Norrænir ráðherrar kalla eftir framtíðarskýrslu um karla og jafnrétti

05.11.14 | Fréttir
Á vettvangi norræns samstarfs hefur undanfarið verið lögð áhersla á aukna þátttöku og ábyrgð karla og drengja í baráttunni fyrir auknu jafnrétti. Nú hafa norrænu jafnréttisráðherrarnir skipað starfshóp sem á að koma með skýrar tillögur að forgangsröðun í þessum málum, sem Norðurlönd geti nýtt til að hámarka norrænt notagildi á svæðinu til framtíðar.

Á fundi Norrænu ráðherranefndarinnar um jafnréttismál í Kaupmannahöfn á mánudaginn fór fram sérstök þemaumræða um karla, drengi og jafnréttismál.

„Um árabil höfum við efnt til ráðstefna, funda og rannsókna með góðum árangri. Nú er tímabært að leggja fram skýrar tillögur sem fylgja má eftir til að ná auknum árangri í þessum málum á Norðurlöndum. Til dæmis þarf að rýna í löggjöfina – er hún nægilega skýr til að stuðla að því að við náum markmiðum okkar um aðkomu karla og drengja að jafnréttisstarfi?“ sagði Eygló Harðardóttir, íslenski jafnréttisráðherrann og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um jafnréttismál árið 2014.

Forgangssvið til lengri tíma litið

Ný samstarfsáætlun jafnréttisráðherranna fyrir tímabilið 2015–2018 var samþykkt á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi 29. október, en annað af tveimur þverfaglegum forgangssviðum áætlunarinnar snýr að virkri þátttöku karla og drengja í jafnréttisstarfi.

„Áhugavert er að karlmenn eru ekki aðeins í meirihluta þeirra sem skipa valda- og áhrifastöður í samfélaginu heldur eru þeir einnig í meirihluta í neðstu lögum samfélagsins, svo sem í fangelsum. Þetta tel ég þörf á að skoða nánar,“ sagði Manu Sareen, jafnréttisráðherra Danmerkur, sem verður formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um jafnréttismál árið 2015.

„Við viljum vissulega virkja drengi og karla, en fleiri kvenna er einnig þörf í jafnréttisbaráttunni. Í Danmörku fara skoðanaskipti um þessi mál oft fram milli tveggja andstæðra póla. Fleiri konur mættu til dæmis taka þátt í umræðunni um aukinn vilja meðal feðra til að verja tíma með börnunum eftir skilnað. Jafnréttisumræðan er mun flóknari en ætla mætti,“ sagði Manu Sareen.

Frá kvennabaráttu til karlmiðaðra málefna

Jafnréttisráðherrarnir lýstu þeirri skoðun á fundinum að aðkoma karla að jafnréttisbaráttu, sem áður hefði einskorðast við þátttöku þeirra í kvennabaráttunni, væri nú farin að snúast um sértæk jafnréttismál sem varða karla, t.d. á sviðum heilbrigðis- og velferðarmála, menntunarmála, föðurhlutverksins og jöðrunar innan samfélagsins

„Jafnari skipting umönnunarstarfa inni á heimilinu eflir hvort tveggja, möguleika kvenna á vinnumarkaði og karla í föðurhlutverkinu. Karlar sem starfa í hefðbundnum kvennastéttum vega á móti hefðbundinni kynjaskiptingu vinnumarkaðarins og efla starfsmöguleika beggja kynja. Það hefur einnig þá heppilegu aukaverkun í för með sér að dregur úr kynbundnum launamun sem stafar af kynjaskiptingu á vinnumarkaði,“ sagði Eygló Harðardóttir.