Meðganga og fæðing í Svíþjóð

Graviditet og fødsel i Sverige
Hér getur þú lesið þér til um hvernig þú velur meðgöngudeild fyrir fæðingu barns í Svíþjóð og hvernig þú getur sótt um að fæða í öðru landi. Einnig eru gefnar upplýsingar um hvernig barn fær sænska kennitölu og skráningu í þjóðskrá í Svíþjóð og hvaða reglur gilda um ríkisfang og nafngift barnsins.

Í Svíþjóð eru börn almennt fædd á sjúkrahúsi. Börn sem eru fædd í Svíþjóð fá sama ríkisfang og foreldrar þeirra. Ef foreldrar barns eru ríkisborgarar lands utan ESB /EES þarf að sækja um dvalarleyfi fyrir barnið.

Ljósmæður í Svíþjóð

Í Svíþjóð skal við þungun hafa samband við mæðraskoðun og panta tíma fyrir viðtal („inskrivningssamtal“). Þú getur sjálf valið hvaða mæðraskoðun í landshlutanum þú vilt nýta. Upplýsingar um meðgöngu og fæðingu er að finna á vefsíðu viðkomandi landshluta.

Í fyrsta viðtalinu er móðir skráð og hún hittir ljósmóður og ræðir við hana um þungunina, heilsufar, væntingar og áhyggjur sem kunna að vakna í tengslum við meðgönguna. Þið ljósmóðirin vinnið í sameiningu áætlun fyrir meðgöngueftirlitið. Ef þú þarft að hitta lækni skaltu panta tíma eins fljótt og auðið er. Þú velur einnig meðgöngudeild í samráði við ljósmóðurina. Ef þú ert með lögheimili eða almannatryggð í Svíþjóð þarftu ekki að greiða fyrir heimsóknir hjá ljósmóður eða lækni hjá mæðraskoðuninni.

Þungunarvottorð í Svíþjóð

Í Svíþjóð er hægt að fá þungunarvottorð (staðfestingu á þungun) frá ljósmóður. Senda þarf vottorðið tímalega fyrir fæðingu til Försäkringskassan þar sem það gildir sem umsókn um fæðingarorlofsgreiðslur. Þú þarft einnig að sýna vinnustaðnum vottorðið eða annars staðar þar sem þú þarft að votta að þú sért barnshafandi.

Meðgöngueftirlit í Svíþjóð

Í Svíþjóð eiga allar verðandi mæður rétt á ókeypis meðgöngueftirliti. Eftirlitið er valfrjálst. Fyrsta skoðun er venjulega í 8.-12. viku meðgöngu.

Þú velur sjálf hvert þú ferð í mæðraskoðun og þér er einnig heimilt að skipta um mæðraverndarmiðstöð á meðgöngunni.

Nánari upplýsingar um mæðraeftirlit eru á vefsíðum þíns landshluta.

Fæðing í Svíþjóð

Þú getur valið hvar þú vilt fæða í Svíþjóð en stundum getur þér verið vísað annað ef ekki er pláss á þeim stað sem þú kaust. Sumir landshlutar bjóða upp á styrk til heimafæðingar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Þegar heim er komið að lokinni fæðingu hefurðu samband við ungbarnaeftirlitið, BVC, til að panta fund með barnahjúkrunarfræðingi sem mun fylgjast með barninu til 5 ára aldurs.

Kennitala og nafngjöf í Svíþjóð

Ef þið búið í Svíþjóð og eignist barnið í Svíþjóð gefur ljósmóðirin út fæðingarvottorð og sendir það til embættis skattstjóra, Skatteverket. Fæðing barnsins er skráð í þjóðskrá og barnið fær sænska kennitölu.

Þegar barnið er skráð og hefur fengið sænska kennitölu fá foreldrarnir senda staðfestingu þess efnis í pósti. Þið fáið líka eyðublað sem þið fyllið út til að skrá nafn og kenninafn barnsins og jafnframt upplýsingar um reglur sem gilda þegar þið veljið nafn á barnið. Í Svíþjóð skulu börn nafngefin áður en þau verða þriggja mánaða. Nafnið er skráð hjá Skatteverket.

Ef skíra á barnið í sænskri kirkju þarf að hafa samband við það prestakall sem þið tilheyrið. Ef þið óskið eftir því að barnið verði skírt í öðru norrænu landi þurfið þið að hafa samband við prestakall í því landi sem skírnin er ráðgerð.

