Tollareglur á Íslandi

Tollareglur á Íslandi
Eftirfarandi reglur gilda um innflutning á vörum og búslóð til Íslands.

 

Innflutningur búslóðar

Til að tollfrelsi gildi þarf sá sem flytur til Íslands að hafa búið erlendis í að minnsta kosti tólf mánuði. Búslóðarmunirnir þurfa að vera notaðir og hafa verið í eigu viðkomandi í minnst eitt ár. Eins má ekki líða lengri tími en sex mánuðir frá því að einstaklingur flytur búferlum þar til búslóðin er flutt til landsins.

Við tollafgreiðslu búslóðar kann að vera óskað eftir því að sá/sú sem flytur inn búslóð sýni fram á að skilyrðum fyrir tollfrelsi sé fullnægt. Þannig er mögulegt að þess sé krafist að sýnt sé fram á búsetu erlendis í tilskilinn tíma, en vottorð þess efnis má fá hjá Þjóðskrá. Eins er stundum óskað eftir vottorði skólastofnunnar eða vinnustaðar erlendis.

Vörur sem sérstök innflutningsskilyrði gilda um

Hafa ber í huga að ákveðnar vörur eru háðar sérstökum innflutningsskilyrðum, til dæmis er innflutningur skotvopna háður leyfi lögreglustjóra og eins gilda sérstakar reglur um innflutning dýra og ökutækja.

Ökutæki

Við flutning til Íslands er gert ráð fyrir því að ekki líði lengra en 30 dagar milli komu eiganda og ökutækis.  Tollstjóri veitir akstursleyfi til eins mánaðar og er sá tími er ætlaður til þess að ganga fá skráningu á bílnum við Samgöngustofu.

Þeir sem hyggjast dvelja á Íslandi í ár eða skemur vegna atvinnu eða ferðalaga er heimilt að flytja inn bifreið sem skráð er erlendis, án greiðslu aðflutningsgjalda að uppfylltum vissum skilyrðum.

Samgöngustofa sér um útgáfu á íslenskum fastanúmerum. Tollstjóraembættið reiknar út önnur gjöld vegna ökutækisins. Allar nánari upplýsingar er að fá á heimasíðu Tollstjóra og á heimasíðu Samgöngustofu.

Matvæli 

Almennt er skilyrði fyrir innflutningi á kjötvörum hvers konar að þær séu soðnar eða niðursoðnar. Reyking, söltun eða þurrkun án suðu er ekki fullnægjandi. Til dæmis er óheimilt að flytja inn beikon, pylsur (salami, spægipylsur og hvers konar reyktar, ósoðnar pylsur), hamborgarhryggi, fugla, ósoðna mjólk og ósoðin egg. 

Allar nánari upplýsingar er að fá á heimasíðu Tollstjóra

Áfengi og tóbak 

Ferðamenn mega hafa með sér áfengi og tóbak tollfrjálst upp að vissu marki, upplýsingar um það er hægt að finna á heimasíðu Tollstjóra. Athugið að lágmarksaldur til að flytja inn áfengi er 20 ár og 18 ár til að flytja inn tóbak. 

Allar nánari upplýsingar er að fá á heimasíðu Tollstjóra

Lyf

Heimilt er að hafa meðferðis lyf til eigin nota í magni sem miðast við mest 100 daga notkun viðkomandi, enda sé ljóst hvert það magn sé. Allar nánari upplýsingar er að fá á heimasíðu Tollstjóra. 

Vopn

Innflutningur vopna er háður leyfi lögreglustjóra.

Plöntur

Innflutningur blóma og annarra plantna er almennt háður því að þeim fylgi heilbrigðisvottorð frá opinberum aðila sem hefur eftirlit með plöntusjúkdómum í ræktunarlandinu, auk þess sem leyfi Matvælastofnunar er áskilið.

Dýr

Frekari upplýsingar

Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu Tollstjóra eða í síma +354 4421000.

Hafa samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna