Húsnæði í Svíþjóð

Bolig i Sverige
Hér finnur þú góð ráð um hvernig þú finnur þér húsnæði í Svíþjóð og upplýsingar um húsnæðismarkaðinn og mismunandi búsetuform í Svíþjóð. Gefnar eru upplýsingar um leigu og kaup á húsum, sumarhúsum og íbúðum. Þú getur einnig kynnt þér hvaða reglur gilda um erlenda ríkisborgara sem vilja kaupa íbúðarhúsnæði í Svíþjóð og hvað gildir um skattskyldan hagnað af sölu íbúðarhúsnæðis.

Það getur verið flókið að flytja til annars lands og finna húsnæði, hvort sem það er til að kaupa eða leigja, ef þú talar ekki tungumálið eða þekkir ekki húsnæðismarkaðinn.

Vonandi hjálpa þessar upplýsingar þér að fóta þig á sænska húsnæðismarkaðnum og finna draumahúsnæðið í Svíþjóð.

Geta erlendir ríkisborgarar keypt eignir í Svíþjóð?

Bæði sænskir ríkisborgarar og erlendir ríkisborgarar geta keypt eignir í Svíþjóð. Ekki er gerð krafa um að vera sænskur ríkisborgari eða að hafa sænska kennitölu.

Ef um húsnæðiskaup er að ræða þarf að uppfylla tilteknar kröfur. Ef þú vilt kaupa þér húsnæði þarf samningurinn að vera skriflegur og innihalda framsalsyfirlýsingu, upplýsingu um kaupverð og undirskriftir kaupanda og seljanda.

Hvaða búsetuform er að finna í Svíþjóð?

Í Svíþjóð eru þrjú almenn búsetuform.

  • Þú getur búið í húsi. Þú getur valið að búa í þínu eigin húsi á þinni eigin landareign. Ef þú kaupir hús á eigin landareign ræður þú og berð ábyrgð á öllu í tengslum við húsnæðið. Einnig er hægt að eiga hús en leigja jörðina sem það er byggt á. Þá átt þú rétt á að leigja jörðina („tomträtt“) frá sveitarfélaginu í tiltekinn tíma. Þú getur haft samband við sveitarfélagið til að kanna hvað það kostar.
  • Þú getur búið í leiguíbúð innan húsnæðisfélags („bostadsrättsförening“). Ef þú býrð í slíkri íbúð (búseturéttur eða „bostadsrätt“) þýðir það að þú átt rétt á að búa þar. Þú kaupir hlutfall af heildareigninni og rétt til búsetu í íbúðinni. Þá eiga allir íbúar hússins hluta í eigninni í gegnum sameiginlegt húsnæðisfélag. Búsetuforminu fylgja ákveðnar takmarkanir, en til dæmis má ekki leigja út íbúð án heimildar frá stjórn búsetufélags. Búsetufélagið á fasteignina sem íbúðin er í sameiginlega og hefur umsjón með henni. Félaginu er stýrt sameiginlega af öllum íbúum fasteignarinnar en reglur geta verið mismunandi eftir félögum.
  • Þú getur búið í leiguíbúð og greitt fyrir það leigu. Einnig er hægt að leigja hús en algengast er að leiga íbúð og greiða mánaðarlega leigu.

Önnur búsetuform er einnig að finna í Svíþjóð. Til dæmis er hægt að búa í sameignarleiguhúsnæði („kooperativ hyresrätt“), sem er millivegur milli leiguíbúðar og búseturéttar, eða í íbúð í eigin eigu („äganderätt“), þar sem þú átt húsnæðið án þess að vera meðlimur í sameiginlegu félagi.

Hvernig leigi ég íbúð í Svíþjóð?

Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að vilja ekki kaupa húsnæði í Svíþjóð. Ef til vill muntu aðeins dvelja í Svíþjóð til skamms tíma eða veist ekki hve lengi þú kemur til með að búa í Svíþjóð, hefur ekki efni á að kaupa eigið húsnæði eða vilt ekki bera ábyrgð á öllu því sem fylgir því að eiga húsnæði.

Mikil eftirspurn er eftir leiguíbúðum í Svíþjóð og því getur leitin verið erfið. Bæði er hægt að leigja íbúðir frá sveitarfélögunum og einkareknum leigu- og húsnæðisfélögum. Á sænsku nefnast þau „bostadsbolag” og „hyresvärdar”. Ef þú vilt leigja húsnæði („hyresrätt“) geturðu leitað upplýsinga um leigufélög sveitarfélagins sem þú ætlar að flytja til. Sveitarfélögin reka leigumiðlanir þar sem þú getur skráð þig á biðlista. Einnig er hægt að hafa samband við einkareknar leigusölur í sveitarfélaginu sem þú ætlar að flytja til.

Yfirleitt þarftu að skrá þig á biðlista eftir íbúð með löngum fyrirvara. Engin miðlæg skrá er til yfir sænsk leigufélög. Ef þú ert að leita að leiguíbúð getur þú fundið þau á ýmsum leiguvefsíðum eða með því að leita að „hyresvärd“ eða „bostadsbolag“. Sumar leiguvefsíður hafa tekið saman íbúðir leigufélaga sem taka gjald fyrir skráningu á biðlista.

Þú finnur húsnæðisauglýsingar í stærri dagblöðum, svæðisbundnum miðlum og á netinu.

Leigjendur í Svíþjóð eiga rétt á að fá leigusamning sem mælir fyrir um upphæð húsaleigu og hvað er innifalið í leigunni. Í Svíþjóð fylgja ísskápur, frystir og eldavél, sturta og/eða baðkar og aðgangur að þvottahúsi jafnan leiguíbúðum. Leigusali ber ábyrgð á að greiða fyrir viðhald og viðgerðir og því skal leigjandi hafa samband við hann ef einhverra viðgerða er þörf. Yfirleitt er ekki greidd trygging í Svíþjóð.

Hver eru bestu ráðin til að finna leiguíbúð í Svíþjóð?

Áttu erfitt með að fóta þig á sænska húsnæðismarkaðnum? Margir eru í sömu sporum og spurningarnar eru margar. Þarftu að fara á biðlista? Áttu rétt á húsnæðisbótum? Hvað er hægt að gera til að lækka húsnæðiskostnaðinn?

Við höfum tekið saman svör við algengustu spurningum og vonandi hjálpa þau þér að finna þér við að finna þér íbúð.

  • Skráðu þig á biðlista hjá sveitarfélagi eins fljótt og þú getur og vertu opin(n) fyrir því að búa ekki alveg miðsvæðis.
  • Sæktu um íbúðir hjá einkareknum leigufélögum. Einkarekin leigufélög halda oft úti eigin vefsíðum þar sem þú getur skráð þig á biðlista og sótt um íbúðir. Sum einkarekin leigufélög fara ekki aðeins eftir tíma á biðlista heldur velja leigjendur út frá eigin forsendum.
  • Sumir leigusalar taka við umsóknum með tölvupósti. Sendu tölvupóst til leigusalans þar sem þú segir stuttlega frá því hver þú ert og lýsir yfir áhuga á að leigja.
  • Ef þú ert að leita að íbúð með tímabundinni leigu eða sem er til leigu með skömmum fyrirvara getur þú framleigt íbúð eða valið að leigja herbergi.
  • Þú getur valið að búa í sameignarfélagi eða innan húsnæðisfélags. Vegna húsnæðisskortsins í Svíþjóð verður þessi kostur sífellt algengari. Auk þess er hann ódýrari og gefur þér tækifæri til að eignast nýja vini í nýju landi. Lestu leigusamninginn vandlega, þar sem leiga sem þessi er oftast framleiga eða hefur í för með sér að þú deilir húsnæðinu með öðrum. Þá er auðveldara fyrir leigusala að segja upp slíkum samningnum.
  • Þú getur skoðað leiguauglýsingar á netinu og samfélagsmiðlum. Á blocket.se getur þú leitað að íbúðum á þeim stað sem þú vilt búa á í Svíþjóð eða birt auglýsingu um að þú sért í íbúðarleit. Þú getur einnig leitað að hópum á Facebook í bænum sem þú ætlar að flytja til, þar sem einstaklingar auglýsa íbúðir og annað húsnæði til leigu.
  • Þú getur átt húsnæðisbótum ef tekjur þínar eru undir tilteknum viðmiðum, til að þú getir örugglega greitt leiguna í mánuði hverjum.

Get ég tekið íbúð á framleigu í Svíþjóð?

Það getur reynst mjög erfitt að komast inn á húsnæðismarkaðinn í stærri bæjum Svíþjóðar. Þess vegna velja margir að gera samning um framleigu („andrehandskontrakt“). Í Svíþjóð nefnist slík leiga einnig „att hyra i andra hand“. Ef þú framleigir áttu ekki fullan rétt til húsnæðisins og þú leigir það af leigjanda en ekki eiganda húsnæðisins. Eigandinn þarf að fá leyfi frá leigufélaginu eða leigumiðluninni til að geta framleigt þér íbúð.

Þetta búsetuform er bæði dýrara en að leigja beint auk þess sem leigan er tímabundin. Mundu að undirrita leigusamning áður en þú flytur inn í íbúð. Uppsagnarfrestur á leiguhúsnæði er einn mánuður í Svíþjóð nema samið sé um annað.

Get ég fengið námsmannaíbúð eða íbúð fyrir aldraða í Svíþjóð?

Hægt er að leigja námsmannaíbúðir í stærri bæjum og íbúðir fyrir aldraða hjá leigumiðlunum sveitarfélaganna. Sveitarfélagið í Svíþjóð sem þú hyggst flytja til getur veitt nánari upplýsingar.

Til þess að fá námsmannaíbúð þarftu að uppfylla tilteknar kröfur um nám og námsframvindu. Þú finnur leiguvefsvæði námsmannaíbúða með því að leita að sænsku orðunum fyrir námsfólk og húsnæði, „student“ og „bostad“.

Get ég haft fasta búsetu í sumarhúsi í Svíþjóð?

Einnig er hægt að kaupa sumarhús í Svíþjóð og búa þar. Engar takmarkanir gilda varðandi að eiga lögheimili og hafa fasta búsetu í sumarhúsi í Svíþjóð. Þú ættir að kynna þér hjá sveitarfélaginu hvaða opinber þjónusta stendur til boða ef þú velur að búa í sumarhúsi.

Á vefsíðum Boverket og Konsumentverket er að finna ábendingar, upplýsingar og gagnlega tengla fyrir fólk í húsnæðisleit.

Þarf ég að greiða skatt ef ég sel húsnæðið mitt?

Í Svíþjóð þarf að greiða skatt af mögulegum hagnaði af sölu húsnæðis í samræmi við sænsk lög um tekjuskatt. Ef þú flytur til Svíþjóðar og ert komin/n með lögheimili þar í landi áður en þú selur húsnæði þitt í brottflutningslandinu þarftu að standa skil á skatti af söluhagnaðinum til sænskra skattayfirvalda, Skatteverket. Ef þú selur húsnæðið þitt áður en þú flytur til Svíþjóðar gilda sænsk skattalög ekki um þig.

Þú ættir því að íhuga að selja húsnæðið í heimalandinu áður en þú flytur til Svíþjóðar. Skatteverket getur veitt nánari upplýsingar um skattlagningu tekna af sölu íbúðarhúsnæðis.

Í Svíþjóð þarf einnig að greiða eignaskatt. Það þýðir að allir eigendur húsa eða íbúða þurfa að greiða skatt til viðkomandi sveitarfélags. Þetta fasteignagjald nefnist „fastighetsavgift“.

Ef þú átt búseturétt („bostadsrätt“) ert það ekki þú heldur húsnæðisfélagið („bostadsrättsföreningen“) sem greiðir eignaskattinn.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna