheimili þar í landi áður en þú selur húsnæði þitt í brottflutningslandinu þarftu að standa skil á skatti af söluhagnaðinum til sænskra skattayfirvalda, Skatteverket. Virði hagnaðar af sölu fasteignar er skattlagður í samræmi við sænsk skattalög.

Þú ættir því að íhuga að selja húsnæðið í gamla landinu áður en þú flytur til Svíþjóðar. Fáðu upplýsingar hjá Skatteverket um skattlagningu hagnaðar af sölu íbúðarhúsnæðis.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna