Meðganga og fæðing í Svíþjóð

Ljósmóðir
Ef þú átt von á barni skaltu hafa samband við mæðravernd og panta tíma fyrir skráningarviðtal. Þú getur valið á milli mæðraskoðunarmiðstöðva í því landsþingi/svæði sem þú býrð í. Upplýsingar um meðgöngu og fæðingu er að finna á vefsíðu landsþingsins.
Í skráningarviðtalinu hittirðu ljósmóður og ræðir við hana um meðgönguna, heilsufar og hugrenningar þínar út af meðgöngunni. Þið ljósmóðirin vinnið í sameiningu áætlun fyrir meðgöngueftirlitið. Ef þú þarft að hitta lækni pantið þið tíma eins fljótt og auðið er. Þú velur fæðingarstofnun í samráði við ljósmóðurina. Ef þú ert með lögheimili eða almannatryggð í Svíþjóð þarftu ekki að greiða fyrir heimsóknir hjá ljósmóður eða lækni hjá mæðraskoðuninni.
Þungunarvottorð
Þungunarvottorð, að er staðfestingu á þunguninni, færðu hjá ljósmóðurinni. Vottorðið sendirðu til Försäkringskassan í tæka tíð fyrir fæðingu. Vottorðið er umsókn um fæðingarorlofsgreiðslur. Þú þarft einnig að sýna vinnuveitanda vottorðið eða framvísa því annars staðar þar sem þú þarft að votta að þú sért barnshafandi.
Meðgöngueftirlit
Í Svíþjóð eiga allar verðandi mæður rétt á ókeypis meðgöngueftirliti. Eftirlitið er valfrjálst. Fyrsta skoðun er venjulega í 8.–12. viku meðgöngu. Þú velur sjálf hvert þú ferð í mæðraskoðun og þér er einnig heimilt að skifta um mæðraverndarmiðstöð á meðgöngunni. Upplýsingar um meðgöngueftirlit finnurðu á vefsíðu landsþingsins.
Fæðing
Þú getur valið hvar þú vilt fæða en stundum getur þér verið vísað annað ef ekki er pláss á þeim stað sem þú kaust. Sum landsþing bjóða upp á styrk til heimafæðingar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þegar heim er komið að lokinni fæðingu hefurðu samband við ungbarnaeftirlitið, BVC, til að panta fund með barnahjúkrunarfræðingi sem mun fylgjast með barninu til 5 ára aldurs.
Kennitala og nafngjöf
Ef þið búið í Svíþjóð og eignist barnið í Svíþjóð gefur ljósmóðirin út fæðingarvottorð og sendir það til embættis skattstjóra, Skatteverket. Fæðing barnsins er skráð í þjóðskrá og barnið fær kennitölu. Þegar barnið er skráð og hefur fengið kennitölu fá foreldrarnir senda staðfestingu þess efnis í pósti. Þið fáið líka eyðublað sem þið fyllið út til að skrá nafn og kenninafn barnsins og jafnframt upplýsingar um reglur sem gilda þegar þið veljið nafn á barnið.
Í Svíþjóð skal gefa börnum nafn áður en þau verða þriggja mánaða. Nafnið er skráð hjá Skatteverket.
Ef skíra á barnið í sænskri kirkju þarf að hafa samband við það prestakall sem þið tilheyrið. Ef þið óskið eftir því að barnið verði skírt í öðru norrænu landi þurfið þið að hafa samband við prestakall í því landi sem skírnin er ráðgerð.
Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.