Námsmannaíbúðir í Noregi

Húsnæði í gegnum stofnanir námsmanna
Háskólar sem njóta opinberra styrkja eru yfirleitt tengdir sjálfseignarstofnunum sem nefnast studentsamskipnad. Hlutverk þessara félagsstofnana stúdenta er að sinna ýmsum grunnþörfum námsmanna. Þær reka yfirleitt íbúðir sem leigðar eru út til stúdenta. Námsmannaíbúðirnar eru oft nálægt skólunum og leigan er lægri en á almennum leigumarkaði.
Í flestum tilvikum standa mismunandi gerðir námsmannaíbúða til boða. Yfirleitt eru í boði íbúðir fyrir einstaklinga, pör, fjölskyldur og sérútbúnar íbúðir fyrir fatlað fólk. Margar þessara félagsstofnana hafa tiltekinn fjöldi íbúða frátekna fyrir skiptinema og aðra erlenda nemendur.
Það getur borgað sig að sækja snemma um. Margar félagsstofnanirnar hafa fastan umsóknarfrest á hverju ári þar sem meginhluta húsnæðisins er úthlutað. Þess vegna er skynsamlegt að leita sér sem fyrst upplýsinga um umsóknarferlið. Það er hægt að gera á heimasíðum félagsstofnananna.
Húsnæði á almennum leigumarkaði
Það er einnig hægt að leigja íbúð á almennum leigumarkaði. Bæði er hægt að auglýsa sjálfur eftir íbúð og skoða leiguauglýsingar í bæjarblöðum og á netinu.
Fjármögnun á leigu á námsmannaíbúð
Flestir námsmenn eiga kost á námslánum og/eða -styrkjum frá heimalandi sínu og fjármagna með því húsnæðiskostnað sinn. Margir námsmenn sinna einnig aukavinnu meðfram námi.
Húsnæðisbætur (bostøtte) er styrkur frá hinu opinbera sem Husbanken og sveitarfélögin hafa umsjón með. Húsnæðisbæturnar eru ætlaðar til að aðstoða einstaklinga með lágar tekjur og háan húsnæðiskostnað við að útvega sér húsnæði eða til að búa áfram í öruggu og góðu húsnæði. Námsmenn eiga þess yfirleitt ekki kost að njóta húsnæðisbóta en á því eru þó undantekningar. Sú skrifstofa sveitarfélagsins sem sér um húsnæðisbætur tekur við umsóknum og svarar almennum spurningum um bæturnar.
Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.