Húsnæði í Noregi

Bolig i Norge
Hér getur þú lesið þér til um norskan húsnæðismarkað, leigu eða kaup á húsnæði.

Hvar finnur þú húsnæði í Noregi?

Ýmsar leiðir eru til að finna íbúðarhúsnæði í Noregi:

  • Allar gerðir íbúðarhúsnæðis eru auglýstar á netinu til sölu eða leigu. Þú finnur líka auglýsingar í blöðum en það eru oft sömu auglýsingar og þú finnur á netinu. Finn.no er helsti fasteignavefurinn í Noregi. Þú finnur einnig leiguhúsnæði á finn.no eða hybel.no. Eins geturðu fylgst með smáauglýsingum í dagblöðum um leiguhúsnæði.
  • Þú getur haft samband við fasteignasala eða lögfræðing sem miðlar íbúðarhúsnæði. Þessir aðilar miðla sölu á fasteignum en í stærri bæjum er einnig að finna sérstakar skrifstofur sem annast útleigu á íbúðum.
  • Ef þú finnur ekki hentugt húsnæði eða þér tekst það ekki án aðstoðar hins opinbera geturðu sótt um leiguhúsnæði hjá sveitarfélaginu. Sama á við ef húsnæðið þarf að koma til móts við þarfir aldraðra eða fólks með líkamlega eða andlega fötlun. Hafðu samband við sveitarfélagið þar sem þú vilt búa.
  • Námsfólk getur sótt um námsmannaíbúðir hjá félagsstofnun stúdenta á viðkomandi menntastofnun.

Að eiga og kaupa húsnæði í Noregi

Erlendum ríkisborgurum og einstaklingum sem búsettir eru í Noregi er heimilt að kaupa íbúðarhúsnæði eða fasteignir í Noregi. Gættu að því að búsetu- eða rekstursskylda getur hvílt á tilteknum gerðum fasteigna. Það á við um íbúðarhúsnæði á vinsælum áfangastöðum ferðamanna og til sveita. Á bújörðum getur einnig hvílt óðalsréttur sem gengur í arf. Þess vegna getur þú misst réttinn á eigninni til aðila með óðalsrétt. Sama á við um kaup á búseturéttaríbúð en þá getur einstaklingur með forkaupsrétt átt rétt á henni fram yfir þig. Alltaf ber að upplýsa þig um þessi atriði áður en þú undirritar samning og þú átt alltaf rétt á endurgreiðslu.

Í Noregi eru ýmsar tegundir íbúðarhúsnæðis. Meginflokkarnir eru þrír:

  • eignarhúsnæði;​​​​​​
  • leiguhúsnæði.
  • búseturéttur/hluthafaíbúðir;
Eignarhúsnæði

Eignarhúsnæði er húsnæði sem þú átt sjálf/ur. Norrænir ríkisborgarar geta keypt húsnæði í Noregi samkvæmt reglum um frjálsa för einstaklinga, staðfesturétt og þjónustu fyrir ríkisborgara á EES-svæðinu. Ef þú ert húsnæðiseigandi ber þér að greiða fasteignaskatt í sumum sveitarfélögum. Þú greiðir einnig gjöld til sveitarfélagsins fyrir vatn og skolpræsi, sorphirðu og hreinsun á reykháf. Kannaðu þessi mál nánar hjá sveitarfélaginu þínu.

Búseturéttur/hluthafaíbúðir

Ef þú býrð í búsetu- eða hlutahafaíbúð leigir þú af búsetafélagi sem þú átt hlut í. Þú kaupir rétt til leigu á tiltekinni íbúð (búseturétt) og greiðir húsaleigu til búsetufélagsins og fer sú upphæð í viðhald húsnæðisins og daglegan rekstur búsetufélagsins.

Hluthafaíbúðir minna á búseturéttaríbúðir en munurinn er sá að þú kaupir hlutabréf sem felur í sér leigurétt á tiltekinni íbúð. Þú verður meðeigandi (hluthafi) í íbúðahlutafélaginu og hefur rétt eins og aðrir hluthafar til að vera hafður með í ráðum.

Fjármögnun húsnæðiskaupa

Flestir bankar bjóða lán til kaupa á húsi eða íbúð. Ef þú hyggst kaupa húsnæði í Noregi þarftu að útvega þér lánshæfisvottorð í banka áður en hefur húsnæðisleitina. Húsnæðislán færðu í banka og endurgreiðslutíminn er langur, iðulega á bilinu 20-30 ár. Fáðu lánshæfimat hjá bankanum og upplýsingar um vaxtakjör sem þér standa til boða. Þú þarft að leggja fram skattskýrslu og launaseðla til staðfestingar á tekjum þínum. Einnig er krafa um að kaupandinn leggi sjálfur út 15% af kaupverði húsnæðisins.

Þú getur sótt um húsnæðislán hjá sveitarfélaginu ef þig vantar eigið fé eða ef þér reynist erfitt að fjármagna húsnæðið gegnum einkarekna banka. Húsnæðið þarf að uppfylla ákveðin skilyrði til þess að þú getir fengið aðstoð hjá sveitarfélaginu. Þú sækir um lánið hjá sveitarfélaginu sem þú býrð í. Sveitarfélagið ákveður hvort það verði við umsókn þinni og upphæð lánsins. Norski íbúðalánasjóðurinn Husbanken hefur umsjón með lánveitingum. 

Að leigja íbúðarhúsnæði í Noregi

Í Noregi eru ýmsar tegundir leigusambanda en algengast er að leigja, hús, íbúð eða herbergi af einstaklingum. Atvinnufyrirtæki á sviði húsnæðisleigu starfa að mestu leyti aðeins í stærstu bæjum landsins.

Stundum er hægt að fá framleigusamning sem þýðir að þú leigir húsnæði af einstaklingi leigir húsnæðið af eiganda húsnæðisins. Almennt séð er ekki leyfilegt að framleigja og því þarf framleigusalinn að fá til þess leyfi frá eiganda húsnæðisins.

Yfirleitt er farið fram á geymslugreiðslu þegar þú leigir húsnæði í Noregi og mælt er með því að gerður sé leigusamningur. Ef ekki er kveðið á um annað skriflega eða munnlega er gagnkvæmur uppsagnarfrestur leigusambands yfirleitt þrír mánuður þegar um venjulegt íbúðarhúsnæði er að ræða en einn mánuður á leiguherbergjum/stúdíóum. 

Stundum getur fólk með lágar tekjur en há útgjöld fengið húsnæðisstyrk í Noregi. 

Reglur varðandi leigu á íbúðarhúsnæði

Í norsku húsaleigulögunum er kveðið á um réttindi og skyldur leigutaka og leigusala. Í lögunum kemur meðal annars fram að stofna skuli bankareikning fyrir geymslugreiðslu í nafni leigutaka. Stofna þarf reikning fyrir hvert leigusamband en það er leigusalinn sem ber kostnaðinn af stofnun bankareikningsins fyrir geymslugreiðslu. Bæði leigusali og leigutaki eiga lögfestan rétt á fá tilkynningu áður en bankinn greiðir út tryggingaféð til annars hvors aðilans.

Hafa samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna