Ný skýrsla: Ungt fólk án menntunar og atvinnu – viðfangsefni og lausnir
Börn og ungmenni sem alast upp á Norðurlöndum eiga að búa við góðar aðstæður og hafa tækifæri til að láta til sín taka á mikilvægum samfélagsvettvangi. Ungmenni almennt, einnig á Norðurlöndum, þurfa að glíma við ýmis viðfangsefni á vegferð sinni á leið til fullorðinsára. Eitt helsta viðfangsefnið eru umskiptin frá skóla til vinnumarkaðar.
Í skýrslunni er rýnt í stefnur, verkefni og aðgerðir á Norðurlöndum sem miðaðar eru að ungu fólki og hafa það að markmiði að ungmennin ljúki menntun og nái síðan fótfestu á vinnumarkaði.
„Helsta tillagan varðandi stefnumótun snýr að því að hugsa heildrænt. Það felur í sér að sjá lífshlaup hvers og eins í stærra samhengi, fremur en að hugsa þröngt innan hvers geira um sig,“ segir Christer Hyggen, sérfræðingur hjá Norsku félagsvísindastofnuninni (NOVA) og umsjónarmaður rannsókna fyrir hönd NORDBUK.
Sækið skýrsluna hér: Ungt fólk án menntunar og atvinnu – viðfangsefni og lausnir
Skortur á þekkingu á því sem skilar árangri
Í skýrslunni er metið hvort og hvenær aðgerðir sem gripið hefur verið til hafa skilað árangri. Þá eru settar fram tillögur um frekari rannsóknir og stefnumótun á þessu sviði.
Að sögn Christers Hyggen hafa nýlegar norrænar rannsóknir aflað okkur góðrar þekkingar og skilnings á orsökum og afleiðingum þess að ungt fólk á Norðurlöndum lendir utanveltu í menntakerfi og á vinnumarkaði.
„Við þekkjum helstu áhættuhópa og umfang vandans en vitum minna um hvernig aðgerðir eru líklegar til árangurs, hverjum þær henta og hvers vegna sum úrræði virðast henta sumum hópum betur en öðrum. Við á Norðurlöndum höfum einstakar forsendur til þess að afla okkur meiri þekkingar um þessi mál.“
Margslungin viðfangsefni kalla á margslungnar lausnir
Skýrslan er meðal aðgerða sem gripið hefur verið til í þeim tilgangi að gera þekkingu í þessum málum aðgengilega fyrir stjórnmálamenn og annað áhrifafólk, sérfræðinga, námsmenn og fólk sem starfar með ungmennum.
„Við verðum að geta rúmað fleiri en eina hugsun í senn. Það gengur ekki að leggja allt í aðgerðir í skólakerfinu, eða allt í aðgerðir á vinnumarkaði. Það er lítið gagn í því að útskrifa ungmenni úr skóla ef þau fá ekki vinnu að loknu námi og það hefur lítið upp á sig að aðstoða þau í atvinnuleit ef ekki er sóst eftir menntun þeirra og færni á vinnumarkaðnum að loknu námi,“ segir Christer Hyggen að lokum.
Viðtal við Christer Hyggen:
Norræna barna- og ungmennanefndin (NORDBUK) er ráðgjafar- og samhæfingaraðili í öllu starfi Norrænu ráðherranefndarinnar sem lýtur að málefnum barna og ungmenna. Á tímabilinu 2012–2014 hefur NORDBUK unnið markvisst að því að afla þekkingar um ungt fólk sem verður utanveltu í menntakerfinu og á vinnumarkaði.