Norrænir ráðherrar beita sér fyrir málfrelsi og kyn- og frjósemisréttindum kvenna

09.03.16 | Fréttir
CSW event 2014
Ljósmyndari
UN Photo/Paulo Filgueiras
Í næstu viku halda sex norrænir ráðherrar jafnréttismála til New York til að taka þátt í kvennanefndarfundi Sameinuðu þjóðanna (CSW). Þar munu þeir tala einum rómi fyrir eflingu kyn- og frjósemisréttinda kvenna í heiminum.

Mánudaginn 14. mars hefst kvennanefndarfundur Sameinuðu þjóðanna, sem er fjölmennasti fundur baráttunnar fyrir auknu kynjajafnrétti í heiminum.

Þúsundir taka þátt í fundinum árlega. Ríkisstjórnir Norðurlandanna halda nú þangað ásamt sendinefndum sem skipaðar eru stjórnmálamönnum, sérfræðingum og fulltrúum félagasamtaka.  

Sérfræðingahópur um hatursáróður á netinu

Í ár munu jafnréttisráðherrarnir meðal annars taka þátt í alþjóðlegum umræðum um kynbundinn hatursáróður á netinu. Á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar verður haldinn viðburður með þátttöku sérfræðinga frá öllum Norðurlöndunum. Það eru Emma Holten aktívisti, Anine Kierulf fræðikona, Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, rithöfundur og blaðakona, Johnny Lindqvist verkefnastjóri og Nasima Razmyar þingkona.

 „Fullu jafnrétti kynja verður ekki náð ef við tryggjum ekki rétt kvenna til að tjá sig án þess að þurfa að óttast áreitni og ofsóknir. Án tjáningarfrelsis munu konur ekki njóta fullra borgaralegra réttinda. Þar er neikvæð hegðun og umræða í netheimum gríðarleg hindrun. Bæði fyrir konur og fólk sem tilheyrir minnihlutahópum,“ segir Emma Holten.

Fulltrúar Norðurlandanna beita sér

Meginþema kvennanefndarfundarins í ár er „valdefling kvenna og sjálfbær þróun“ og munu umræður snúast um hvernig kvennanefndin getur stuðlað að framkvæmd hinna 17 heimsmarkmiða um sjálfbæra þróun, sem þjóðarleiðtogar heims samþykktu haustið 2015.

  • 17 Goals to Transform Our World (FN)

Fulltrúar allra Norðurlandanna munu beita sér fyrir því að ákvæði um kyn- og frjósemisheilbrigði verði með í lokasamþykkt fundarins. 

„Kyn- og frjósemisréttindi kvenna eru forsendur kynjajafnréttis og aukinnar valdeflingar kvenna og stúlkna,“ segir Åsa Regnér, jafnréttisráðherra Svíþjóðar. 

Kynjajafnrétti forsenda sjálfbærrar þróunar

Ráðherrarnir munu m.a. tala um að jafnrétti kynjanna sé forsenda þess að öðrum sjálfbærnimarkmiðum verði náð. Þeir munu einkum leggja áherslu á mikilvægi jafnréttis hvað varðar markmiðin um góða menntun, góða heilsu og velmegun, minnkað ójafnrétti og öflugt atvinnulíf og hagvöxt.

Juha Rehula, ráðherra jafnréttismála í Finnlandi, mun tala um reynslu Norðurlandanna af því að tryggja mannsæmandi skilyrði á vinnumarkaði:

 „Mannsæmandi vinnuskilyrði og sömu laun fyrir sömu störf eru hornsteinar sjálfbærrar þróunar og hagvaxtar. Þá eru möguleikar beggja foreldra á samræmingu fjölskyldu- og einkalífs mikilvægur þáttur til að tryggja atvinnuþátttöku kvenna. Þá reynslu eiga Norðurlandaþjóðirnar sameiginlega,“ segir Juha Rehula.   

Hliðarviðburður Norrænu ráðherranefndarinnar verður 16. mars, þegar norrænu jafnréttisráðherrarnir taka þátt í pallborðsumræðum í höfuðstöðvum SÞ, kl. 11:30–12:45 að staðartíma (frá kl. 16:30 að íslenskum tíma). 

Hægt verður að fylgjast með viðburðinum á vefvarpi SÞ:

Föstudaginn 18 mars verður á dagskrá hliðarviðburður með þátttöku norrænu sérfræðinganna undir yfirskriftinni Fighting Sexism and Hate Speech Online - a Nordic Panel of experts kl 11:30–12:45 að staðartíma (frá kl. 16:30 að íslenskum tíma)

Þeim umræðum verður einnig hægt að fylgjast með í beinni útsendingu eða horfa á upptöku eftir á, á vefvarpi SÞ.

 

Tengiliður