Finnland gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni 2016

27.10.15 | Fréttir
Juha Sipilä
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Finnland verður formennskuland í Norrænu ráðherranefndinni á árinu 2016. Á formennskuárinu hyggst ríkisstjórn Finnlands beita sér fyrir því að auka áhuga í Finnlandi og á Norðurlöndum á norrænu samstarfi, einnig meðal borgaranna og í atvinnulífinu. Juha Sipilä, forsætisráðherra Finnlands, kynnti helstu atriði formennskuáætlunar Finnlands í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Reykjavík á þriðjudag. Meginþemu formennsku Finnlands eru vatn, náttúra og mannfólk.

„Hið norræna samhengi er okkur mikilvægara nú er nokkru sinni fyrr. Samstarfið byggir á sameiginlegum gildum og styrkleikum og við viljum ná fram sameiginlegu norrænu notagildi; fyrir borgarana, fyrir Norðurlöndin og fyrir atvinnulíf í löndunum,“ sagði Sipilä forsætisráðherra.

Einnig nefndi hann að pólitískt samstarf til að afnema stjórnsýsluhindranir og greiða fyrir frjálsri för, og um leið atvinnumöguleikum á Norðurlöndum, væri mikilvægt fagsvið innan samstarfsins.

Sipilä lagði áherslu á mikilvægi þess að norrænt samstarf væri í stöðugri endurnýjun, svo að það gæti orðið enn betra stökkbretti fyrir alþjóðleg viðskipti, fjárfestingar og nýsköpun til lengri tíma litið. Eitt af áherslusviðum formennsku Finna er stafvæðingin, en þar á sér stað hröð þróun sem hefur áhrif á flest svið samfélagsins.

„Norðurlöndin hafa afar góðar forsendur til þess að verða brautryðjendur á sviði stafvæðingar,“ sagði Juha Sipilä. Sem dæmi um svið með mikla möguleika á samstarfi má nefna snjalldreifikerfi fyrir raforku, lífhagkerfið, hreina tækni, greindarstýrða umferð og stafvæðingu heilbrigðiskerfisins.

Í formennskuáætlun Finna er jafnfram lögð áhersla á mikilvægi þess að standa vörð um norrænu velferðarríkin. Í áranna rás hafa Norðurlöndin skapað samfélög velferðar og skilvirkni með samþættingu sérþekkingar, jafnræðis og jafnréttis kynjanna.

Flóttamannavandinn, sem heimsbyggðin stendur nú frammi fyrir, er mikil áskorun fyrir Norðurlönd. Þættir sem hafa áhrif á úrlausn hans eru m.a. víðtækara samstarf í varnar- og öryggismálum og náið samstarf á sviði loftslagsmála.

Danmörk gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á árinu 2015. Finnland mun taka við formennskunni um áramótin.

Lesið formennskuáætlun Finna hér.