Norðurlandaráð hefur formlegt samstarf við Evrópuþingið
Norðurlandaráð á þegar í óformlegum og góðum tengslum við Evrópuþingið en þau munu styrkjast enn frekar þegar samstarfið verður formlegt. Framkvæmd samstarfsins verður með sama hætti og samstarf Evrópuþingsins hefur verið við Ísland og Noreg og Vestnorræna ráðið sem áður hafa átt í formlegu þingsamstarfi við Evrópuþingið.
„Við höfum nú tekið afar mikilvægt skref með því að koma á fót árlegu samtali við Evrópuþingið. Nánara samstarf við ESB er meðal forgangsmálefna í stefnu Norðurlandaráðs í alþjóðamálum og við fögnum því að hafa nú tekið áþreifanlegt skref framávið. Það sem á sér stað í ESB skiptir öll Norðurlöndin miklu máli, jafnvel þótt löndin séu ekki öll aðilar að ESB þannig að nánara samstarf er afar jákvætt,“ segir Bertel Haarder, forseti ráðsins árið 2021.
Fleiri málefni á dagskrá
Á árlegum fundum verður meðal annars rætt um Norðurslóðir, ráðstefnu um framtíð ESB, sjálfbærniverkefni ESB, Green Deal, og upplýsingaóreiðu og netöryggi. Þá geta önnur málefni líðandi stundar komið til umræðu, eftir því hvað um er að vera hverju sinni, til dæmis kórónuveirufaraldurinn.
Unnið hefur verið að því að auka samstarfið við ESB allar götur síðan 2017 þegar Norðurlandaráð kom á fót skrifstofu í Brussel. Árið 2019 var ákveðið í forsætisnefnd að leita eftir formlegu þingsamstarfi við Evrópuþingið. Í apríl 2020 var send beiðni þess efnis og hún var samþykkt í maí sama ár.
EES-sendinefnd Evrópuþingsins (DEEA) verður samstarfsaðili Norðurlandaráðs hjá ESB. Þátttakendur í fundinum með Evrópuþinginu voru Bertel Haarder, Annette Lind, varaforseti og skýrslugjafar forsætisnefndar um ESB, Oddný Harðardóttir og Linda Modig.
Forsætisnefnd hitti ESB-nefnd Norðurlandaráðs
Norðurlandaráð tók nýlega þátt í öðrum ESB-tengdum fundi. Á mánudaginn hittust forsætisnefnd Norðurlandaráð og norrænu þingnefndirnar sem fjalla um ESB- og utanríkismál. Þessi rafræni fundur var framhald fyrri fundar í Helsinki árið 2019.
Á fundinum var meðal annars rætt um norræna þingsamstarfið um málefni ESB, þar með talið þörfina fyrir nánara samstarf eftir Brexit, norrænt framlag til ráðstefnu um framtíð Evrópu, samhæfingu á sviði heilbrigðismála og bólusetninga, ójöfnuð og félagslegar áskoranir sem tengjast heimfaraldrinum og norðurslóðastefnu ESB. Einnig var rætt um hvernig hægt væri að styrkja samstarf ESB-nefnda og Norðurlandaráðs.