Ófriðarsvæði áberandi í umræðu Norðurlandaráðs um utanríkismál

02.11.16 | Fréttir
Margot Wallström
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/norden.org
Ófriðarsvæði heimsins voru áberandi í umræðu um utanríkis- og varnarmál á þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn á miðvikudag

Meðal umræðuefna voru innlimun Rússa á Krímskaga og athafnir þeirra í Úkraínu, stríðið í Sýrlandi og straumur flóttafólks, ástandið í Tyrklandi eftir misheppnaða valdaránstilraun, auk Brexit. Til grundvallar umræðunni voru skýrslur sem norrænu utanríkisráðherrarnir og varnarmálaráðherrarnir kynntu fyrir Norðurlandaráði í þingsalnum í Folketinget.

Timo Soini frá Finnlandi, sem kynnti skýrsluna um utanríkismál, lagði áherslu á hlutverk Rússlands hvað varðar stöðuna í öryggismálum í Eystrasaltinu, sem verður æ spennuþrungnari, og sagði að þróun í innri málefnum Rússlands stefndi því miður í ólýðræðislega átt.

„Við eigum þó ekki að láta Rússland einangrast, heldur viðhalda samráði við það um mikilvæg hnattræn viðfangsefni. Því fögnum við því að framhald verði á samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar í Norðvestur-Rússlandi,“ sagði Timo Soini.

Áframhaldandi samstarf

Norræna ráðherranefndin ákvað fyrr á þessu ári að halda áfram samstarfsáætlun sinni við Norðvestur-Rússland. Skrifstofur ráðherranefndarinnar í Rússlandi eru nú taldar til erlendra útsendara af rússneskum yfirvöldum, en samstarfið heldur þó áfram á ýmsum sviðum.

Ef framboðið var norrænt, þá er sigurinn það einnig. Á sama hátt munum við styðja Noreg eftir megni þegar Noregur sækist eftir sæti í öryggisráðinu.

Peter Christensen frá Danmörku, sem kynnti skýrslu varnarmálaráðherranna, vék tali sínu einnig að aðgerðum Rússlands og sagði greinilegt hvað klukkan slægi.

„Rússland er ógn – einnig á grannsvæðum okkar. Við getum aðeins tekist á við þessa ógn og þau úrlausnarefni sem henni fylgja ef við stöndum saman,“ sagði hann.

Ánægja með Svía í öryggisráðinu

Norrænu utanríkisráðherrarnir og þingmennirnir lýstu mikilli ánægju með sæti Svía í öryggiráði Sameinuðu þjóðanna. Margot Wallström, utanríkisráðherra Svía, hét því að Svíar myndu starfa að málefnum kvenna, friðar og öryggis og lagði áherslu á norrænu víddina. Hún lét heldur ekki undir höfuð leggjast að þakka fyrir stuðning hinna Norðurlandanna meðan á framboði Svía stóð.

„Ef framboðið var norrænt, þá er sigurinn það einnig. Á sama hátt munum við styðja Noreg eftir megni þegar Noregur sækist eftir sæti í öryggisráðinu,“ sagði hún.