Norðurlöndin sameinuð gegn mansali

24.06.15 | Fréttir
De nordiska flaggorna
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Norrænt samstarf hyggst nú setja aukinn kraft í baráttuna gegn mansali. Auknu samstarfi og samhæfingu úrræða er ætlað að efla fyrirbyggjandi aðgerðir gegn mansali og baráttu gegn því.

Í starfinu er litið til lengri tíma, en það mun ná hámarki með samstarfi við aðila á Norðurlöndum og á Eystrasaltssvæðinu. Markmiðið er að efla fyrirbyggjandi aðgerðir gegn mansali, auka svigrúm til að lögsækja aðila sem það stunda og að verja og styðja þolendur mansals. Átaksverkefni Norrænu ráðherranefndarinnar er m.a. ætlað að hafa áhrif með því að auka reynslumiðlun sérfræðinga og fagfólks sem láta til sín taka í baráttunni gegn mansali.

 

„Á undanförnum árum hafa myndast tengslanet á Norðurlöndum sem eru mikilvæg í baráttunni gegn mansali og hefur mikil og dýrmæt reynsla safnast. Nú hleypum við af stokkunum nýju og markvissu átaki gegn þessu þrælahaldi nútímans, sem á sér því miður stað í óhugnanlegum mæli. Samstarf við Eystrasaltssvæðið er forsenda árangurs til framtíðar í þessum efnum,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, sem lætur þessi málefni sig miklu varða.

 

Átakinu, sem nýtur mikils stuðnings innan norræns samstarfs, er ætlað að efla stefnumótun í löndunum í baráttunni gegn mansali.