Erna Solberg: Við eflum norrænt samstarf til að geta gert betur í geðheilbrigðismálum

27.02.17 | Fréttir
Erna Solberg, nordisk toppmøte om unges psykiske helse 27. februar 2017 i Oslo
„Ég fagna miklum áhuga Norðurlandaþjóða á málefnum barna og ungmenna. Hér er á ferðinni einn helst samfélagsvandinn í löndum okkar. Við ætlum að bera saman reynslu okkar af sams konar viðfangsefnum og læra hvert af öðru,“ sagði Erna Solberg þegar hún setti norrænan leiðtogafund um geðheilsu og lífsgæði ungmenna þann 27. febrúar 2017.

Norski forsætisráðherrann minnti á að þjóðirnar verða að taka sig á og sýna meiri árvekni gagnvart börnum og ungmennum sem þarfnast hjálpar. 15-20% allra barna og ungmenna á aldrinum 3 til 18 ára eiga við geðrænan vanda að stríða sem háir þeim í daglegu lífi. „Heilbrigðisþjónustan, menntakerfið, vinnumarkaður og velferðargeirinn verða að bæta samstarf sitt um að koma auga á vandann,“ sagði Erna Solberg og vísaði í nýtt norrænt verkefni til þriggja ára sem á að efla þverfaglegt samstarf hinna ólíku stofnana.

„Við stöndum okkur ekki nógu vel í geðheilsumálum og eflum því norrænt samstarf um lífsgæði barna og ungmenna,“ sagði Erna Solberg, en að hennar mati eiga þjóðirnar margt ógert þar til þær ná sjálfbærnimarkmiðum á sviði geðheilbrigðis fyrir árið 2030.

Við leggjum kapp á að Norðurlönd séu besti staður í heimi að alast upp á.

Snemmbærar aðgerðir mikilvægar

„Við þurfum að vera duglegri að uppgötva vanda barna og ungmenna eins snemma og hægt er. Við verðum að huga að heilsueflingu og forvörnum sem eru grunnur að góðri geðheilsu fólks. Í leikskólum og kennslustofum, á vinnustöðum og í nánasta umhverfi okkar,“ sagði Bent Høie, heilbrigðis- og umönnunarráðherra Noregs.

Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, telur að sótt verði að norræna líkaninu í framtíðinni ef okkur tekst ekki betur að hjálpa börnum og ungmennum með geðræna kvilla.

„Þau eru kynslóðir framtíðarinnar sem eiga að standa vörð um samfélagsgerð okkar. Við verðum að undirbúa þau fyrir það hlutverk, þar gegnir geðræn heilsa mikilvægu hlutverki. Við leggjum kapp á að Norðurlönd séu besti staður í heimi að alast upp á,“ sagði Dagfinn Høybråten.

 Bloggsíða framkvæmdastjórans

Norræna ráðherranefndin og norsk stjórnvöld standa að leiðtogafundinum, en hann er liður í formennsku Norðmanna hjá ráðherranefndinni 2017. Fundurinn heldur áfram 28. febrúar. Málið snýst um hvernig við getum fengið fleiri ungmenni með geðrænan vanda til að ljúka námi og vera virk á vinnumarkaði sem er breytingum undirorpinn.