Hans Abrahamsen hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs fyrir „Let Me Tell You“

01.11.16 | Fréttir
Nordisk Råds musikpris 2016
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Daninn Hans Abrahamsen hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs fyrir söngbálk sinn „Let Me Tell You“ á verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.

Handhafi verðlaunanna frá því í fyrra, Svante Henryson, afhenti Abrahamsen verðlaunin og verðlaunaféð, 350 þúsund danskar krónur, í tónleikahúsi danska ríkisútvarpsins (DR). 

Rökstuðningur

Engum þeim, sem heyrir söngbálkinn „Let Me Tell You“ eftir Hans Abrahamsen, getur dulist að þar fer verk í hæsta gæðaflokki. Verkið býður upp á marglaga túlkun og ber vott um bæði ríkt innihald og fágun, með brothættum formgerðum sem þó eru teknar föstum tökum. Sinfónísk uppbyggingin kann að virðast hefðbundin, en er engu að síður nýstárleg og hugvitsöm og ljáir verkinu afar nútímalegan blæ.

Verkið er samið af miklum faglegum metnaði, ekki síst hvað varðar blandaða notkun á blæbrigðum hljómsveitarinnar, en einkum er sönghlutinn athyglisverður sökum þess hve snilldarlega tónskáldið færir sér í nyt rödd og tónlistargáfu Barböru Hannigan, sem verkið er skrifað fyrir. Hér eru hæfileikar hennar sannarlega nýttir til hins ítrasta.

Tilfinningaleg tjáning í verkinu er stórkostlega margbrotin, nákvæm og sterk, einkum í langa söngnum í lokin (líkt og í „Das Lied von der Erde“ eftir Mahler), þar sem hinir mörgu þættir verksins koma saman í heildstæða hugmynd.

Þegar á allt er litið mun þetta verk hljóta sinn sess á efnisskrám og vera metnaðarfullum sópransöngkonum áskorun um mörg ókomin ár.

Vefvarp