Norðurlönd taki afstöðu gegn „The Global Gag Rule“

23.06.20 | Fréttir
Global Gag Rule
Ljósmyndari
Andrew Caballero-Reynolds / Scanpix
Árið 2017 var innleidd regla í Bandaríkjunum sem kennd er við „The Global Gag“, sem bannar fjárhagslegan stuðning við alþjóðasamtök sem bjóða upp á þungunarrof eða tilvísanir til þungunarrofs. Norræna velferðarnefndin segir regluna marka bakslag fyrir jafnrétti og fyrir kyn- og frjósemisheilbrigði og frjósemisréttindi kvenna. Nefndin hvetur því norrænu ríkisstjórnirnar til að taka afstöðu gegn reglunni og auk þess að efla norrænt og alþjóðlegt samstarfi um rétt kvenna til þungunarrofs.

- Hvort sem það er á grundvelli nauðgunar, ungs aldurs, félagslegs eða heilsufarslegs vanda, eða einhvers allt annars, eiga konur að hafa rétt til og aðgang að þungunarrofi. Þannig ætti það að vera á Norðurlöndum og um allan heim, segir Nina Sandberg, sem situr í nefndinni. Á grundvelli reglunnar hafa Bandaríkin lagt niður styrki sem í heild nema milljörðum dollara til samtaka sem bjóða upp á þungunarrof eða tilvísanir til þungunarrofs. Afleiðingin er að konum er gert erfiðara um vik eða ómögulegt að gangast undir þungunarrof. Norræn vinstri græn hafa áhyggjur af þessari þróun og þau lögðu fram tillöguna sem velferðarnefndin hvetur nú norrænu ríkisstjórnirnar til að bregðast við.

Áskorun um fordæmingu á „The Global Gag Rule" 

Í áskorun Norrænu velferðarnefndarinnar eru ríkisstjórnir Norðurlanda hvattar til að:

 

  • Taka afstöðu gegn „The Global Gag Rule“.

 

  • Efla norrænt samstarf um alþjóðaverkefni í þágu kyn- og frjósemisheilbrigðis og -réttinda kvenna.

Hvort sem það er á grundvelli nauðgunar, ungs aldurs, félagslegs eða heilsufarslegs vanda, eða einhvers allt annars, eiga konur að hafa rétt til og aðgang að þungunarrofi. Þannig ætti það að vera á Norðurlöndum og um allan heim

 

Nina Sandberg, Norrænu velferðarnefndinni

Sem ungir Norðurlandabúar höfum við þungar áhyggjur

Samkvæmt hugveitunni Kaiser Family Foundation varðar reglan starfsemi 1.275 samtaka í heiminum og þau gætu orðið af milljörðum í formi styrkja. Læknastofur, meðal annars í þróunarríkjum, geta vegna þessa þurft að loka dyrum sínum og fjöldi kvenna misst aðgang að öruggu þungunarrofi.

- Sem ungir Norðurlandabúar, konur og karlar, höfum við þungar áhyggjur af því að annað ungt fólk hafi ekki sama rétt og við til þungunarrofs, segja þau Margrét Steinunn Benediktsdóttir og Dag Henrik Nygård, fulltrúar Norðurlandaráðs æskunnar í velferðarnefndinni. Bæði hvetja þau til aukins norræns samstarfs um málefnið, á sviði stjórnmála og ungmennasamtaka á Norðurlöndum og um allan heim.