15 leiðir til að efla viðskipti í lífhagkerfinu

27.06.18 | Fréttir
MR-FJLS i Haparanda
Photographer
Svenska regeringskansliet
Efni fengin úr skógum og hafi koma í síauknum mæli í stað plasts og annarra efna unnum úr jarðefnaeldsneyti. Það þarf skýrari stefnumörkun, ýtarlegri rannsóknir og aukinn stuðning við klasa á sviði lífhagkerfisins til þess að styðja megi við þessar nýju og skapandi vörur og fyrirtæki. Þetta eru einungis þrjár af þeim 15 leiðum sem Norðurlönd geta farið til þess að viðhalda forystu innan lífhagkerfisins. Ráðherrar um málefni tengd sjálfbærri þróun samþykktu í dag norræna framkvæmdaáætlun á fundi í Haparanda í Svíþjóð.

Víða um Norðurlönd fjárfesta nú áræðnir frumkvöðlar og eldhugar í atvinnugreinum þar sem hráefni og aukaafurðir úr skógi, hafi og landbúnaði eru unnar á alveg nýjan hátt.

Timbur verður að vefnaðarvöru, fiskafurðir verða að snyrtivörum og uppskeru- og matarafgangar verða að umhverfisvænum valkostum við díselolíu og bensín.

Þessi nýju og upprennandi fyrirtæki geta spilað stórt hlutverk í sívaxandi lífhagkerfinu – fái þau nægan pólitískan og fjárhagslegan stuðning.

Nýir tímar í lífhagkerfinu

Norrænu ráðherrarnir fyrir fiskveiðar, fiskeldi, landbúnað, matvæli og skógrækt samþykktu á fundi sínum í Haparanda í dag framkvæmdaáætlun með 15 leiðum til að styðja við ný fyrirtæki í lífhagkerfinu.

- Við stöndum frammi fyrir nýjum tímum í lífhagkerfinu þar sem nýjar atvinnugreinar og ný störf geta orðið til. Ef við höldum rétt á spilunum geta landbúnaður, skógrækt, fiskveiðar og fiskeldi notið mikils af því að nýta lífmassa í framleiðslu verðmætari afurða, segir Sven-Erik Bucht, landsbyggðarráðherra Svíþjóðar.

Skógur og haf í lykilhlutverki

Sven-Erik Bucht bauð samstarfsráðherrum sínum á Norðurlöndum til heimabæjar síns Haparanda, en þar fór á sama tíma fram alþjóðleg ráðstefna um skógrækt þar sem fulltrúar frá helstu skógræktarríkjum heims voru viðstaddir.

Skógrækt er í lykilhlutverki í ört vaxandi lífhagkerfinu, ásamt fiskveiðum og landbúnaði. Norðurlönd standa bak við 30 prósent af framleiðslu úr skógrækt í Evrópu og 50 prósent af fiskveiðum.

Samkeppnishæfni og sjálfbærni

Það voru sérfræðingarnir í Norræna lífhagkerfisráðinu sem tóku saman aðgerðirnar sem kynntar eru í framkvæmdaáætluninni, aðgerðir sem geta stuðlað að samkeppnishæfu, arðbæru og sjálfbæru lífhagkerfi. Aðgerðunum má skipta í þrjá efnisflokka: Nýsköpun, hröðun og tengslanet

Framkvæmdaáætlunin miðar af því að greiða fyrir umbreytingu úr hefðbundnum landbúnaði og skógrækt yfir í tækniþróaðar atvinnugreinar þar sem auðlindir eru nýttar á sem skilvirkastan hátt.

Stærri norrænn markaður

Í framkvæmdaáætluninni er fjallað um samstarf sem myndi nýtast löndunum, svo sem skipulagningu námskeiða fyrir ungt fólk á landsbyggðinni, fjármögnun rannsókna og þróun stærri norræns markaðar.

Þar að auki hafa ríkin í sameiningu sterkari samningsstöðu innan ESB og SÞ þegar kemur að því að efla sjálfbært lífhagkerfi.

 

Hér má sjá framkvæmdaáætlunina: 15 aðgerðir sem stuðla að sjálfbærri breytingu

Hér getur þú kynnt þér nokkra af frumkvöðlum lífhagkerfisins: Made of Courage