Ný sjálfbærniverkefni í deiglunni

08.09.14 | Fréttir
Handicapskilt
Photographer
Sigurður Ólafsson/norden.org
Tvö verkefni hlutu nýlega styrki frá áætlun Norrænu ráðherranefndarinnar á sviði sjálfbærrar þróunar. Annað verkefnanna gengur út á að rannsaka réttindastöðu fatlaðs fólks í samfélaginu, en í hinu er viðfangsefnið miðlun rannsóknaniðurstaðna gegnum listgreinar.

Sjálfbærni er rauður þráður í norrænu samstarfi og skal höfð að leiðarljósi í öllum verkefnum á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar.

Ráðherranefndin veitir einnig styrki til ákveðinna verkefna á sviði sjálfbærni og í ár hafa norrænu samstarfsráðherrarnir veitt eina milljón d.kr. til tveggja verkefna í flokkunum „Aukinn margbreytileiki á Norðurlöndum“ og „Mikilvægi menningar í sjálfbærri þróunarvinnu á Norðurlöndum“, enda njóta þeir forgangs í sjálfbærnistefnu Norrænu ráðherranefndarinnar.

Menning, vísindi, kyn og minnihlutahópar

Verkefnið „Sjónarmið fötlunar, kyns og margbreytileika“ á sviði félags- og jafnréttismála er í umsjón Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar.

Það á að stuðla að samfélagsgerð án aðgreiningar, með áherslu á kynbundinn vanda fólks sem býr við fötlun.  Verkefninu er einkum ætlað að beina sjónum að ofbeldi gegn fötluðum borgurum, en einnig að bera saman þá reynslu sem fengist hefur af algildri hönnun.

Nánari upplýsingar eru á vefsíðu Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar.

Þá hlaut verkefnið Konnect eina milljón d.kr. í styrk. Um er að ræða þverfaglegt samstarfsverkefni milli Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál og Norrænu ráðherranefndarinnar um fiskveiðar og fiskeldi, landbúnað, matvæli og skógrækt (FJLS), með áherslu á sjálfbærni. Dr. Guðrún Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Stofnunar Sæmundar Fróða við Háskóla Íslands, hefur umsjón með verkefninu. Markmiðið með Konnect er að auka skilning almennings á alvarlegum umhverfisvandamálum, einkum tengdum loftslagsbreytingum, gegnum samstarf lista- og vísindafólks.

Fagsvið menningarmála og FJLS munu eiga samstarf við ungt listafólk frá öllum Norðurlöndum og norræna listaháskóla, auk virtra fræði- og vísindamanna á sviðum umhverfis-, náttúruauðlinda- og loftslagsmála í því augnamiði að auka þekkingu á málefnum tengdum sjálfbærni.

Nánar um verkefnið: Konnect.

Aðdragandi

Nánari upplýsingar um starf Norrænu ráðherranefndarinnar um tengsl menningar og sjálfbærni eru í veftímaritinu „Green Growth the Nordic Way“. Upplýsingar um jafnréttisstarf á Norðurlöndum eru hér á norden.org. Nánari upplýsingar um starfið um norrænu sjálfbærnistefnuna eru hér.