Hvernig koma grunnskólar og leikskólar í veg fyrir að börn verði út undan?

03.05.17 | Fréttir
Frank Bakke-Jensen, konferense om inkludering af unge i Oslo
Ljósmyndari
Utenriksdepartementet, Norge
„Það er sameiginleg ábyrgð okkar allra að vel takist til með aðlögun nýbúa á Norðurlöndum og þátttöku þeirra í samfélaginu. Það er jafnframt efnahagsleg og félagsleg nauðsyn. Því er málið ofarlega á dagskrá í norrænu samstarfi,“ sagði Frank Bakke-Jensen, samstarfsráðherra Noregs, þegar hann bauð til ráðstefnu um hlutverk leikskóla og grunnskóla sem miðstöðva lýðræðis og mannréttinda. Ráðstefnan var haldin í Ósló dagana 2. og 3. maí í boði Norðmanna en þeir gegna formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á þessu ári.

Í formennskudagskrá Norðmanna er lögð sérstök áhersla á málefni barna og ungmenna sem standa höllum fæti í samfélaginu og lýðræðislega þátttöku þeirra. Takist okkur að koma í veg fyrir að einstaklingar verði út undan er síður hætta á að innræting ofstækis eigi sér stað.

„Umskipti eru ekki eingöngu efnahagsleg eðlis. Norðurlönd eiga jafnframt að vera forystusvæði sem bregst við breyttri samsetningu almennings, hvort sem það eru málefni eldri borgara, heilbrigðismál eða hvernig við tökum á móti aðkomufólki og virkjum það til þátttöku í samfélögum okkar,“ sagði Frank Bakke-Jensen.

Leikskólar og grunnskólar skipta sköpum fyrir þroska barna og ungmenna

Torbjørn Røe Isaksen þekkingarráðherra benti á að leikskólar og grunnskólar skipta sköpum fyrir þroska barna og ungmenna og samfélagsþátttöku þeirra:

„Nú verðum við að athuga hvernig leikskólar og grunnskólar geta sinnt móttöku og aðlögun barna og ungmenna enn betur.“

Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, benti einnig á að grunnskólar og leikskólar eru helsti sameiginlegi vettvangurinn til að skapa sameiginleg gildi og samfélag um leið:

„Menntun er aðgöngumiði að samfélaginu. Leikskólar og grunnskólar gegna því lykilhluverki í menntun og ekki síst félagsmótun lýðræðislega þenkjandi einstaklinga sem sýna hver öðrum virðingu og traust. Þrátt fyrir að félagslegur jöfnuður einkenni samfélög Norðurlanda verða alltof mörg börn og ungmenni utanveltu.“

Norrænt samstarf um þátttöku allra 

„Mikilvægt er að löndin bjóði nýkomnum börnum stuðning og menntun sem auðveldi þeim að aðlagast. Þar geta þjóðirnar lært mikið hver af annarri. Málið er ofarlega á baugi hjá Norrænu ráðherranefndinni og við höfum þegar hafið markvissar og þverlægar aðgerðir til að virkja börn og ungmenni til þátttöku,“ sagði framkvæmdastjórinn.

Þar má nefna norskt formennskuverkefni til þriggja ára fyrir aldurshópinn 0–24 ára: Hvernig er hægt að koma á þverlægu samstarfi um börn og ungmenni sem standa höllum fæti á Norðurlöndum? Stefnt er að því að mynda samstarfsnet hinna ýmsu faggeira og landa þar sem hægt verður að bera saman reynslu og skiptast á góðum lausnum til að koma í veg fyrir að ungmenni flosni upp úr námi og detti út af vinnumarkaði.

Verkefnisstjórinn, Anne-Berit Kavli frá Utdanningsdirektoratet í Noregi, segir verkefnið vera á frumstigi:

„Aðgerðum verður beint að öllu umhverfi uppvaxtarins en ekki einstaklingunum sjálfum. Við vitum að snemmbær íhlutun er mikilvæg og því viljum við finna fleiri börn sem standa höllum fæti svo við getum gripið til þverlægra aðgerða til aðstoðar barninu sjálfu, fjölskyldu þess og skóla.“