Hvers vegna á að ræða rafræn skilríki en ekki norræn borgararéttindi?

30.01.17 | Fréttir
Anna-Maja Henriksson
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Tillaga flokkahóps miðjumanna í Norðurlandaráði um norræn borgararéttindi/samnorræna kennitölu vakti mikla athygli á fundum ráðsins í Ósló í janúar. En í hverju felst tillagan? Hvers vegna kýs norræna velferðarnefndin frekar að ræða rafræn skilríki?

„Það er mikilvægt að við finnum lausn sem virkar fyrir almenna borgara þegar þeir fara á milli landanna. Menntun, atvinna og viðskipti eiga að ganga lipurlega fyrir sig og í raun þýðir það að við verðum að bæta rafræn samskipti hins opinbera og atvinnulífsins. Samtímis verðum við að forðast óþarfa skriffinnsku. Því tel ég skynsamlegt að við skoðum hvernig leysa megi ýmsan vanda á einfaldan hátt með sameiginlegum rafrænum skilríkjum frekar en að umbylta kennitölukerfum landanna fimm auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands,“ segir Bengt Morten Wenstøb (H) en hann stýrði fundi nefndarinnar í Ósló 25. janúar s.l.

Tillagan verður rædd nánar í apríl

Flutningsmaður tillögunnar fyrir hönd flokkahóps miðjumanna er finnska þingkonan Anna-Maja Henriksson. Hún segir nefndina hafa fullan áhuga á að leysa hindranir sem verða á vegi borgaranna þegar þeir færa sig um set á milli landa, en samt hafi nefndin verið áhugalítil um þá lausn sem flokkahópur hennar lagði til. Svonefnd „borgararéttindi“ fengu engan hljómgrunn því nefndin taldi að réttindi sem felast í ríkisfangi eigi að einskorðast við hvert land fyrir sig.

Það er einfaldara og ódýrara að þróa sameiginleg rafræn skilríki á Norðurlöndum með sameiginlegt kerfi í huga en að byggja upp sameiginlegt kennitölukerfi.

Flokkahópur miðjumanna undirstrikar að rætt verði áfram um tillöguna um sameiginlegt kennitölukerfi á fundi nefndarinnar í Stokkhólmi í apríl, en í raun hafi umræðan færst frá sameiginlegu kennitölukerfi til að fjalla um sameiginlegt kerfi fyrir rafræn persónuskilríki. Upphaflega tillagan verður endurskoðuð í ljósi þess sem fram kom á janúarfundinum áður en hún verður lögð fram á ný í apríl.

Hvað eru rafræn persónuskilríki?

Notkun rafrænna skilríkja í öðrum löndum en heimalandinu er ekki háð því að kennitalan sé sú sama alls staðar á Norðurlöndum. Eina krafan er sú að tengja megi kennitölu einstaklings við opinberar grunnupplýsingar landanna um borgarana. Slíkar grunnupplýsingar er meðal annars að finna í þjóðskrám sem og skrám yfir sjúkradagpeninga, atvinnuleysisbætur og lífeyri. Segja má að rafræn skilríki séu lykillinn að dyrum sem eru lokaðar fólki sem hefur ekki kennitölu í dvalarlandinu.

Því er mun einfaldara og ódýrara að samhæfa þróun rafrænna skilríkja á Norðurlöndum með sameiginlega nýtingu þeirra í huga en að byggja upp sameiginlegt kennitölukerfi. Fyrirskipun ESB um rafræn skilríki og undirskriftir við rafrænar færslur kveður á um að löndin taki rafræn skilríki gild, sem gefin eru út í öðrum ESB-löndum, til jafns á við skilríki sem gefin eru út í löndunum sjálfum. Þá hafa Norðmenn og Svíar gert forkönnun sem gefur tilefni til bjartsýni.

Rafræn skilríki eru þegar í notkun í löndunum, meðal annars sem auðkennislyklar að bönkum og kóðar sem veita aðgang að opinberri þjónustu. Rafræn skilríki eru lykill að bankaþjónustu, atvinnu, námi og viðskiptum á milli landa og tiltölulega einfalt er að aðlaga þau svo að þau gildi alls staðar á Norðurlöndum, sé pólitískur vilji til staðar. Ekki þarf að þróa ný og samnorræn rafræn skilríki heldur má notast við þau skilríki sem þegar hafa verið tekið í notkun í löndunum.

„Við höfum einar bestu lausnir í heimi og ef við vinnum saman getum við einnig skapað besta kerfið þvert á landamæri,“ segir Tor Alvik yfirmaður hjá Direktoratet for forvaltning og IKT (Skrifstofu stjórnsýslu- og upplýsingatækni) í Noregi.

Hvað eru norræn borgararéttindi?

Erfitt er að gefa lagalega skilgreiningu á hugtakinu „borgararéttindi“ (da. medborgerskab). Einnig er erfitt að þýða orðið á milli Norðurlandamálanna því innihald hugtaksins er mismunandi eftir löndum. Hugtakið er til dæmis afar sjaldgæft í Noregi en algengt í Svíþjóð. Í tillögu flokkahóps miðjumanna má skilja hugtakið þannig að um nokkurs konar ríkisfang sé að ræða.

Ríkisfang felur í sér ákveðin réttindi og skyldur í samræmi við löggjöf viðkomandi lands. Ríkisfang felur yfirleitt í sér dvalar- og atvinnuleyfi í landinu, rétt á vegabréfi, kosningarétt og kjörgengi til þings, rétt á aðstoð hjá ræðismannsskrifstofum og sendiráðum erlendis og hægt er að sækja um opinberar stöður þar sem ríkisfang er sett sem skilyrði. Í sumum löndum felur ríkisfangið í sér herskyldu í styttri eða lengri tíma. 

Flokkahópur miðjumanna sér varla fyrir sér að borgararéttindi jafngildi ríkisfangi, en engu að síður útilokar hann ekki að borgararéttindi feli í sér réttindi sem eingöngu þeir einstaklingar njóta sem hafa ríkisfang í landinu í dag.

Hvað er kennitala?

Kennitala er ekki tengd ríkisfangi. Hver einstaklingur hefur sína eigin kennitölu. Tilgangurinn með kennitölu er að gera hinu opinbera kleift að aðgreina einstaklinga. Hlutverk hennar er því praktískt frekar en lagalegs eðlis. Sameiginlegt kennitölukerfi á Norðurlöndum yrði kostnaðarsamt og tímafrekt þar sem samræma þyrfti mismunandi upplýsingatæknikerfi landanna.