Norðurlöndin þétti samstarf um mat á erlendri menntun

11.10.17 | Fréttir
Í nýrri norrænni kortlagningu á matskerfum fyrir erlenda menntun eru löndin hvött til að vinna þéttar saman að því að auðvelda einstaklingum sem koma til Norðurlanda að nýta færni sína og menntun.

Fólksfjölgunarspár og hnattrænn flóttamannavandi benda til þess að fólksflutningar til Norðurlanda muni halda áfram að aukast á komandi árum. Á síðari árum hafa löndin tekið á móti þúsundum flóttafólks. Menntun og starfsréttindi aðkomufólksins er mismunandi og það þarf að aðlaga sig nýjum heimkynnum og hafa gagn af færni sinni.

Brýnt er að koma á skilvirkum matskerfum fyrir umsækjendur með erlenda menntun eða starfsréttindi. Á það við um einstaklinga sem hyggjast stunda nám eða starfa á Norðurlöndum en einnig atvinnurekendur sem eru á höttum eftir færu vinnuafli.

„Vinna er án efa mikilvægur lykill að góðri aðlögun. Hugmyndin með skýrslunni er að benda á leiðir til að nýta betur þá færni sem innflytjendur hafa með sér í farteskinu til Norðurlanda,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Norðurlöndin hafa löngum átt samstarf um mat á erlendri menntun en ýmislegt er ólíkt með löndunum. Í skýrslunni kemur fram að löndin gera ólíkar kröfur og sama á við um verklagið við framkvæmd matsins.

„Við þurfum gott og fyrirsjáanlegt matskerfi fyrir erlenda færni. Fréttir af innflytjendum sem fá ekki vinnu þrátt fyrir að vera vel menntaðir eru slæmar fyrir einstaklinginn en einnig fyrir samfélagið. Þar getum við lært mikið hvert af öðru á Norðurlöndum. Sú er ástæðan fyrir því að við vildum ræða þessi mál í ár á meðan við gegnum formennsku í Norrænu ráðherranefndinni,“ segir Henrik Asheim, þekkingarráðherra Noregs.

Rambøll Management Consulting framkvæmdi kortlagninguna að beiðni Norrænu ráðherranefndarinnar og norska formanns ráðherranefndarinnar um menntun og rannsóknir. Skýrslan greinir frá því hvernig löndin standa að mati á erlendri menntun og starfsréttindum og bjóða upp á viðbótarmenntun.

Þar kemur einnig fram að margir aðilar sinna þessum málum, margar upplýsingaleiðir og margir sem hitta innflytjendur á degi hverjum. Samtímis skortir sameiginleg kerfi og löggjöf til að stýra mati á menntun. Í skýrslunni er mælt með því að upplýsingagjöf til notenda verði bætt, samhæfing innanlands og milli norrænu landanna verði aukin svo og samstarf þeirra á milli.

Skýrslan á einnig að nýtast við afnám stjórnsýsluhindrana milli norrænu landanna, einnig Álandseyja, Færeyja og Grænlands og skapa grunn fyrir áframhaldandi samstarf á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar.