Fyrsti formlegi fundur Norðurlandaráðs og Evrópuþingsins

22.02.22 | Fréttir
Nordiska rådet mötte Europaparlamentet i Helsingfors den 21 februari 2022.

Nordiska rådet och Europaparlamentet

Photographer
Hanne Salonen / Norden.org
Norðurlandaráð og Evrópuþingið héldu tveggja daga fund sinn í Helsingfors. Á fundinum var meðal annars rætt um netöryggi, málefni norðurslóða og loftslagsvandann. Þetta var fyrsti fundurinn sem haldinn er eftir að þingstofnanirnar tvær hófu formleg samskipti.

Ýmis mikilvæg málefni voru á dagskrá fundarins fyrri daginn í Helsingfors. Má þar nefna upplýsingaóreiðu og netöryggi sem lýðræðinu stendur ógn af en einnig loftslagsmál og græna sáttmála ESB sem snýr að því að Evrópusambandið verði fyrsta kolefnishlutlausa álfa heims fyrir árið 2050. Framtíðarsýn Norðurlanda er að verða sjálfbærasta svæði heims árið 2030.

Sameiginleg hagsmunasvið

Erkki Tuomioja, forseti Norðurlandaráðs, var gestgjafi fundarins í Helsingfors 21.-22. febrúar.

„Norðurlandaráð fagnar 70 ára afmæli á þessu ári og við fögnum því að árið marki einnig upphaf traustra formlegra samskipta við Evrópuþingið. Fundur okkar í Helsinki er til vitnis um að Norðurlandaráð lítur á ESB sem mikilvægan samstarfaðila í alþjóðastarfi ráðsins. Þetta er samstarf sem á eftir að bera árangur á sviði sameiginlegra hagsmunamála svo sem lýðræðis, loftslagsmála og málefna norðurslóða,“ segir Erkki Tuomioja.

Þá var á fundinum rætt um uppbyggingu og umgjörð formlegra samskipta milli Norðurlandaráðs og Evrópuþingsins og stefnu ESB í málefnum norðurslóða.

Heimsókn til NIB og NEFCO

Seinni daginn var fundað með Norræna fjárfestingabankanum og norræna umhverfisfjármögnunarfélaginu, NEFCO. Auk þess heimsóttu þingmennirnir þekkingarmiðstöðina The European Centre of Excellence for Countering Hybrid Threats.

Christel Schaldemose, evrópuþingkona danskra jafnaðarmanna, fór fyrir sendinefnd Evrópuþingsins en hún situr í flokkahópi jafnaðarmanna á Evrópuþinginu.

„Norðurlandaráð er Evrópuþinginu mikilvægur samstarfsaðili. Norðurlandaráð leggur áherslu á græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd og vegna sterkra norrænna hefða á þessum sviðum er ég viss um að við getum miðlað hvert öðru góðri reynslu. Við sjáum að upplýsingaóreiða fer vaxandi í samfélögum okkar og samstarf á því sviði er afar mikilvægt. Við erum einmitt nú að að semja um nýja löggjöf á sviði netöryggis, stafvæðingar og tækni á Evrópuþinginu. Þetta eru mikilvæg málefni sem munu hafa gríðarleg áhrif á framtíð okkar. Ég er ánægð með góðar samræður og skoðanaskipti við Norðurlandaráð,“ segir Christel Schaldemose.

Formlegur fundur árlega

Norðurlandaráð er virkt í alþjóðlegu samstarfi og vinnur náið með ýmsum löndum og stofnunum. Evrópusambandið nýtur þar sérstaks forgangs. Í stefnu Norðurlandaráðs 2018-2022 segir meðal annars að Evrópusambandið sé Norðurlöndum sérlega mikilvægt og þess vegna vilji Norðurlandaráðs efla samskiptin við þingmenn ESB og ýmsar stofnanir sambandsins. Þá hefur Norðurlandaráð komið á fót skrifstofu í Brussel til þess að styrkja samstarfið við ESB.

Samkvæmt samkomulagi Norðurlandaráðs og Evrópuþingsins skal haldinn einn formlegur fundur á ári auk málþinga og annarra sameiginlegra funda um tiltekin málefni.