Menningarmálaráðherrarnir ræddu framtíð norrænna fjölmiðla í alþjóðlegu samkeppnisumhverfi

01.11.17 | Fréttir
Kulturministrar
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Á fundi sínum í Helsinki á miðvikudag ræddu norrænu menningarmálaráðherrarnir hugsanlegar aðgerðir á sviði fjölmiðla, stuðning við þá og reglur á sviðinu með það í huga að tryggja norrænt, alþjóðlega samkeppnishæft fjölmiðlalíkan til framtíðar. Útgangspunktur umræðnanna var ný stefnumótandi úttekt á sviðinu.

„Við áttum góðar umræður um það hvaða stjórntæki og stuðningsform megi nýta til að tryggja sjálfbært og fjölbreytt fjölmiðlalandslag með ríkisstöðvum, einkareknum miðlum og hnattrænum netmiðlum í framtíðinni, og hvernig við getum greitt fyrir nýsköpun og þróun sem stuðli að sjálfbærum viðskiptalíkönum fyrir fjölmiðla,“ sagði menningarmálaráðherra Noregs, Linda Hofstad Helleland, að loknum fundi með norrænum kollegum sínum.

Norrænt fjölmiðlalíkan og alþjóðlegir aðilar

Hin stefnumótandi úttekt „Den nordiske mediemodel og de globale aktører“ (Norræna fjölmiðlalíkanið og alþjóðlegir aðilar) veitir yfirlit yfir mikilvægustu greiningar, skýrslur og álitsgerðir undanfarinna ára um þróun fjölmiðla og einkum áhrif alþjóðlegra aðila á norrænan fjölmiðlamarkað. Úttektin var unnin af óháðu hugveitunni Mandag Morgen að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar. Ráðherrarnir ræddu tillögur sem lagðar eru fram í úttektinni og varða ýmsar hugsanlegar leiðir á sviðinu; pólitísk stjórntæki, stuðning við fjölmiðla, ábyrgð alþjóðlegra aðila gagnvart fjölmiðlum, skatta, kvótareglur og stjórntæki sem varða samkeppnislög. Framtíð ríkisfjölmiðla verður rædd á fundi menningarmálaráðherranna á vordögum 2018.

Norrænar kvikmyndir á stafrænum markaði

Stafræn væðing og hnattvæðing eru einnig mikil áskorun fyrir norræna kvikmyndageirann og ráðherrarnir ræddu viðfangsefni tengd fjármögnun, aðgengi og sýnileika norrænna kvikmynda á stafrænum markaði. Ráðherrarnir ræddu niðurstöður málþingsins „Norræna brúin – Hvernig vekjum við athygli á norrænu efni á stafrænni öld?“ sem fram fór í Haugesund í ágúst og báðu framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar að kanna möguleika á að auka fjármögnun til framleiðslu norrænna kvikmynda svo að fleiri þeirra nái augum áhorfenda, bæði á Norðurlöndum og alþjóðlega.

Nordic Matters

Menningarmálaráðherrarnir deildu reynslu sinni af norrænu hátíðinni Nordic Matters, sem stendur yfir allt árið 2017 á Southbank Centre í Lundúnum. Matsferli á hátíðinni er hafið undir umsjón Kulturanalys Norden en hingað til hefur mikil aðsókn verið á viðburðinn, sem státar af umfangsmikilli dagskrá með þátttöku fjölda norræns listafólks og annarra úr menningargeiranum. Einnig hafa fjölmiðlar sýnt hátíðinni mikinn áhuga. Nordic Matters og samnorræn átaksverkefni á erlendum vettvangi voru líka á dagskránni á samráðsfundi ráðherranna með norrænu þekkingar- og menningarnefndinni.

Traust á fjölmiðlum

Einnig áttu ráðherrarnir uppbyggilegar umræður við þingmenn Norðurlandaráðs um traust norrænna borgara á fjölmiðlum. Þeir ræddu m.a. hvaða pólitísku úrræði mætti nýta til að viðhalda og efla traustið sem er grundvallargildi og forsenda þess tjáningarfrelsis og opnu lýðræðissamfélaga sem við búum við á Norðurlöndum.

„Þegar lygar og ósannindi eru dubbuð upp eins og fréttir og þeim dreift á samfélagsmiðlum, þá veikir það undirstöður hugmynda okkar um hlutlægan sannleika. Það sáir efasemdum um trúverðugleika fjölmiðla og grefur undan trausti almennings á því að fjölmiðlar stuðli að opinni og upplýstri opinberri umræðu. Því er afar mikilvægt að við veitum mótspyrnu þeim sterku öflum sem vilja veikja traust almennings á fjölmiðlum,“ sagði menningarmálaráðherra Noregs, Linda Hofstad Helleland.

Ráðherrarnir eru sammála um að á næstunni beri að leggja mikla áherslu á starf sem miðar að því að efla fjölmiðlalæsi íbúa á Norðurlöndum. Jafnframt vilja ráðherrarnir efla og stuðla að auknu samstarfi milli norrænna fjölmiðlafyrirtækja og vera áfram öflug rödd Norðurlanda í því starfi sem unnið er innan Evrópu gegn „fölskum fréttum“ og til eflingar fjölmiðla- og tjáningarfrelsi.