Hringlaga hagkerfi er framtíðin – nýtt tölublað af „Green Growth the Nordic Way“

29.04.15 | Fréttir
Genbrug
Photographer
Sigurður Ólafsson/norden.org
Í nýjasta tölublaði „Green Growth the Nordic Way“, veftímarits Norrrænu ráðherranefndarinnar, er sjónum beint að nýjum niðurstöðum þriggja stórra verkefna um endurnýtingu vefnaðarvöru, endurvinnslu plasts og matarúrgang. Niðurstöður benda til þess að ýmsir möguleikar séu fyrir hendi í þessum málaflokkum til að skapa ávinning í umhverfismálum og fleiri störf á Norðurlöndum.

Hringlaga hagkerfi er hugtak sem verður æ útbreiddara í umræðu um efnahags- og umhverfismál. Endurvinnsla hefur löngum verið fyrirferðarmikil í þeirri umræðu en upp á síðkastið er æ meiri áhersla lögð á hugvitssamlega endurnýtingu hluta, svo og nýstárlega nálgun á skipulag samfélagsgerðar okkar.

Þrjú verkefni eru nú yfirstandandi innan ramma átaksverkefnis Norrænu ráðherranefndarinnar um grænan hagvöxt og hafa niðurstöðurnar vakið athygli. Umfjöllunarefnin eru þær áskoranir sem þarf að mæta samfara ört vaxandi magni af vefnaðarvöru og plastúrgangi, auk þeirrar matarsóunar sem verður innan frumframleiðslugreina svo og á stigum smásölu og neyslu.

Í þessu nýja tölublaði „Green Growth the Nordic Way“ má lesa um nýjar niðurstöður þriggja verkefna, m.a. um glænýja norræna stefnu um vefnaðarvöru (Nordic Textile Strategy and Commitment), nýjar viðmiðunarreglur um endurvinnslu á plasti og nýskapandi rannsókn á kortlagningu matarsóunar í frumframleiðslugreinum.


Nánari upplýsingar á www.nordicway.org