Ný framtíðarsýn fyrir raforkumarkað Norðurlanda

21.11.18 | Fréttir
Fåglar på elledning_unsplash
Photographer
Slava Bowman / Unsplash
Ný framtíðarsýn verður mótuð fyrir raforkumarkað Norðurlanda. Í dag var hafist handa við mótun framtíðarsýnar á fyrsta norræna raforkuþinginu, sem haldið var í Stokkhólmi. Á þinginu voru lykilaðilar í raforkugeira Norðurlanda.

Þörfin fyrir nýja framtíðarsýn á þessu sviði er augljós nú þegar Norðurlönd eru byrjuð að fjárfesta í miklum mæli í umskiptum til endurnýjanlegra orkugjafa. Forsenda slíkra umskipta er öflugt norrænt raforkukerfi og samstarf milli ríkjanna.

ESB vinnur þar að auki að því að mynda evrópskt orkubandalag, en það mun hafa bein áhrif á raforkumarkað Norðurlanda. Þá mun koma sér vel fyrir Norðurlönd að hafa sameiginlega framtíðarsýn og stefnu fyrir þróun raforkumarkaðarins.

    Louisiana-yfirlýsingin svokallaða frá 1995 hefur gegnt lykilhlutverki í því einstaka samstarfi milli Norðurlanda sem haft hefur í för með sér mikinn ávinning fyrir ríkin. Hinn samþætti raforkumarkaður Norðurlanda hefur í gegnum tíðina verið fyrirmynd annarra í alþjóðlegu samstarfi, auk þess að hafa verið ESB innblástur.

    Það var á fundi orkumálaráðherranna í Lundi í maí 2018 sem ráðherrarnir komu sér saman um að setja saman nýja framtíðarsýn fyrir raforkumarkaðinn. Sú ákvörðun byggði á tillögu sem sett var fram í skýrslu skrifaðri árið 2017 af Jorma Ollila, fyrrum forstjóra Nokia, um norrænt raforkusamstarf.

      Framtíðarsýnin til umræðu á fundi ráðherranna 2019

      Fleiri aðilar á raforkumarkaði Norðurlanda hafa áður óskað eftir auknu samtali milli annars vegar valdhafa og hins vegar aðila í raforkugeiranum. Í skýrslunni setur Ollila einnig fram hugmynd um árlegt þing þar sem allir helstu aðilar úr raforkugeiranum koma saman til að ræða stefnumál er varða raforku. Á fundinum í Stokkhólmi kom þingið saman í fyrsta sinn og þar hófst eiginleg vinna að nýrri framtíðarsýn fyrir raforkusamstarf.

      Áætlað er að norrænu orkumálaráðherrarnir samþykki nýju framtíðarsýnina á næsta fundi sínum sem haldinn verður hér á landi í júní árið 2019. Á þeim fundi munu ráðherrarnir einnig ræða hvernig má yfirfæra framtíðarsýnina í raunverulegar aðgerðir.

      - Nú er mikilvægt að við brettum upp ermar og tökum til alvöru aðgerða. Innri raforkumarkaður okkar er gott dæmi um þann árangur sem náðst getur með samstarfi. Nú er kominn tími til að þróa samstarfið enn frekar og búa Norðurlönd undir grænu umskiptin. Þá er nauðsynlegt að raforkukerfi okkar séu í stakk búin til að taka á móti áskorunum framtíðar, segir Ibrahim Baylan, ráðherra samhæfingar- og orkumála, en hann er er í forystu fyrir norrænu orkumálaráðherranna á árinu 2018.

       

      Nánari upplýsingar veitir:

      Markus Hübner, formaður hóps um norræna rafmagnsmarkaðinn.

      í farsíma: +45 33 92 68 11 eða í gegnum netfang: mhu@ens.dk