Fæðing í útlöndum

Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að fæða barn í öðru landi en búsetulandi. Það gæti fæðst án þess að það sé fyrirhugað á meðan ferðast er erlendis eða getur verið fyrirhugað vegna þess að hitt landið er heimaland þitt eða vegna þess að fyrirhugað er að dvelja tímabundið í öðru landi í tengslum við fæðingu barnsins.

Ófyrirhuguð fæðing á ferðalagi erlendis

Evrópska sjúkratryggingakortið nær til allra læknisskoðana og meðhöndlunar í tengslum við meðgöngu og einnig vegna ófyrirhugaðrar fæðingar, til dæmis á ferðalagi erlendis.

Fyrirhuguð fæðing í útlöndum

Ef þú fyrirhugar að fæða barn erlendis skaltu hafa samband við almannatryggingastofnun þíns lands og biðja um fyrirframstaðfestingu á því að sjúkrakostnaður þinn verði greiddur.

Ef þú býrð og starfar í Svíþjóð og vilt fæða barn í öðru norrænu landi getur þú sótt um fyrirframstaðfestingu (eyðublað S2) hjá sænsku sjúkratryggingastofnuninni, Försäkringskassan, um að hún greiði fyrir ráðgerða heilsugæslu í öðru norrænu landi.

Ef þú býrð í örðu norrænu landi en óskar eftir því að fæða barn þitt í Svíþjóð þarftu að sækja um það í heimalandinu.Almannatryggingastofnunin í landinu þar sem þú ert tryggð getur gefið út fyrirframstaðfestingu.

Ef þú ert almannatryggð í Danmörku eða Finnlandi sækirðu um á eyðublaði S2.

Ef þú ert almannatryggð á Íslandi eða í Noregi sækirðu um á eyðublaði E112 til að fá fjármögnun á ráðgerðri heilsugæslu í Svíþjóð.

Ef þú býrð í einu norrænu landi en sækir vinnu í öðru norrænu landi geturðu valið hvort þú vilt fæða í búsetulandinu eða landinu þar sem þú starfar. Aftur á móti er ekki hægt að krefjast þess að barnið fá heilbrigðisþjónustu eftir fæðingu vinnulandinu.

Meðgöngueftirlit við fæðingu í útlöndum

Ef þú dvelst í öðru norrænu landi lengur en í sex mánuði áttu rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu á meðan á dvölinni stendur. Þú greiðir sömu komugjöld og heimamenn.

Meðgöngueftirlit flokkast undir nauðsynlega þjónustu. Engu að síður er það heilbrigðisstarfsfólkið sem metur hvort um sé að ræða nauðsynlega heilsugæslu og þess vegna skaltu snúa þér beint til þeirrar mæðraverndarstöðvar sem þú hefur augastað á.

Skráning í þjóðskrá og kennitala við fæðingu í útlöndum

Ef þú fæðir barn erlendis og ert með skráða búsetu í Svíþjóð skaltu hafa samband við næstu skrifstofu Skatteverket þegar þú snýrð aftur til Svíþjóðar og skrá barnið til að það fái sænska kennitölu. Ef þú fæðir barn þitt í öðru norrænu landi gerist þetta ekki sjálfkrafa. Hafðu fæðingar- og nafnvottorð barnsins frá hinu landinu meðferðis.

Ef þú býrð aftur á móti erlendis, fæðir barn þar og barnið verður sænskur ríkisborgari á það ekki rétt á að fá sænska kennitölu. Barnið fær fyrst kennitölu þegar það flytur til Svíþjóðar og uppfyllir skilyrði fyrir skráningu í Svíþjóð.

Ríkisborgararéttur og nafngjöf

Ríkisborgararéttur barnsins ræða af gildandi lögum þar sem foreldrar barnsins eru ríkisborgarar.

Barn foreldra sem báðir eru ríkisborgarar í norrænu landi fær alltaf ríkisfang móðurinnar. Hvort barnið fær einnig ríkisfang hins foreldrisins fer eftir því í hvaða landi barnið fæðist og hvort foreldrar eru giftir

Í Svíþjóð skulu börn nafngefin áður en þau verða þriggja mánaða. Nafnið er skráð hjá Skatteverket.

Ef skíra á barnið í sænskri kirkju þarf að hafa samband við það prestakall sem þið tilheyrið. Ef þið óskið eftir því að barnið verði skírt í öðru norrænu landi þurfið þið að hafa samband við prestakall í því landi sem skírnin er ráðgerð.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna