„Fleira sem sameinar okkur en sundrar“

26.09.17 | Fréttir
Uformelt integrasjonsministermøte i Oslo
Ljósmyndari
norden.org / André Jamholt
Olof Åslund prófessor hélt erindi á óformlegum fundi aðlögunarráðherra Norðurlanda í Ósló þar sem hann hvatti ráðherrana til að skiptast á þekkingu og reynslu. Þegar flóttafólk streymdi til Norðurlanda á árinu 2015 reyndi mikið á getu þeirra til að aðlaga nýja íbúa.

Meginverkefnið fólst í því að koma flóttafólkinu sem fyrst í fasta vinnu. Sú er ástæðan fyrir því að aðlögunarráðherrarnir óskuðu eftir því að bera saman bækur sínar. Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til á Norðurlöndum eru um margt svipaðar, en nálgun þeirra og árangur hefur verið mismunandi. Til að mynda hvernig löndin stóðu að því að kortleggja þá færni sem flóttafólkið kom með í farteskinu svo hægt yrði að meta færni þess og veita þeim viðeigandi menntun til viðbótar.

Samstarf við atvinnurekendur

Á Norðurlöndum er verið að þróa kerfi í því skyni að geta betur metið og viðurkennt færni flóttafólks, meðal annars í nánu samstarfi við atvinnurekendur. Markmiðið er að fyrirtæki taki flóttafólk í starfsnám og taki þátt í að meta og þróa faglega færni þess.

Norræn stjórnvöld hafa komið til móts við atvinnurekendur með launaniðurgreiðslum og öðrum aðgerðum sem hvetja fyrirtæki til að taka flóttafólk í starfsnám og ráða það síðar til starfa. Í tilteknum starfsgreinum hefur verið komið á ferlum sem veita flóttafólki tilhlýðilega færni til að geta unnið ákveðin störf eða í ákveðnum starfsgreinum.

Aukin þekking

Oft grípa Norðurlöndin til sams konar aðgerða þótt nálgunin geti verið mismunandi. Áherslurnar geta verið með ýmsum hætti. Því er gagnlegt og mikilvægt að fulltrúar yfirvalda komi saman og ræði viðfangsefni sem bíða úrlausnar og reynslu af aðgerðum og ráðstöfunum sem þegar hefur verið gripið til.

Olof Åslund kynnti rannsóknaniðurstöður fyrir aðlögunarráðherrunum, en hann er prófessor í þjóðhagfræði við háskólann í Uppsölum og framkvæmdastjóri matsstofnunar sænska vinnumálaráðuneytisins á sviði vinnu- og menntamála (IFAU). Hann lagði áherslu á að aðgerðir væru eins nálægt endanlegum notendum og unnt er.  

„Rannsóknir sýna að aðgerðir sem minna mest á venjulega vinnu eru vænlegastar til árangurs. Við getum lært mikið hvert af öðru. Öll Norðurlöndin skara fram úr hinum löndunum á einhverju sviði. Þess vegna er mikilvægt að bera saman þekkingu og reynslu. Eins skiptir miklu máli að við lærum af staðbundnum aðgerðum og eins hvar hætta er á núningi,“ segir Olof Åslund.

Norræna ráðherranefndin hefur sett sér samstarfsáætlun um aðlögun flóttafólks og innflytjenda þar sem hún skapar vettvang þar sem Norðurlöndin geta skipst á þekkingu og reynslu.

Lesið nánar um aðlögun á vinnumarkaði:

Lesið nánar um norræna traustið og hvar það getur steytt á skeri: