Forsætisnefnd Norðurlandaráðs fundar með Evrópuþinginu
Norðurlandaráð horfir til þess að efla þinglegt samstarf sitt í Evrópu og heiminum og því hefur verið komið á formlegu samstarfi við Evrópuþingið sem hófst í fyrra. Í stefnu Norðurlandaráðs í alþjóðamálum er áhersla lögð á lýðræðisleg gildi, friðarmál og mannréttindi. Í ljósi innrásar Rússa í Úkraínu telur Norðurlandaráð mikilvægara en nokkru sinni að í Evrópu ríki samstaða um að verja þessi gildi.
„Sambandið við Evrópuþingið skiptir Norðurlandaráð mjög miklu máli. Á þeim óvissutímum sem við lifum er mikilvægt að lýðræðislegar stofnanir vinni saman. Grænu umskiptin kalla á æ nánara samstarf í tengslum við nýsköpun og tækniþróun. Varnar- og öryggismál skipta líka sífellt meira máli fyrir Norðurlandaráð, ekki síst með inngöngu Finnlands, og vonandi einnig Svíþjóðar fljótlega, í Atlantshafsbandalagið,“ segir Jorodd Asphjell, forseti Norðurlandaráðs
Helge Orten, varaforseti Norðurlandaráðs, tekur einnig þátt í heimsókn forsætisnefndar. Jafnframt munu þeir heimsækja Evrópudómstólinn og Evrópuráðið á meðan þeir eru í Strassborg.
Reglulegir fundir
Fundirnir eru haldnir einu sinni á ári og skiptast Norðurlandaráð og Evrópuþingið á að halda þá. Norðurlandaráð hélt fyrsta opinbera fund sinn með Evrópuþinginu í Helsingfors í febrúar 2022. Á meðal umræðuefna þar var þingmannasamstarf, netöryggismál, norðurslóðir, græn umskipti og loftslagsumskipti. Næsti fundur Evrópuþingsins og Norðurlandaráðs verður haldinn á vegum Norðurlandaráðs árið 2024.
Í stefnu Norðurlandaráðs í alþjóðamálum er lögð aukin áhersla á alþjóðleg samskipti ráðsins. Stefnan var samþykkt á þemaþingi Norðurlandaráðs í Reykjavík í mars á þessu ári.
Sambandið við Evrópuþingið skiptir Norðurlandaráð mjög miklu máli. Á þeim óvissutímum sem við lifum er mikilvægt að lýðræðislegar stofnanir vinni saman.