Um kvikmyndaverðlaunin

filmpris_banner
Kvikmyndaverðlaunum Norðurlandaráðs er ætlað að stuðla að framgangi norrænnar kvikmyndagerðar og efla norrænan kvikmyndamarkað. Verðlaunin hafa verið veitt allt frá árinu 2005 samtímis tónlistar-, bókmennta- og umhverfisverðlaunum ráðsins.

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt í tilraunaskyni árið 2002 í tilefni af 50 ára afmæli ráðsins. Þau voru síðan stofnuð formlega árið 2005 og eru veitt árlega um leið og verðlaun Norðurlandaráðs á sviði tónlistar, bókmennta og umhverfismála.

Kvikmyndaverðlaununum er stýrt af Nordisk Film & TV Fond. Nánari upplýsingar eru á vef sjóðsins.

Efla framleiðslu norrænna kvikmynda í fullri lengd

Markmiðið með kvikmyndaverðlaununum er að efla norræna kvikmyndagerð og þróa norrænan kvikmyndamarkað og til lengri tíma litið að styrkja stöðu norrænna kvikmynda á alþjóðavettvangi.

Þau eru veitt kvikmynd í fullri lengd sem byggir á norrænni menningu og hefur mikið listrænt gildi. Verkið á að vera heilsteypt og einkennast af frumlegu listfengi. Nýsköpun í kvikmyndagerð telst einnig til tekna þegar myndirnar eru bornar saman. Kvikmyndir skulu helst vera leiknar á Norðurlandatungumáli til að koma til greina þegar tilnefnt er til kvikmyndaverðlaunanna.

Einn dómnefndarfulltrúi frá hverju hinna norrænu landa

Í dómnefnd er tilnefndur fulltrúi og varamaður frá hverju Norðurlandanna. Einstaklingar þessir skulu hafa vit á kvikmyndum en vera óháðir kvikmyndaiðnaðinum í heimalandinu og ekki eiga fjárhagslegra hagsmuna að gæta í þeim kvikmyndum sem tilnefndar eru.

Norræna dómnefndin velur verðlaunahafa

Fulltrúar landanna í dómnefndinni mynda norrænu dómnefndina. Fulltrúar landanna í dómnefndinni leggja til hvaða kvikmyndir skuli tilnefndar í heimalandinu. Tilnefndar kvikmyndir eru tilkynntar í byrjun september. Síðan er það norræna dómnefndin í heild sinni sem ákveður hvaða kvikmynd – úr hópi þeirra sem öll löndin hafa tilnefnt – skuli hreppa verðlaunin.

Kvikmyndir frá Álandseyjum, Færeyjum eða Grænlandi koma til viðbótar við kvóta landanna fimm. Tilnefndar kvikmyndir frá Álandseyjum, Færeyjum eða Grænlandi skulu bornar undir norrænu dómnefndina. Þegar liggur fyrir að meta álenska, færeyska eða grænlenska kvikmynd er kallaður til tímabundið dómnefndarfulltrúi frá viðkomandi landi.

Kvikmyndaverðlaunin skiptast niður á þrjá aðila

Nordisk Film & TV Fond hefur umsjón með kvikmyndaverðlaunum Norðurlandaráðs. Verðlaunaupphæðin er sú sama og hjá verðlaunum á sviði bókmennta, umhverfis og tónlistar eða 300 þúsund danskar krónur (um 40 þúsund evrur). Handritshöfundur, leikstjóri og framleiðandi skipta upphæðinni á milli sín enda er kvikmyndagerð listgrein þar sem árangurinn verður til í nánu samstarfi umræddra aðila.

Kvikmyndaverðlaunin eru afhent við sérstaka athöfn um leið og önnur verðlaun Norðurlandaráðs fyrir bókmenntir, tónlist og umhverfismál á haustþingi Norðurlandaráðs.