Fæðingartíðni aldrei lægri í þremur norrænu landanna
Norðurlönd, sem áður státuðu af mikilli frjósemi, verða nú sífellt líkari öðrum heimshlutum hvað þetta varðar.
- Við nálgumst nú fæðingartíðni Kína – án þess að hafa innleitt nokkra einbirnisstefnu, segir Anna Karlsdóttir, Senior Research Fellow hjá Nordregio.
Hún er meðhöfundur skýrslunnar State of the Nordic Region 2020, sem veitir upplýsingar um íbúaþróun, atvinnumarkað og efnahag í öllum sveitarfélögum og svæðum á Norðurlöndum
Enn yfir ESB-meðaltalinu
Undanfarin áratug hefur fæðingartíðnin lækkað í næstum öllum norrænu löndunum. Á 10 árum hefur fæðingartíðni á Íslandi lækkað úr 2,2 börnum á hverja konu í 1,7 barn.
Á Finnlandi (1,4) og í Noregi (1,5) er tíðnin nú lægri en meðaltíðni í ESB.
Þökk sé örlítið hærri fæðingartíðni í Svíþjóð (1,76) og Danmörku (1,72) eru Norðurlönd í heild sinni aðeins fyrir ofan meðalfæðingartíðni í ESB (1,5).
Fæðingarorlof hefur lítil áhrif
Það kemur Önnu Karlsdóttur á óvart að sterkt fæðingarorlofs- og barnaumönnunarkerfi Norðurlanda hafi ekki meiri áhrif á fæðingartíðnina en raun ber vitni.
Kerfin voru innleidd á 7. og 8. áratug síðustu aldar til að greiða fyrir aukinni atvinnuþátttöku kvenna. Pólitískar aðgerðir með það að sjónarmiði að jafna þátttöku foreldra hafa orðið til þess að feður dvelja nú í auknum mæli heima með ung börn sín.
- Stefnur í málefnum fjölskyldna hafa haft áhrif á frjósemi en alls ekki eins mikil áhrif og ætla mætti, segir Anna Karlsdóttir.
Eldri frumbyrjur eiga færri börn
Það sem hefur aftur á móti mikil áhrif er hækkandi aldur frumbyrja. Konur vilja ljúka menntun sinni og komast áleiðis á starfsferli sínum áður en þær eiga börn.
- Almennt séð er það jákvætt að fólk skipuleggi barneignir sínar vel. Börnin sem fæðast eru velkomin. En því miður dregur úr frjósemi þegar fólk ákveður að eiga börn seint, segir hún.
Frumbyrjum yngri en 25 ára hefur fækkað um öll Norðurlönd en frumbyrjum eldri en 35 ára hefur aftur á móti fjölgað.
Í dag eru frumbyrjur á Norðurlöndum að meðaltali 30 ára.
Innflytjendur til bjargar dreifbýlinu
Hlutfall ungs fólks af íbúum Norðurlanda er svipað og í Evrópu. Mest hefur hlutfall ungs fólks minnkað á dreifbýlum svæðum.
En þökk sé fólksflutningum og móttöku flóttafólks er þróunin þveröfug í sumum sveitarfélögum.
Í 26 prósentum allra sveitarfélaga á Norðurlöndum hefur orðið fólksfjölgun. Mörg þessara sveitarfélaga höfðu áður liðið vegna fólksflótta, hækkandi lífaldurs íbúa og skertrar þjónustu.
Skýrsluhöfundarnir benda á að árangursrík samþætting innflytjenda geti verið lykillinn að því að snúa við þróuninni á dreifbýlum svæðum.
- Ef innflytjendum er gert kleift að sækja sér menntun, sjá fyrir sér og fá tækifæri til jafns við aðra, munu þeir hafa mjög jákvæð áhrif á þessa þróun, segir Anna Karlsdóttir.
State of the Nordic Region
State of the Nordic Region er einstakt safn af gögnum frá öllum Norðurlöndunum sem sýna efnahag, lýðfræði, aðstæður á vinnumarkaði, menntun og margt fleira, sett fram með myndrænum hætti á sérstaklega hönnuðum landakortum.
Skýrslan er gefin út annað hvert ár af Norrænu ráðherranefndinni og segja má að hún sé nokkurs konar hitamælir á svæði og sveitarfélög á Norðurlöndum.
Liður í útgáfunni er að stilla upp svæðisbundinni væntingavísitölu sem búin er til af Nordregio, fræðastofnun ráðherranefndarinnar í skipulags- og byggðamálum og sýnir aðlögunarhæfni 74 svæða á Norðurlöndum út frá hefðbundnum, samanburðarhæfum tölfræðilegum breytum.