Norrænir ráðherrar taka höndum saman gegn sýklalyfjaónæmi

10.09.15 | Fréttir
Ministermøde i København
Ljósmyndari
Vita Thomsen/Norden.org
Ráðherrar heilbrigðismála og matvæla á Norðurlöndum ætla að taka höndum saman í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi. Meðal annars koma Norðurlöndin nú á fót stefnumótunarhópi sem á að efla samstarf Norðurlanda gegn sýklalyfjaónæmi þvert á landamæri og fagsvið.

Heilbrigðisráðherrar og matvæla- og landbúnaðarráðherrar aðildarlanda Norrænu ráðherranefndarinnar hafa gefið út sameiginlega yfirlýsingu sem á að efla samstarf Norðurlanda um sýklalyfjaónæmi og gera löndunum kleift að tala einum rómi út á við, til dæmis í Evrópusambandinu.

„Sýklalyfjaónæmi er vaxandi vandamál sem getur gert heilbrigðiskerfinu ákaflega erfitt fyrir ef ekki er tekið á því á skilvirkan hátt. Sýklarnir virða engin mörk fagsviða eða landa og þess vegna er mjög skynsamlegt að takast á við vandann í víðtæku og alþjóðlegu samstarfi,“ segir Sophie Løhde, heilbrigðisráðherra Danmerkur.

Norðurlöndin ætla að koma á fót stefnumótunarhópi sem á að stuðla að gagnkvæmri miðlun á bestu aðferðum (best practice) og sjá til þess að þeir kraftar sem Norðurlönd búa yfir á sviði ónæmis nýtist sem best.

Eva Kjer Hansen, umhverfis- og matvælaráðherra Danmerkur, er ánægð með að kominn sé norrænn grundvöllur sem hægt sé að byggja samstarfið um sýklalyfjaónæmi á.

„Við höfum góða reynslu af því á Norðurlöndum að halda sýklalyfjanotkun í landbúnaðinum á lágu og ábyrgu stigi því við vitum að notkun þeirra getur leitt til þróunar ónæmra sýkla. En sýklalyfjaónæmið er vandamál sem gengur þvert á landamæri og þess vegna viljum við miðla af reynslu okkar þannig að hægt sé að takast á við vandann á alþjóðavettvangi,“ segir Eva Kjer Hansen.

Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, fagnar þessu þverfaglega framtaki.

„Norðurlönd eru í fararbroddi í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi og því er þessi yfirlýsing mikilvægt skref í þá átt að leysa stórt viðfangsefni sem teygir sig yfir landamæri og mörk fagsviða. Þetta er einnig mjög áþreifanleg eftirfylgni skýrslu Bo Könbergs um þróun samstarfs Norðurlanda í heilbrigðismálum.“

Yfirlýsing ráðherranna um sýklalyfjaónæmi.

Tengiliður