Norðurlöndin fara með #metoo á fund Kvennanefndar SÞ

14.03.18 | Fréttir
Nordisk Ministerpanel CSW2018
Norrænu jafnréttismálaráðherrarnir munu leggja mikla áherslu á réttindi kvenna til kynfrelsis og barneigna þegar þeir taka þátt í fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York í næstu viku. Á sameiginlegum viðburði sínum 14. mars munu þeir meðal annars tala um áhrif #metoo-hreyfingarinnar á stjórnvöld á Norðurlöndum.

Fundur Kvennanefndar SÞ, CSW, er mikilvægasti alþjóðlegi viðburður heims sem hefur að markmiði að bæta stöðu kvenna um heim allan.  Þangað koma bæði fulltrúar stjórnvalda aðildarríkja SÞ og um 8000 fulltrúar frá kvennahreyfingum um allan heim. 

Fjórir norrænir jafnréttisráðherrar og ráðneytisstjóri jafnréttismála í Svíþjóð eru á leið á CSW til þess að taka þátt í fundinum, standa að fundum - og bregðast við hinni gríðarlegu eftirspurn sem er eftir norrænni jafnréttisstefnu.  

„Við erum tilbúin til þess að taka alþjóðlega forystu“ 

Pernilla Baralt, ráðuneytisstjóri jafnréttismála í Svíþjóð og staðgengill formanns Norrænu ráðherranefndarinnar um jafnréttismál stendur meðal annars fyrir umræðum með norrænum ráðherrum jafnréttismála þann 14. mars í húsi SÞ.

„CSW fer í ár saman við einstaka alþjóðlega hreyfingu sem berst fyrir réttindum kvenna. Sænska ríkisstjórnin og ríkisstjórnir hinna Norðurlandanna vilja nota tækifærið og leggja áherslu á rétt kvenna og stúlkna yfir sínum eigin líkama. Við erum tilbúin til þess að taka alþjóðlega forystu í því að verja friðhelgi líkama kvenna og rétt þeirra sem kynverur og til barneigna,“ segir Pernilla Baralt.

Aðrir þátttakendur í umræðunum eru Karen Ellemann, Danmörku, Linda Hofstad Helleland, Noregi, Ásmundur Einar Daðason, Íslandi og Kai Sauer, Finnlandi. 

Meginþema fundar Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York í ár er jafnrétti á landsbyggðinni. Norrænu jafnréttismálaráðherrarnir munu tengja umræðurnar á þessum fundi við meginþemað:

Rights, roles and realities – Nordic strategies for gender equality

Þrátt fyrir forystu Norðurlandanna á sviði jafnréttismála ríkir þar mikill svæðisbundinn og staðbundinn breytileiki. Fleiri konur en karlar yfirgefa jaðarbyggðir og flytja til borganna og sú tilhneiging er sérstaklega sterk í Færeyjum og á Grænlandi.

Í Finnlandi, Norður-Noregi, Norður-Svíþjóð og í stórum hluta Íslands er langt í næstu fæðingadeild sem hefur fyrst og fremst afleiðingar fyrir heilsu kvenna og barna.

Þannig er alþjóðleg forysta norrænu jafnréttismálaráðherranna á sviði réttar kvenna til kynfrelsis og barneigna einnig mikilvæg á heimavelli. 

Lena Ag, framkvæmdastjóri nýrrar jafnréttisstofnunar í Svíþjóð, verður fundarstjóri.

Komið í hús SÞ eða hlýðið á umræðurnar á netinu!

  • Fylgist með umræðunum á vefvarpi SÞ 16.45-18.00 að staðartíma (21.45-23.00 að dönskum tíma)
  • Gestir á CSW í húsi SÞ í New York eru velkomnir á umræðurnar í fundarherbergi 1, kl. 16.45-18.00 að staðartíma.   
  • Hér má skoða hreyfanleg kort sem sýna jafnréttisskilyrði í jaðarbyggðarlögum Norðurlandanna.